Að vera trúr sinni sannfæringu


Frá því að ég var lítil hafði mig dreymt um að komast á Ólympíuleikana. Ég fylgdist með þegar að badminton var fyrst spilað á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992, þá 9 ára gömul og nýbyrjuð í badmintoni. Síðan fylgdist ég einnig með leikunum í Atlanta árið 1996. Mig dreymdi alltaf um að verða eins góður badmintonspilari og ég mögulega gæti orðið og ég ákvað ung að aldri að einn daginn myndi ég spila á Ólympíuleikunum.
Ég æfði alltaf vel, en frá árinu 2002, þá 19 ára, æfði ég eins og atvinnumaður, tvisvar sinnum á dag, og ferðaðist um heiminn á mót og í æfingabúðir allt árið um kring, einu sinni til tvisvar sinnum í mánuði. Ég reyndi að komast á Ólympíuleikana í Aþenu árið 2004, en það munaði rosalega litlu að ég kæmist inn. Sú reynsla nýttist mér hins vegar gríðarlega vel á næstu fjórum árum, en þá var minn stærsti draumur að fara sem fulltrúi Íslands á Ólympíuleikana í Peking árið 2008. Ég var staðráðin í að komast inn og sá draumur rættist eftir mikla baráttu. Eftir mína fyrstu reynslu af Ólympíuleikunum taldi ég mig þó enn eiga margt eftir ólært og mig langaði að afreka meira. Ég stefndi því einnig á Ólympíuleikana í London árið 2012. Ég æfði og æfði, keppti og keppti. Ég náði inn á Ólympíuleikana í annað sinn og stóð mig vel, lagði síðan spaðann á hillluna og hætti þar með á toppnum. Mig langar að deila með ykkur broti af því sem ég tel mig hafa lært á mínum ferli.

Ég æfði badminton samtals í 21 ár, frá átta ára til 29 ára. Í 10 ár æfði ég eins og atvinnumaður, tvisvar á dag, endalausar erfiðar líkamlegar æfingar og andlegt álag. Ég spilaði á alþjóðlegum mótum um allan heim og fór í allar heimsálfurnar (nema Suðurskautslandið) til þess að reyna að ná mér í stig inn á heimslistann. Ég spilaði meðal annars í Guatemala, Dóminíska lýðveldinu, eyjunni Máritíus í Afríku, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Íran, Rússlandi, Kína, Tælandi, Malasíu og út um alla Evrópu. Ég upplifði svo ótrúlega margt á þeim tíu árum sem ég ferðaðist um heiminn með badmintonspaðann. Þessi tíu ár kenndu mér rosalega mikið og mótuðu mig sem persónu. Ég öðlaðist styrk sem ég er afar þakklát fyrir í dag.

Það sem hafði mest áhrif á mig á mínum ferli var atvik sem átti sér stað föstudaginn 13. apríl 2007. Þá var rúmt ár í Ólympíuleika og spilararnir farnir að leggja allt í sölurnar til þess að ná sér í stig inn á heimslistann. Ég varð fyrir því óláni að renna til á gólfinu í miðjum leik á móti í Hollandi og slíta krossband í hnénu. Þá hafði ég verið að ferðast um heiminn og keppa í fimm ár og var á mjög hraðri uppleið, kominn í 37. sæti heimslistans og trónaði á toppi evrópsku mótaraðarinnar. Ég var á þessum tímapunkti í þvílíku stuði, hafði aldrei verið í betra formi og í raun aldrei verið betri í badminton en nákvæmlega þá. Mér fannst ég geta unnið alla.

Það var mikið áfall að slíta krossband. Ég kom heim, fór í myndatökur á fætinum og hitti fullt af læknum. Allir sögðu mér að ég yrði að fara í aðgerð strax og að það tæki að minnsta kosti ár að jafna mig. Ég fékk þær fréttar að ég gæti ekki farið á Ólympíuleikana árið 2008. Ég tók mér einn dag í að gráta og vera leið. Síðan fór Árni Þór, sem er einn af mínum bestu þjálfurum og vinum, með mig til læknis sem sagði mér að ákveðinn hluti af íþróttamönnum sem færi ekki í aðgerð gæti stundað sína íþrótt áfram. Þar fékk ég að heyra það sem ég þurfti að heyra. Ég ákvað að ég yrði ein af þeim. Ég taldi sjálf að ég gæti komist á leikana, þrátt fyrir að vera með slitið krossband. Ég hafði samband við færasta fólkið í sinni grein; ég fékk spelku hjá Össur, fór annan hvern dag í æfingar hjá sjúkraþjálfara og var hjá einkaþjálfara hina dagana, fór í hnykk og til næringafræðings, fór til íþróttasálfræðings, sem hjálpaði mér að setja niður ákveðin markmið og síðan gerði ég æfingar sjálf heima. Ég æfði líkamann í um fjórar klukkustundir á dag og andlega þáttinn í að minnsta kosti tvær. Fjölskylda og vinir studdu mig að öllu leyti í þessu ferli, sem hjálpaði mikið til. Tveimur mánuðum eftir krossbandaslitið fór ég á mitt fyrsta mót á ólympíuárinu, heimsmeistaramót landsliða. Ég spilaði aðallega tvíliða- og tvenndaleiki, en einn einliðaleik sem ég vann. Ég fór beint af því móti til Ástralíu, þar sem ég lenti í undanúrslitum á móti stelpunni sem ég sleit krossbandið á móti, og vann hana. Ég náði 2. sæti á því móti og 3.-4. sæti á móti í Nýja-Sjálandi helgina eftir. Ég hélt áfram að sigra á næstu mánuðum, vann tvö alþjóðleg mót á ólympíuárinu og komst í úrslit og undanúrslit á flestum mótum sem ég spilaði á. Ég hélt mér á topp fimmtíu á heimslistanum og topp sextán í Evrópu. Ég spilaði í raun óaðfinnanlega vel síðustu tíu mánuði fyrir daginn mikla sem ólympíulistinn kom út, þann 1.maí 2008. Þá kom í ljós að ég náði léttilega inn á leikana með þessum árangri. Ég tel að það að ég hafi styrkt andlegu hliðina mína svona vel og skrifað niður markmiðin mín og reynt að fylgja þeim í hvívetna hafa átt mikinn þátt í því. Árið 2007 varð að „besta árinu mínu“ sem badmintonspilara og auk þess varð ég þess heiður aðnjótandi að vera kosinn Íþróttamaður Reykjavíkur.

Krossbandaslitin gerðu mig að enn betri manneskju því ég kaus að líta á meiðslin sem jákvæðan þátt í ákveðnu ferli í lífinu sem myndi kynna mig fyrir hlutum sem ég hefði annars aldrei kynnst. Ég hefði getað vorkennt mér, farið í aðgerð og séð til hvort ég kæmist á næstu Ólympíuleika, en ég gerði það ekki. Þessi atburður sýndi mér að með réttu hugarfari er ekkert sem getur stoppað mann. Ég vann mörg mót með slitið krossband og komst inn á Ólympíuleikana með slitið krossband. Allt sem ég afrekaði á þessu eina og hálfa ári sem ég spilaði með slitið krossband var eitthvað sem margir höfðu sagt mér að gæti aldrei orðið að veruleika.

Besta árið á mínum badmintonferli varð ekki að besta árinu af sjálfu sér. Til að ná þeim markmiðum sem ég setti mér þurfti ég að beita öllum mínum styrk og einbeitingu, vera ákveðin og jákvæð og flest annað þurfti að lúta í lægra haldi fyrir markmiðunum mínum. Ég þurfti að æfa og æfa, líka þegar að ég var alveg að deyja úr þreytu.

Þegar að maður vill afreka stórkostlega hluti þarf maður að hafa þann aga sem þarf til þess að afreka stórkostlega hluti. Maður þarf að skrifa niður markmiðin sín og hafa þau stöðugt í huga sér, lesa þau á hverjum morgni og á hverju kvöldi og lifa fyrir þau. Þau eiga að vera raunsæ, en stundum háleit, og maður þarf að gera sér grein fyrir því að það er algjörlega undir manni sjálfum komið að ná þeim. Maður þarf að treysta á sjálfan sig og treysta á að þjálfararnir sínir geri sitt besta til þess að hjálpa manni að verða sá besti sem maður getur orðið. Maður þarf að hafa gott fólk í kringum sig, góða fjölskyldu og vini sem styðja mann og standa með manni í gegnum súrt og sætt. Maður þarf að taka ábyrgð á því sem maður gerir og breyta til ef það þarf að breyta til. Maður þarf að hafa augu og eyru opin, hlusta meira og tala minna. Það er fullt af fólki með sérfræðiþekkingu sem getur hjálpað manni við ýmislegt og maður þarf að kunna að leita til þeirra. Maður þarf að gera sér grein fyrir því að lífið er ferðalag, en ekki endapunktur. Þrátt fyrir að maður setji sér markmið á maður ekki að einblína það mikið á markmiðið að leiðin að markmiðinu gleymist, maður verður að njóta leiðarinnar. Maður verður að njóta sín þegar að maður nær markmiðinu, en setja sér síðan nýtt markmið, svo að ferðalagið haldi áfram. Síðast en ekki síst þarf maður að vera trúr sinni sannfæringu, ef maður trúir því að maður geti afrekað eitthvað þá getur maður það.

Ég náði markmiði mínu að koma fram fyrir hönd Íslands á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og í London árið 2012. Ég trúi því að þegar að manneskja leggur sig fram af öllum krafti fái hún það margfalt til baka. Ég fékk hluta af mínum verðlaunum til baka þegar að ég gekk inn Ólympíuleikvangana ásamt bestu íþróttamönnum heims á opnunarhátíðunum á Ólympíuleikunum. Sú tilfinning er ólýsanleg. Allir geta fundið þessa tilfinningu. Hún birtist manni þegar að maður nær þeim markmiðum sem að maður setur sér og fylgir sinni eigin sannfæringu. Ég náði mínum markmiðum á badmintonvellinum. Ég lagði spaðann á hilluna þegar að ég var á toppnum á mínum ferli og er afar sátt með það. Ég tel mig ekki hafa getað hætt í badmintoni á neinn annan hátt. Nú set ég  mér ný markmið í allt öðruvísi lífi en ég hef lifað áður, en þetta er allt saman mjög spennandi og ég er full tilhlökkunar.

Ragna Ingólfsdóttir

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi