Allnordisk Folkhälsa

Are Waerland gerir Jónas Kristjánsson heiðursfélaga í „Allnordisk Folkhälsa“
(Úr bréfi frá J.Kr. til B.L.J.).
Stokkhólmi 23. maí 1946.

Hinn 22. maí er liðinn, og ég hefi hlustað á fyrirlestur Waerlands með hrifningu og aðdáun, en þó ekki án kinnroða, eins og síðar verður vikið að. Hvert sæti var skipað í hinum stóra sal, sem tekur um 2 þúsund áheyrendur, og fjöldi hafði orðið frá að hverfa. Meginþorri þessa fólks var ungt fólk, innan við miðjan aldur og tæplega fullorðið. Létu menn aðdáun sína óspart í ljósi, enda var fyrirlesarinn oft spaugsamur og hafði áheyrendur algerlega á valdi sínu.

Ég fékk sæti á fremsta bekk við hlið frú Waerland. En að síðustu kallaði fyrirlesarinn mig til sín upp á ræðupallinn, og þú getur því nærri, hvort ég fór ekki hjá mér, þegar hann kallaði mig „Islands Arbuthnot Lane“ og festi í barm mér gullnælu með merki félagsins „Allnordisk Folkhälsa“, sem tákn þess, að ég væri gerður þar að heiðursfélaga. Sem betur fór var ekki ætlast til, að ég segði neitt, og ég held að „publikum“ hafi ekki séð, hvernig ég roðnaði út undir eyru eins og feiminn skóladrengur. Ég sagði heldur ekki margt, en benti á íslenzka flaggið, sem sómdi sér vel þarna á meðal hinna Norðurlandafánanna, og var mikið klappað fyrir fánanum okkar.

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing