Að halda sig við markmiðin

Nú er janúar liðinn og febrúar tekur við. Líkamsræktarstöðvarnar eru yfirleitt yfirfullar í janúar, en síðan vill yfirleitt svo til að það fer að heltast úr lestinni þegar líða fer á febrúar. Það finnst mér sárt að sjá. Margir hafa náð að halda markmiðum sínum um hollari lífsstíl í janúar en finnst erfitt að halda áfram. Þá þarf að vinna enn betur og harðar við að halda áfram að einbeita sér að þeim markmiðum sem sett voru í byrjun árs.

Hollir lífshættir eru frábært markmið og þegar að það kemst í rútínu að hugsa vel um sjálfan sig þá verður það að lífsstíl, sem maður vill helst ekki breyta út af. Fyrir þá sem hafa sett sér markmið um heilt ár í hollu fæði og almennu heilbrigði, þá er þetta bara byrjunin, en ef vel gengur þá mun afraksturinn skila sér fljótlega í betri líðan ef hann hefur ekki skilað sér nú þegar.
Mér hefur gengið vel að halda mig við þau lífsstílsmarkmið sem ég setti mér í byrjun árs, að viðhalda heilbrigði mínu og næra sál og líkama með því besta sem ég get. Á hverjum morgni hugsa ég um langtímamarkmiðin mín og set mér daglega markmið um það að velja hollt mataræði, hreyfa mig og að vera jákvæð og bjartsýn. Ég er sannfærð um að slíkur lífsstíll skili sér í líkamlegri og andlegri vellíðan.
Í mataræði mínu reyni ég að hafa eins mikið lífrænt og ég mögulega get. Aðallega finnst mér mikilvægt að hafa ávextina og grænmetið lífrænt. Þegar að ég byrjaði að borða lífrænan mat var ekki margt á boðstólnum á Íslandi. Ég er mjög ánægð með hversu mikið úrval er nú til af lífrænt ræktuðum matvælum. Það þarf ekki alltaf að leita í heilsubúðirnar, það er hægt að fá ágætis úrval af lífrænt ræktuðum ávöxtum og grænmeti í hinum ýmsu matvöruverslunum. Það hlýtur að vera nokkuð ljóst að hreinn matur, án allra hættulegra kemískra efna, rotvarnarefna og skordýraeiturs er betri fyrir líkamsstarfsemi okkar heldur en matur sem inniheldur þessi efni. Ég mæli með að þú reynir að kaupa aðeins lífrænt ræktaða ávexti og grænmeti þennan mánuðinn og ég er viss um að þú munt finna mun á sál og líkama.

Ég er alltaf með augun opin fyrir hollum mat og hef gaman af þessari ofurfæðu sem hefur verið að ryðja sér til rúms. Chia-fræ eru ofurfæða og nú er ég búin að koma þeim inn í mataræðið mitt. Í þeim eru andoxunarefni, heilprótein, trefjar, kalk, omega-3 sem og önnur vítamín og steinefni.
Fræjin veita manni orku yfir daginn því að þau gera það að verkum að umbreyting kolvetna í sykur í líkamanum verða hægari, þá varir orkan lengur og sveiflur í blóðsykri verða minni. Þar sem að það er búið að vera svo kalt í veðri þá hef ég ekki getað hugsað mér að fá mér kalt boozt eins og ég geri yfirleitt á morgnana og hef því fengið mér heitan hafragraut. Út í hann hef ég sett 2 msk. af Chia-fræjunum (sem liggja í bleyti um nótt áður en ég set þau út í), og ég finn nú varla fyrir þeim í grautnum bragðlega séð, en ég finn að þau eru að gera mér gott. Ég set auk Chia-fræjanna, rúsínur, smá kanil og rísmjólk út á grautinn. Þar sem að ég hef verið mikið heima að læra að undanförnu og ekki haft mikinn tíma í matseld þá hef ég fengið mér ótrúlega hollar og góðar brauðsneiðar með ýmsu grænmeti ofan á í hádeginu og frekar eldað á kvöldin.

Ég er mjög mikið fyrir hollu brauðin sem fást í Brauðhúsinu í Grímsbæ og ég fer þangað yfirleitt svona þriðja hvern dag og kaupi eitthvað gott brauð. Glútenlausu brauðin eru mjög góð og ég hef svolítið mikið verið að fá mér af þeim. Ofan á hef ég til dæmis sett smá smjör, 21% ost, avókadó, egg, tómata, gúrkur, papriku, og salat. Síðan strái ég Himalaya salti ofan á, en Himalaya salt hefur ýmis heilsusamleg áhrif.

Á kvöldin finnst mér gaman að elda og ég elda oftast fisk- eða kjúklingarétt.
Hér kemur uppskrift af fiskrétti sem ég var með í gær (upprunalegu uppskriftina er að finna í bókinni „Af bestu lyst“, en þessi uppskrift er breytt útgáfa), ásamt hýðishrísgrjónum (sem eru ekki unnin, eins og hvít hrísgrjón. Þau innihalda trefjar og næringarefni og eru góð fyrir okkur) með túrmerik:
Fiskréttur (fyrir tvo með góða lyst)
700 gr. nýr þorskur
3 msk. rautt pestó
salt og pipar ½ -1 tsk.
cayenne pipar
1 msk. jómfrúar ólífuolía
1 rauð paprika
½. kúrbítur
250 gr. konfekttómatar
50 gr. fetaostur smá brokkolí
1dl. hrísgrjón
1 tsk. túrmerik

Sjóða hrísgrjónin og strá túrmerik yfir þau þegar að þau eru tilbúin. Hita ofninn í 180°. Skera þorskinn niður í löng stykki og krydda með salti og pipar. Setja 2 msk af pestó á hvert stykki og brjóta það svo saman utanum pestóið. Setja stykkin í eldfast mót sem búið er að pensla með olíu. Skera grænmetið og dreifa því á milli þorskstykkjanna. Dreifa síðan feta ostinum yfir. Krydda með salti og cayenne pipar. Baka þorskinn í um það bil 25 mín., þar til hann er eldaður í gegn og grænmetið orðið meyrt.

Ég vona að sem flestir haldi áfram að hugsa um markmiðin sín í febrúar. Ef þú hefur ekki sett þér markmið fyrir árið þá er það samt ekki of seint. Það þarf ekki nema blað og penna og smá tíma til þess að einbeita sér að markmiðum sínum. Um leið og markmiðin eru komin niður á blað og maður les þau yfir reglulega þá er auðveldara að halda sig við efnið. Ef markmiðin þín snúa að heilbrigðari lífsháttum, þá er fín byrjun að losa sig við sem mest af óhollum mat í skápunum sínum og kaupa þess í stað hollan og góðan mat. Það er mjög erfitt að standast freistingar og það er ennþá erfiðara ef freistingarnar bíða eftir manni inni í skáp. Ef að ekki eru til freistingar heima fyrir, þá er auðveldara að forðast þær. Það er alltaf gott að eiga eitthvað hollt snarl í skápunum ef manni langar rosalega í eitthvað sætt.
Það er hægt að finna fullt af góðu lífrænu nammi í heilsubúðum (eða heilsusvæðum í matvöruverslunum) og leyfa sér það einstaka sinnum, í stað þess að úða í sig óhollustunni bara af því maður freistast vegna þess að það er til heima fyrir. Þar sem að allt er léttara og skemmtilegra með jákvæðnina á lofti og jákvæðni og bjartsýni eru mín lífsstílsmarkmið á árinu langar mig að benda á mann sem ég held mikið upp á. Hann heitir Dr. Wayne Dyer og hefur gefið út ýmsar bækur sem margar hafa verið þýddar yfir á íslensku og hægt að taka á bókasafni. Ég mæli með bókinni „The power of intention“. Hans boðskapur er í stuttu máli: „When you change the way you look at things the things you look at change“. Hvernig þú sérð heiminn og hlutina í kringum þig er nákvæmlega þannig sem þinn heimur er, ef þú horfir á fólk sem ókurteist og aðstæður sem óhagstæðar og leiðinlegar þá er og verður þitt daglega líf þannig, en ef þú horfir á fólk sem vingjarnlegt og aðstæður sem tækifæri til að þroska sig þá verður þitt daglega líf þannig. Eða eins og Einstein sagði sjálfur: „You have the most fundamental and major decision that you have to make in your life: Do i live in a friendly or a hostile universe?“

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi