Brokkolí/Spergilkál – Pistill frá Gurrý

Fyrstu haustlægðirnar banka nú upp á með tilheyrandi vætu og vindi.  Oft hefur maður fyllst pirringi og hausthrolli þegar þessi lægðagangur hefst en því fer nú víðs fjarri þetta haustið eftir dásamlegt sumar.  Líkaminn er stútfullur af D-vítamíni eftir allar sólarstundirnar og hitinn í kroppnum dugir að lágmarki fram að jólum.  Ekki spillir heldur fyrir að nú er runninn upp brokkolítíminn.

Orðið broccoli kemur úr ítölsku og vísar þýðing þess til blómsprota kálplantna.  Á íslensku hefur brokkolí verið nefnt spergilkál því bragðið af blómstilkunum minnir á aspas eða spergil og eins hefur það verið nefnt sprotakál með vísan til blómsprotanna sem eru einkennandi fyrir tegundina og sá hluti plöntunnar sem er borðaður.  Á mínu heimili tölum við nú samt yfirleitt um brokkolí þannig að ég ætla að halda mig við það heiti hér.

Uppruna brokkolís má rekja aftur til Rómverja og annarra þjóða við norðurhluta Miðjarðarhafsins en þar varð þessi útgáfa kálplöntu til við kynbætur á káltegundum en talið er að þessar kynbætur hafi hafist á 6. öld fyrir Krist.  Brokkolíið átti miklum vinsældum að fagna á þessum slóðum og þótti sérlega verðmæt fæðutegund enda rík af ýmsum nytsamlegum efnum fyrir mannslíkamann.  Það breiddist hægt út norður um Evrópu en varð ekki verulega vinsælt hér á norðurslóðum fyrr en á 20. öldinni.  Stöðugar kynbætur á kálplöntum gera það að verkum að hægt er að finna harðgerð og auðræktuð yrki af brokkolí fyrir svalt veðurfar og stuttan vaxtartíma, eins og á Íslandi.  Í dag finnst varla sá matjurtagarður á Íslandi þar sem ekki eru ræktaðar nokkrar brokkolíplöntur. 

Brokkolí er sett niður á vorin eins og aðrar kálplöntur og þarf að hafa yfir því akrýldúk fram eftir sumri til að verjast kálflugunni, en hún er eitt skaðlegasta meindýrið sem maður fær á kálplöntur og rófur.  Oft er kominn nokkuð myndarlegur blómsproti á brokkolíið upp úr miðjum júlí og er þá tvennt í stöðunni, annað hvort að leyfa hausnum að vaxa áfram og stækka og taka hann þegar hann er orðinn mjög myndarlegur, eða að taka nýja hausinn áður enn hann verður mjög stór og láta þá næstu litlu hausa þar fyrir neðan vaxa fram.  Eins og aðrar kálplöntur þarf brokkolí frjósaman og rakaheldinn jarðveg með öllum helstu næringarefnum og er miklivægt að tryggja að plönturnar verði ekki fyrir miklum þurrki, það getur hvatt blómsprotann til ótímabærrar blómgunar.

Brokkolí inniheldur eins og áður sagði ýmis næringarefni sem eru okkur nauðsynleg.  Samkvæmt næringarefnatöflum Lýðheilsustöðvar innihalda 100 g af hráu brokkolíi um 36 kaloríur, 5,3 g af próteinum, tæplega 1 g af fitu, um 1,5 g af kolvetnum, um 3,4 g af trefjum og restin er vatn.  Jafnframt er brokkolí ríkt af C-vítamíni og K-vítamíni (sem er meðal annars mikilvægt til þess að blóð geti storknað eðlilega), auk nokkurra B-vítamína og steinefna eins og kalí, járns, kalks og mangans.  Við suðu heldur brokkolí næringargildi sínu vel en hætt er við því að vítamín og steinefni sleppi út. 

Brokkolí finnst mörgum gott hrátt og vilja helst hafa það þannig en aðrir telja sig finna eitthvað beiskt bragð af hráu káli. Ýmsar rannsóknir hafa nú verið gerðar á uppruna beiskjunnar og hallast vísindamenn helst að  því að ákveðið gen stjórni því en niðurstöður eru ekki á hraðbergi.  Við suðu hverfur beiska bragðið hins vegar og eftir stendur ljúffengt grænmeti. Fyrir nokkrum árum kynntist ég uppskrift að brokkolíi úr bókum Ottolenghis sem er einmitt ættaður af Miðjarðarhafsslóðum. Ég vona að hann fyrirgefi mér að ég skuli skella þessari uppskrift hér með en hún er sáraeinföld.  Brokkolísprotar eru snögg-soðnir í léttsöltu sjóðandi vatni. Best er að láta suðuna koma upp á vatninu, skella sprotunum út í og telja svo mínútu eftir að suðan hefur komið upp aftur. Á meðan brokkolíið sýður er góður slurkur af matarolíu settur á pönnu, út í olíuna fer slatti af krömdum hvítlauk og eins og hálft chilialdin, fínt saxað.  Hvítlaukurinn og chili-ið eru látin hitna vel í olíunni.  Þegar brokkolíið er soðið er það sigtað og sett beint út í heita olíuna og steikt í smá stund og saltað með maldonsalti eða sambærilegu.  Brokkolíið er svo sett í skál með olíunni og öllu og borið fram sem meðlæti með mat.  Mér finnst þessi uppskrift alger snilld og það besta er að svona útbúið brokkolí rennur ljúflega niður í börnin mín, sem eins og mörg önnur börn, hafa aldrei séð tilgang í að borða þetta grænmeti.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Bleik október hugleiðing

Sæt dressing með kóríander og myntu

Náttúrulegur og nærandi hlaupadrykkur