Heimsókn í Matarbúðina Nándina

Við Austurgötu 47 í Hafnarfirði er Matarbúðin Nándin til húsa og gafst ritstjóra færi á að heimsækja hana á dögunum. Í húsinu var rekin matvörubúð frá árinu 1956 undir nafninu Matarbúðin sem margir eldri Hafnfirðingar muna vel eftir. Það vekur því upp hlýjar minningar hjá mörgum að aftur sé komin matvöruverslun þarna.

Matarbúðin Nándin er fjölskyldufyrirtæki í  sem byggir á því að bjóða upp á plastlausa matvöruverslun. Og er þetta eina algjörlega plastlausa verslunin á landinu og þó víðar væri leitað.  
Þær Þóra Þórsdóttir og dóttir hennar Guðbjörg Lára Sigurðardóttir tóku á móti ritstjóra á föstudagsmorgni i janúar. Hluti fjölskyldu þeirra var í sóttkví vegna covid-19 faraldursins.

Nándin í samkomutakmörkunum

Búðin opnaði formlega 17.júní árið 2020 þegar covid-19 faraldurinn var nýhafinn og Þóra segir að það sé skondið að vera með búð með nafninu NÁNDIN þegar fjarlægðarmörk og fjöldatakmarkanir eru í gangi. Fjölskyldan hefur einnig rekið fyrirtækið Urta Islandica í nokkur ár og það kom upp hugmynd hjá þeim að opna algjörlega plastlausa búð fyrir nokkrum árum. Samkvæmt Þóru og Láru þá eru þar ekki bara umhverfisverndarsjónarmið sem ráða plastleysinu því plast hefur ýmis óæskileg áhrif á heilsu manna og lífríki.
Lára sagði frá ýmsum heilsuspillandi áhrifum plasts á heilsu manna en þetta eru sjónarmið sem sjaldan heyrast í umræðunni um plastið. Mesta umræða um plastið hefur verið á umhverfisvernd og hversu lengi það er að brotna niður í náttúrinni. Hægt er að kynna sér áhrif plasts á umhverfi og heilsu hér.

Hringrásarhagkerfi og sem minnst matarsóun

Hugmyndafræðin í búðinni er að viðskiptavinir geti skilað umbúðum af matvörum og hreinlætisvörum og er mikið notast við krukkur og glerflökur undir vörurnar. Það er draumur eigenda að hringrásarhagkerfið verði allsráðandi í verslun. Það vekur líka upp góðar minningar hjá mörgum viðskiptavinum að versla t.d. mjólkina í glerflöskum eins og það var í gamla daga, áður en plastið og aðrar „ódýari“ umbúðir urðu allsráðandi í matvælaframleiðslu.
Í Matarbúðinni er leitast við að stuðla að sem minnstri matarsóun og eru t.d. flatkökur sem eru komnar á síðast söludag fyrstar og seldar þannig sem snakk.

Það er allt til alls í Matarbúðinni
Samkeppni

Kaupmönnum á horninu hefur því miður fækkað mikið undanfarna áratugi með aukinni samþjöppun í matvöruverslun þar sem nokkrir stórir aðilar eru allsráðandi á markaðnum.  
Matarbúðin á kannski ekki mikla möguleika í verðsamkeppni við stóru matvöruverslanirnar en hjá þeim býðst mun persónulegri þjónusta, 100% plastleysi og mikið vöruúrval sérstaklega frá innlendum smáframleiðendum. Auk þess er verðlagningin á þessari innlendu framleiðslu mjög hófleg.  
Smáframleiðendur geta frekar uppfyllt skilyrðin um plastleysið og pakka Matarbúðin mikið af vörum smáframleiðenda sjálf. Stóru framleiðendurnir eru komnir með eigin pökkunarlínur og gæðakerfi og því oftast nær ómögulegt að koma þeirra vörum í plastlausar umbúðir.
Þóra segir að stóru verslanirnar bjóði upp á plastleysi en það sé bara brotabrot af þeirra vöruúrvali og sé það meira í orði en á borði. Það er helst að plastleysið í stóru matvörubúðnum sjáist í að ekki er lengur boðið upp á venjulega innkaupapoka úr plasti og farið er að notast við fjölnotapoka.

Það er greinilegt að þetta frumkvöðlastarf og hugsjón Matarbúðarinnar er að vekja eftirtekt því árið 2020 hlaut búðin Bláskelina sem er viðkenning umhverfis- og auðlindaráðaneytisins fyrir framúrskarandi plastlausa lausnir.

Það er frábært að geta fengið áfyllingu á hreinlætisvörur í Matarbúðinni
Fjöbreytt úrval

Í Matarbúðinni er mikið úrval af matvörum og það er stefna eigenda að viðskiptavinir geti nálagast allar þær matvörur sem þarf til að næra heimili landsmanna sem best. Hjá þeim má nálgast ferskvörur og einnig fyrstivörur. Grænmeti og ávextir eru einnig í miklu úrvali.
Þegar ritstjóri spyr um stefnu þegar kemur að hollustu eða lífrænum vörum þá segir Þóra að mikilvægast sé að matvörurnar séu plastlausar en þau leggja einnig áherslu á að bjóða upp á gott úrval lífrænna og vegan matvara.
Það er einstaklega mikið úrval af matvörum frá innlendum framleiðendum og er það enn einn þátturinn í að stuðla að umhverfisvernd og minnka kolefnisfótspor okkar.
Í búðinni má m.a. sjá ís frá innlendum framleiðendum og bauðst ritstjóra að smakka ís frá Rjómabúinu á Erpsstöðum með aðalbláberjum sem auðvitað var í glerkrukku.  

Ís í ýmsum bragðtegundum frá innlendum framleiðanda
Hvað er framundan?

Á næstunni mun verða opnuð ný verslun Matarbúðarinnar í Reykjanesbæ á sama stað og framleiðsla Urta Islandica er. Að sögn Þóru er frábært að geta boðið upp á vörur Matarbúðarinnar á fleiri stöðum.
Það er einnig byrjað að bjóða upp á meira úrval af „take-away“ matvörum eins og t.d. holla „boosta“ og tilbúnu brauðmeti.
Íslendingar eru mikil ísþjóð og stefnt er að því að vera með til sölu ís úr vél á næstunni og geta þá viðskiptavinir spókað sig um gamla bæinn í Hafnarfirði á meðan verið er að gæða sér á bragðgóðum ís.

Matarbúðin Nándin er opin alla virka daga frá kl.10 til 19 og frá kl.10 til 16 á laugardögum. Einnig er opið allan sólarhringinn í netverslun þeirra.

Þær mægður Lára og Þóra taka brosandi á móti viðskiptavinum og ritstjóra NLFÍ
Plastleysi,  meiri innlend framleiðsla og umhverfisvernd er framtíðin

Matvörubúðirnar okkar eru akur nútímamannsins og alltof mikið af óheilsusamlegum og óvistvænum matvörum eru í boði í matvörubúðum. Einnig hefur persónuleg þjónusta minnkað mikið með aukinni samþjöppun.
Það er því vonandi að Matarbúðin Nándin muni blómstra og ókomna framtíð og opnuð verði útibú í sem flestum landshornum. Fleiri búðareigendur mættu taka þessa hugsjón eigenda Matarbúðarinn sér til fyrirmyndar. Það er fjárfesting í eigin heilsu og móður Jarðar að versla í búð eins og Matarbúðinni Nándinni.

Skrifað af Geir Gunnar Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Sterkur matur getur aukið lífslíkur

Einföld ráð að hollari næringu og bættri heilsu