Að kafa dýpra með hjálp markþjálfunar

Fyrir ári síðan skrifaði ég pistil um ný markmið á nýju ári. Ég setti mér sjálf markmið fyrir árið, bæði langtíma- og skammtímamarkmið. Mín markmið snéru meðal annars að því að borða hollt fæði og lifa almennt heilbrigðu lífi. Það gekk vel eins og síðastliðin ár.
Þann 1.ágúst breyttist síðan mataræði mitt á þann hátt að ég hætti að borða kjöt (svína-, nauta- og lambakjöt, kjúkling, unnar kjötvörur o.s.frv.). Ég hef reyndar ekki borðað svínakjöt og nautakjöt lengi, en ég tók nú út kjúkling og lambakjöt. Mig langaði bara aðeins að sjá hvort ég fyndi einhvern mun á sjálfri mér ef ég tæki allt slíkt út úr mataræðinu mínu. Ég hélt áfram að borða fisk, mikið af grænmeti og ávöxtum, sem og korn- og trefjaríka fæðu. Ég bætti alls kyns baunum út í grænmetisréttina sem ég bjó mér til. Ég hætti að borða hvít hrísgrjón og hvítt hveiti (sem ég borðaði þó aldrei mikið af) en fékk mér þess í stað alltaf hýðishrísgrjón og heilhveiti. 

Ég drekk að staðaldri vel af vatni yfir daginn og tek líka inn fjölvítamín, lýsi, d-vítamín og acidophilus á hverjum morgni. Ég fæ mér síðan „slökun“ magnesíumblönduna fyrir svefninn. Mér hefur í raun aldrei liðið betur í líkamanum en eins og núna eftir að ég hætti að borða kjöt. Það er eins og allt kerfið virki einhvernveginn betur. Það er erfitt að útskýra þetta, maður verður bara að upplifa það. Ég hef samt alltaf haft fína meltingu, ekkert verið þreyttari en næsti maður, verið með fína húð o.s.frv., en núna finnst mér einhvernveginn eins og meltingarfærin séu að blómstra og líði vel vegna þess að þau þurfa ekki að kljást við að melta tormelta fæðu eins og kjöt. Þetta er eitthvað sem er þess virði að prófa og sjá hvort að það hentar manni. Ég ætla allavega að halda þessu mataræði áfram.

Í desember hef ég þó leyft mér aðeins meira en venjulega, en þetta er líklega sá mánuður sem erfiðast er fyrir okkur að standast freistingar. Margir, ef ekki flestir, taka til hjá sér persónulega í byrjun janúar og eins og allir pistlar og greinar sem skrifaðar eru um þessar mundir er nú um að gera að líta á þennan tíma sem ákveðna byrjun á einhverju stórkostlegu. Það er um að gera að íhuga hollari lífshætti en áður og láta þá síðan verða að veruleika. Ég ætla aftur að setja mér markmið um heilt ár í hollu fæði og almennu heilbrigði. Ég ætla síðan að fá smá hjálp frá fagaðila með ákveðna hluti og það er það sem mig langar að skrifa um núna.

Ég kynntist markþjálfa á árinu. Ég hef í raun aldrei kynnt mér nákvæmlega hvað markþjálfun snýst um, en nú er tíminn kominn. Markþjálfinn útskýrði fyrir mér heimspekina á bak við markþjálfun og ég er mjög spennt. Markþjálfun er aðferð sem miðar að því að hámarka hæfileika einstaklings; persónulega, starfstengda, hvað sem einstaklingurinn vill einbeita sér að. Í rauninni er það ekki markþjálfinn sem er að segja þér hvað þú eigir að gera og hvernig þú eigir að gera það, heldur hjálpar hann þér að átta þig á því hvað það er sem þú vilt gera, með ýmsum spurningum, og saman ræðið þið það hvernig best er fyrir þig að gera það sem þú vilt gera.
Markþjálfi er í raun hvorki ráðgjafi né meðferðaraðili, heldur jafningi sem styður marksækjandann í hans eigin lærdómsferli og á hans eigin forsendum. Hann hjálpar marksækjanda að vekja upp spurningar sem auka sjálfsskilning og skýrleika í hugsun. Þetta er ákveðin samvinna. Hjá markþjálfa er unnið að því að marksækjandinn verði besta mögulega útgáfan af sjálfum sér. Ég er sem sagt byrjuð hjá markþjálfa, en við hittumst í fyrsta skipti um daginn og ræddum saman. Ég fékk verkefni til þess að vinna að og síðan mun ég hitta markþjálfann minn aftur núna í byrjun janúar. Núna á síðustu dögum hef ég því verið fara yfir árið 2013 og þau markmið sem ég setti mér. Skoða, breyta og bæta.

Ég set mér síðan ný markmið fyrir árið 2014 og jafnvel næstu ár líka. Hjá mér samanstendur árið 2014 af svipuðum lífsstílsmarkmiðum og áður, að viðhalda heilbrigði mínu og næra sál og líkama með því besta sem ég get. Ég vel hollt mataræði, stunda reglulega hreyfingu sem og jóga og hugleiðslu. Ég er handviss um að það skili sér í góðu líkamlegu og andlegu formi, góðu ónæmiskerfi, færri veikindum, minni þreytu, auknum krafti og vellíðan. Síðan bætast inn öðruvísi markmið en ég hef áður sett mér. Áður fyrr snérust þau fyrst og fremst um sigra á badmintonvellinum og einhverju því tengdu, en ég lauk mínum badmintonferli á síðasta ári og varð síðan móðir. Nú langar mig að fara að einbeita mér að því að finna mér framtíðaratvinnu. Nú þarf ég að skoða hvað það er sem mig langar virkilega að gera í lífinu.
Til þess að hjálpa mér í því ferli hef ég fengið mér markþjálfa sem ætlar með mér í ferðalag, ég ætla að kafa dýpra. Ef þig langar að skoða markþjálfun betur þá er hægt að skoða meira á http://www.markthjalfun.is.

Það gefur manni mikið að setja sér markmið og ná þeim. Ég vona að sem flestir setji sér markmið og hugsi vel um sig á árinu 2014. Ég minni aftur á þessa skemmtilegu línu frá lífstílsleiðtoganum Robin Sharma: „Change is hard at the beginning, messy in the middle and gorgeous at the end. (And without change, there is no progress).“

Skrifað af Rögnu Ingólfsdóttur

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi