Fyrir þó nokkru birtist hér á vefnum grein um fimm gervimatvörur sem við gefum börnum okkar reglulega og vakti hún verulega athygli. Það er því um að gera að snúa dæminu við og telja upp fimm alvöru og næringarríkar matvörur sem við ættum að gefa börnum okkar daglega.
Hafragrautur
Hafragrauturinn mun seint missa sess sinn sem einn besti morgunverður sem við getum gefið börnunum okkar.
Hafragrautrinn er ríkur af lífsnauðsynlegum næringarefnum líkt og járni, B-vítamínum og magnesíum. Grauturinn er frábær fyrir börnin okkar sem eru að vaxa því hann er próteinríkur (m.a. byggingareining vöðva) og inniheldur flókin kolvetni (bensín líkamans) og mikið af trefjum (tryggir m.a. góðar hægðir).
Hægt er að auka enn frekar á næringargildi grautsins með því að bæta út i hann niðurskornum ávöxtum, berjum eða rúsínum.
Búið til eigin hafragraut í stað þess að treysta á „instant“ grauta sem eru mikla meira unnir en „heimagrauturinn“.
Lýsi
Það er nú óvitlaust að minnast á lýsið eftir að hafa mært hafragrautinn. Börnin okkar eru tilbúin í daginn og hlaupa af stað í skólann ef þau fá hafragrautinn og 1-2 tsk (eftir aldri) af lýsi að því loknu.
Lýsið inniheldur D-vítamín sem er algjörlega nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga því við fáum ekki mikið af D-vítamíni frá sólinni eins og þeir jarðarbúar sem búa nær miðbaug. D-vítamín er líka ekki í sérlega mörgum matvörum nema feitum fiski, eggjarauðu og D-vítamínbættum mjólkurvörum og því erfitt að uppfylla þörfina með almennu mataræði.
D-vítamín er lífsnauðsynlegt fyrir vöxt barna okkar því það stuðlar m.a. að heilbrigðum beinvexti. Einnig er í lýsinu omega-3 fitusýrur sem stuðla að eðlilegri starfsemi heila- og taugakerfis.
Hægt er að taka lýsistöflur ef börnin þola ekki lýsisbragðið, einnig er til krakkalýsi sem er ríkara af omega-3 fitusýrum en hefðbundið lýsi.
Hér má kynna sér frekar kosti lýsisneyslu.
Gulrætur
Gulrætur eru frábært snakk fyrir börnin okkar í millimál eða bara niðurskornar í salat í aðalmáltíðum.
Þær eru sérlega ríkar af beta-karóteni (sem gefur þeim litinn). Beta-karóten breytist í virkt A-vítamín í líkamanum. A-vítamín er gott vítamín fyrir eðlilega sjón.
Gulrætur eru einnig ríkar af C- og B-vítamínum, járni, kalki og kalíum.
Ekki skemmir fyrir að hafa gulrætunar íslenskar og forðast skal svokallaðar „baby carrots“ því þær eru mikið unnar og mun síðri kostur en ferskar gulrætur beint frá bónda.
Hér eru tvær frábærar greinar sem Gurrý hefur ritað um hinar fögru og frábæru gulrætur.
https://nlfi.is/gulraetur-bjarga-mannslifum-pistill-fra-gurry
https://nlfi.is/gulraetur-i-regnbogans-litum-pistill-fra-gurry
Epli
Epli eru drottning allra ávaxta (skoðun höfundar og langt í frá að vera vísindaleg) og borðar undirritaður a.m.k. 2-3 epli á dag.
Þó við höldum dálæti greinarhöfundar utan þessar greinar þá eru epli frábær kostur sem hluti af hollu og næringarríku mataræði barnanna okkar.
Þau eru hitaeiningasnauð og 90% af þyngd þeirra er vatn og eru þau því frábær sem millimál í stað sætinda, kex eða kruðerís, sérstaklega ef börnin eru mikið inni við yfir tölvum eða sjónvarpi.
Eplin eru rík af C-vítamíni, trefjum og pólýfenólum sem eru öflug andoxunarefni.
„Epli á dag kemur skapinu á barninu í lag“.
Hér má lesa grein um kosti eplaáts.
https://nlfi.is/epli-a-dag
Skyr
Skyr er frábær íslensk mjólkurafurð og góður valkostur fyrir börnin okkar. Skyrið er sérlega kalkríkt sem er gott fyrir beinvöxt og einnig er það mjög próteinríkt sem hjálpar til við vöxt barnanna.
Forðist þó eins og heitan eldinn sykrað skyr eða með sætuefnum. Sætið frekar sjálf skyrið fyrir börnin með berjum eða ávöxtum. Einnig má sykra sjálf skyrið heima fyrir börnin með sultum eða smá sykri.
Skrifað af Geir Gunnari Markússyni næringarfræðingi og ritstjóra NLFÍ, ritstjori@nlfi.is