Yfirheyrslan – Pálmar Ragnarsson

Einn vinsælasti fyrirlesari landsins í dag er Pálmar Ragnarsson og hefur hann skotist upp á stjörnuhiminn í fyrirlestrabransanum undanfarin ár. Í fyrirlestrum sínum talar hann m.a. um bætt samskipti okkar.
Pálmar leyfði okkar í skyggnast inn í líf sitt og svaraði spurningum í yfirheyrslunni.

Fyrstu sex í kennitölu?
08.10.84

Fullt nafn?
Pálmar Ragnarsson

Hefur þú einhver gælunöfn?
Allt sem endar á tilbúna ættarnafninu okkar: RAGG. Palli Ragg, Pálmar Ragg, Pé Ragg, og fleira

Fjölskylduhagir og einhver gæludýr?
Er í sambandi, á æðislega fjölskyldu en engin gæludýr.

Hvar ertu fæddur og uppalin? 
Fæddur og alinn upp í Reykjavík en hef einnig mikla tengingu við Hólmavík og Árneshrepp á Ströndum þar sem ég er ættaður.

Hefur þú búið erlendis?
Ég bjó í Melbourne í Ástralíu þegar ég var þar í skiptinámi í meistaranámi mínu í viðskiptafræði, æðisleg borg.

Núverandi búseta?
Flutti nýlega í hjarta miðbæjarins, mæli með!

Hvar vaknaði áhugi þinn á bættum samskiptum fólks?
Ég held ég hafi þetta svolítið meðfætt. Ég hef alltaf haft gaman af því að eiga í skemmtilegum samskiptum og spá í samskiptum fólksins í kringum mig.

Hvernig kom það til að þú varðst einn vinsælasti fyrirlesari landsins?
Það mætti segja að það væri nokkurs konar tilviljun. Ég var beðinn um að halda einn fyrirlestur á ráðstefnu sem heppnaðist rosalega í vel. Í kjölfarið var ég beðinn um að halda annan fyrirlestur og eftir hann þann þriðja og svo koll af kolli og það hefur ekki hætt.

Ertu með einhverja bakhjarla í að halda utan um fyrirlestrana þína?
Nei ég geri þetta allt sjálfur, bókanir, skipulag, samskipti, undirbúningur, auglýsingar. En ég er með góða manneskju, Katrínu Helgu, sem sér um bókhaldið fyrir mig.

Hefur þú lent í einhverju sérkennilegu eða neyðarlegu  á fyrirlestrum þínum?
Ég hef örugglega lent í flestu sem hægt er að lenda í. Gleyma því hvað ég ætlaði að segja, mismæla mig, segja sama hlutinn tvisvar, vera með opna buxnaklauf, segja brandara sem enginn hlær að. Það er frábær lærdómur að sjá að maður getur gert öll þessi mistök en það kemur samt ekki að sök. Ég lofa samt að þessi óhöpp dreifðust yfir marga fyrirlestra, þau voru ekki öll í sama fyrirlestrinum. 

Fylgjendur þínir á facebook hafa séð að þú ert stundum að halda fjóra fyrirlestra á dag. Hvernig nærðu að halda einbeitningu og orku í svona törnum?
Þegar kemur að fyrirlestri er þetta svolítið eins og að keppa í körfubolta. Ég gíra mig upp og gef mig allan í þetta. Ég set mikla orku í hverja framkomu og er því oft uppgefinn eftir fyrirlestur og þá getur verið erfitt að fara beint í næsta. En ég gef mér ekkert svigrúm til að vorkenna sjálfum mér heldur læt bara vaða og um leið og ég er mættur upp á svið þá er sko „SHOWTIME“ og ég kemst sjálfkrafa í stuð. Svo hjálpar til hvað mér finnst þetta gaman og ég elska að fá fólk til að hlægja þannig að oftast hlakkar mig til, sama hvað ég er búinn að halda marga þann daginn.

Hvernig „peppar“ þú þig upp í að halda fyrirlestra fyrir fjölda manns?
Í rauninni finnst mér orðið auðveldara að halda fyrirlestra eftir því sem fleiri manns eru í húsinu. Því stærra sem sviðið er því betra. Ég kemst þá sjálfkrafa í gírinn og læt gjörsamlega vaða. Stærstu ræður sem ég haldið voru fyrir tæplega 1.000 manns í Háskólabíó og 600 manns í Hörpunni. Auðvitað finn ég fiðring í maganum en ég leyfi mér ekki að tapa mér í einhverju stressi. Ég veit ég er að fara að standa mig vel og hef mikla trú á því sem ég er að gera og finn fyrir meiri tilhlökkun en kvíða. Ég held að þetta jákvæða hugarfar og trú á því að það gangi vel hjálpi mér mikið. 

Hvernig endurnærir þú þig andlega eftir miklar tarnir í fyrirlestrum?
Eins einfalt og það hljómar þá finnst mér best að leggja mig. Ég á mjög auðvelt með að sofna og tek stundum bara 10 mínútna lúr eftir fyrirlestur og næ orkunni minni til baka. Síðan finnst mér rosalega gott að fá útrás í ræktinni og kíkja jafnvel í heitan pott eftir á.

Ertu með bakgrunn í einhverjum íþróttum?
Ég kem úr körfuboltanum og spilaði alla mína barnæsku til tvítugs. Spilaði í unglingalandsliðum og að lokum með meistaraflokk þar sem við spiluðum úrslitaleik í bikarkeppni og undanúrslitum á Íslandsmótinu. Eftir það tímabil meiddist ég á hné og snéri mér í kjölfarið að þjálfun.

Stundar þú einhverja líkamsrækt, og þá hverja?
Ég reyni að fara 4-6x í viku í líkamsrækt þar sem ég hita upp  á skíðavélinni og lyfti svo lóðum. Eitt það skemmtilegasta sem ég geri og elska útrásina sem því fylgir.

Ertu á Facebook og Instagram? Hversu marga vini og fylgjendur áttu?
Ég er mjög virkur á Instagram undir nafninu @palmarragg þar sem ég sýni frá því sem ég er að fást við í daglegu lífi. Fyrirlestrunum, þjálfuninni og reyni að koma inn á milli með góðan boðskap fyrir fólk að taka með sér út í lífið. Facebook nota ég meira sparlega en set inn reglulega tilkynningar um það sem er að gerast í mínu lífi. Ég er með rúmlega 2.000 fylgjendur á Instagram og alltaf að aukast, og aðeins fleiri vini á Facebook.

Hver var síðasti Facebook status þinn?
„Á morgun í Háskóla Íslands – allir áhugasamir velkomnir!“ og með fylgdi mynd um fyrirlestur sem ég var beðinn um að halda í Háskólanum og segja frá mínum leyndarmálum við það að koma mér á framfæri í því sem ég geri.

Hvaða samfélagsmiðla notar þú?
Instagram & Facebook. Ég er að reyna að einfalda notkun mína og hef langt niður Snapchat og aldrei byrjað almennilega á Twitter.

Uppáhaldsmatur?
Kjúklingalæri númer eitt, tvö og þrjú. Sætar kartöflur með, smá grænt og mikill feta!

Uppáhaldsdrykkur?
Vatn.

Uppáhaldslag?
Í dag er það Hetjann með Huginn en uppáhalds lagið mitt allra tíma er Thug Luv með Bone Thugs & Harmony auðvitað.

Uppáhaldsbíómynd?
Jurrasic Park. Aldrei hefur nein bíómynd átt séns í hana. 

Uppáhaldsstaður í heiminum?
MEXÍKÓ!

Frægasta persóna sem þú hefur hitt?
Kevin Costner en það var því miður bara á vaxmyndasafni.

Markmið í starfi?
Ég er með nokkur markmið í því sem ég geri í dag. Mig langar að halda fyrirlestur erlendis, mig langar að halda fyrirlestur á Bessastöðum og mig langar að halda fyrirlestur í Eldborg. En annars þá er markmiðið mitt almennt í hvert einasta skipti sem ég held fyrirlestur að hann sé virkilega skemmtilegur og að fólk tali og hugsi um hann eftir að honum lýkur.

Markmið í lífinu?
Láta gott af mér leiða og gera lífið betra fyrir fólkið í kringum mig.

Mottó?
Ég hef aldrei verið mikið fyrir mottó, ég vil bara leggja mig fram í því sem ég geri.

Hræðist þú eitthvað?
Ég hræðist það mjög mikið að láta bregða mér. Vinsamlegast farið varlega að mér þegar það er myrkur.

Hvað er það sem fáir vita um þig?
Að ég er einn besti galdramaður á Íslandi, kallaður „Nornamaðurinn“, en hann er því miður í dvala.

Hverjar eru þínar fyrirmyndir í lífi og starfi?
Faðir minn hefur verið mín helsta fyrirmynd bæði í samskiptum og körfuboltaþjálfun. Móðir mín í skipulagi ábyrgð. Í fyrirlestrunum hef ég litið upp til Önnu Steinsen hjá KVAN. Síðan hef ég lært margt gott frá mörgum manneskjum sem ég hef rekist á í mínu lífi og reynt að tileinka mér.

Hvaða góða og einfalda ráð getur þú gefið lesendum til að eiga jákvæðari samskipti?
Maður þarf að æfa sig í samskiptum eins og öllu öðru sem mann langar að vera góður í. Fara út og spjalla við ókunnugt fólk með það markmið að gleðja sjálfa sig og aðra.

Hvað er framundan hjá þér?
Klára fyrirlestra vorsins með alvöru stæl, stórt ferðalag í sumar og hver veit hvað gerist næsta vetur!

Eitthvað að lokum?
Áfram Valur!

 

 

Related posts

Yfirheyrslan – Lovísa Rut

Kynning á Hildi Ómarsdóttur nýjum pistlahöfundi

Yfirheyrslan – ANDRI ICELAND