Humarpasta Pálma

Humarinn er hér í aðalhlutverki og algjört lykilatriði að vera með góðan humar. Gefið ykkur góðan tíma í að gera að humrinum og laga humarsoð. Geri það iðulega um hádegisbil. Passlegt fyrir sex með góðu brauði.

Þú þarft:

  • 1 kg humar
  • 250 g smjör
  • 5 hvítlauksrif
  • 1-2 chili
  • ½ búnt steinselja
  • 750 g pasta
  • 100 g sveppir eða parmaskinka
  • 3 sítrónur
  • 1 búnt basilíka
  • Parmesan

Aðferð:

  1. Takið humarinn varlega úr skelinni, snyrtið hann, þerrið og geymið í ísskáp. Brúnið skeljarnar og grænmeti í potti, til dæmis lauk, hvítlauk, chili og smávegis af tómatpúrru. Hellið vatni yfir og sjóðið í hálftíma, sigtið og sjóðið vel niður í kraftmikið seyði.
  2. Gerið hvítlaukssmjör úr minnst heilu stykki af ósöltuðu smjöri, hvítlauk, chili og steinselju.
  3. Setjið humarinn í skál með 2-3 matskeiðum af heitu hvítlaukssmjöri og blandið vel. Steikið humarinn fallega brúnan á pönnu í olíu. Pannan þarf að vera nokkuð vel heit en samt ekki þannig að humarinn brenni. Humarinn þarft mjög lítinn tíma áður en hann verður þurr og leiðinlegur. Þetta er varla meira en hálf mínúta á hvorri hlið og humarinn á ekki að vera steiktur í gegn. Gerið þetta gjarnan í tveimur skömmtum því við viljum alls ekki að humarinn sjóði.
  4. Steikið sveppina vel stökka á pönnu á vægum hita í olíu eða smjöri. Eða setjið parmaskinkuna á bökunarpappír með aðra örk yfir og bakið við 160 gráður í 25 mínútur. Brjótið skinkuna niður þegar hún hefur kólnað aðeins. Rífið hýðið af tveimur sítrónum, takið safann úr annari þeirra en skerið þá þriðju í báta. Rífið vel af parmesan osti.
  5. Pastað er soðið samkvæmt leiðbeiningum en bjargið einu glasi af pastasoði rétt áður en þið sigtið pastað. Blandið soðinu saman við pastað, hálfu glasi af pastavatni, hvítlaukssmjörinu, safa úr hálfri eða heilli sítrónu og 2-3 niðurskornum humrum sem stóðust síst útlitspróf eftir steikingu.
  6. Humarinn fer ofan á pastað ásamt sveppum eða parmaskinku, basilíku, sítrónuhýði, parmesan og sítrónubátum. Borið fram með góðu brauði.

Myndir: Kristín Pálmadóttir Thorlacius

Related posts

Baráttan gegn streitu

Rækjusalat með mangó og avókadó

Tælenskt Panang