Útgáfuhóf ævisögu Jónasar Kristjánssonar læknis

Útgáfuhóf var haldið fimmtudaginn 28. september  í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík í tilefni af útgáfu ævisögu Jónasar Kristjánssonar læknis,  Að deyja frá betri heimi.

Það var margt um manninn og m.a. las Pálmi Jónasson rithöfundur bókarinnar upp úr bókinni. Pálmi áritaði einnig eintök af bókinni og Sólveig Ólafsdóttir sagnfræðingur flutti tölu.

Þess má geta að bókin er komin í sölu hjá Eymundsson

Aðeins um bókina:

Pálmi Jónasson hefur starfað sem rithöfundur og blaðamaður í 35 ár, lengst af á RÚV. Á dögunum kom út hans fimmta bók, ítarlegt ritverk um Jónas Kristjánsson lækni – „Að deyja frá betri heimi“. Pálmi byggir verkið á aragrúa heimilda og dregur þannig upp eftirminnilega mynd af litríkum manni.

Jónas Kristjánsson sór þess dýran eið að gerast læknir þegar móðir hans dó frá átta börnum í torfbæ í Svínadal árið 1881. Jónas var ellefu ára og vildi tryggja að börn misstu ekki mæður sínar fyrir handvömm og vanþekkingu. Fádæma harðindi fylgdu móðurmissinum og faðirinn lést frá barnaskaranum. Fjölskyldan var leyst upp og flest fóru til Vesturheims. Jónas náði með harðfylgi að brjótast til mennta og útskrifaðist sem læknir eftir starfsnám í Kaupmannahöfn um aldamótin.

Jónas var landsþekktur héraðslæknir á Fljótsdal og síðar Sauðárkróki frá aldamótum til síðari heimsstyrjaldar. Hann barðist fyrir auknu hreinlæti, heilnæmari lifnaðarháttum og betra mataræði en þurfti iðulega að fara vegleysur um fjallvegi í illviðrum til að bjarga mannslífum. Sjúklingar voru þá stundum skornir upp á hurðum sem rifnar voru af hjörum.

Á Alþingi barðist Jónas aðallega við nafna sinn frá Hriflu og Halldór Laxness en náttúrulækningar áttu hug hans allan á síðari hluta ævinnar. Hann vildi koma í veg fyrir sjúkdóma, frekar en að bregðast við þegar í óefni var komið. Jónas ferðaðist víða um heim til að kynna sér náttúrulækningar og var í nánu sambandi við alla helstu forystumenn hreyfingarinnar. Lífsstarfið var fullkomnað með opnun Heilsuhælisins í Hveragerði á 85 ára afmæli Jónasar.

Einstök saga af eldhuga sem barðist fyrir því að deyja frá betri heimi en hann þurfti að takast á við sem barn.

Hægt er að eignast bókina á sértilboði á netinu: Bjartur/Veröld sértilboð

Hér má sjá myndir úr útgáfuhófinu

Related posts

Vel heppnuð matþörungaferð

Matþörungaferð 21.september

Vel heppnað kryddjurtanámskeið