Þórkatla Aðalsteinsdóttir – Að velja hugarfarið


Ég get sagt ykkur það að þegar ég var beðin að tala um skammdegisþunglyndi, þá vissi ég nú ekki alveg hvar ég átti að byrja.
Þetta efni er auðvitað mjög viðamikið en sem betur fer verða hér fleiri frummælendur sem vonandi ná að gera þessu efni betri skil en ég. En í stað þess að snúa þessu upp í mikið þunglyndiskast og bylta mér andvaka margar nætur, sem mér þótti þó full ástæða til, þá ákvað ég að fara einföldu leiðina og lagðist aðeins yfir það hvað stýrir yfirleitt því hvernig okkur líður. Og nú ætla ég að smella einni lítilli glæru á og skýra út fyrir ykkur þetta fyrirbæri. Þið vitið þetta örugglega allt saman en góð vísa er aldrei of oft kveðin.

Þið sjáið þarna mjög einfaldan feril. Við verðum öll fyrir áreitum á hverjum einasta degi. Í okkar huga þýðir þetta orð áreiti eitthvað neikvætt. Ég skil þetta orð öðruvísi: áreiti er hvaðeina sem mætir okkur. Það getur verið fallegt bros, það getur verið yndisleg tónlist, það getur verið hríðarbylur. Það getur verið vel vaxinn karlmaður, þess vegna. Fyrir mig, það er að segja. Nú, áreiti eða stimulus eins og það heitir á erlendum málum, það nemum við með okkar skynfærum; við lyktum, við heyrum, við horfum, jafnvel smökkum á og þreifum með okkar skynfærum. Þessa skynjun okkar túlkum við. Við getum túlkað hana neikvætt og við getum túlkað hana jákvætt. Ef við túlkum þessa skynjun neikvætt, þá veldur það neikvæðri eða slæmri/sárri tilfinningu og neikvæðum hugsunum. Ef við túlkum þetta jákvætt, þá gerist það að við verðum glöð eða kát eða alsæl eða hugsum eitthvað fallegt.

Og mig langar til að tengja þetta aðeins við veðrið, vegna þess að í skammdeginu mætum við iðulega slæmu veðri að því er okkur finnst því, sem venjulega er talað um sem vont veður. En við sjálf getum auðvitað ákveðið hvað okkur finnst um þetta veður. Nú, við tengjum líka skammdegisþunglyndið myrkri og við sjálf getum ákveðið hvort myrkrið er neikvætt eða jákvætt.

Nú, eins og þið sjáið er ég komin í Pollyönnuleikinn sem við Íslendingar þurfum að leika í þrjá-fjóra mánuði á ári. Þar með er ég ekki að segja að það sé slæmt að búa á Íslandi. Alls ekki, ég held að það sé einmitt mjög gott að æfa sig í þessum Pollyönnuleik, vegna þess að hann nýtist allt árið um kring.

Þá er ég komin að hinni glærunni sem er jafnvel enn einfaldari en þessi fyrri. Mér fannst þetta svolítið flott nafn hjá mér: Hugarfarið og harðindin. Það eru höfuðstafir í þessu, en svo gat ég ekki meir enda ekki af miklum skáldum komin. Það skiptir sumsé í mínum huga mestu máli að velja túlkunina, að túlka rétt, að velja hugarfarið. Er vont veður vont eða hressandi? Er hríðarbylur ógeðslegur eða skemmtilegt ævintýri? Til dæmis: Kemstu út úr honum á lífi? Er myrkrið þungt og þrúgandi eða ástæða til að kveikja á kerti og stelast til þess að kyssa einhvern úti í horni?

Þannig að eins og þið sjáið er Pollyönnuleikurinn þarna við lýði og hann einn og sér reyndar dugar okkur ekki vegna þess að við þurfum meira skipulag í okkar líf. Við getum ekki rölt um eins og tveggja ára börn og ákveðið frá einni stundu til annarrar hvort eitthvað sé skemmtilegt eða leiðinlegt; við þurfum að skipuleggja okkur. Og ef við erum Íslendingar þá þurfum við að skipuleggja vel þessa mánuði. Við getum til dæmis sett inn atburði í hverri einustu viku sem við höfum reynslu af að vekja hjá okkur ánægjulegar hugsanir. Við getum sett inn og skipulagt upplifanir sem við höfum einmitt reynslu af að gera okkur glöð. Það er einmitt það sem ég er að fara að gera á eftir. Þess vegna get ég því miður ekki verið í pallborðsumræðunum, heldur ætla að fara á kóræfingu. Og ég er löngu búin að sjá það að ef ég held mig ekki við mitt skipulag þá býð ég hættunni heim.

Nú hljóma ég kannski eins og einhver ferköntuð manneskja sem fer í leikfimi sjö sinnum í viku og er alltaf á kóræfingum og hoppar um sæl og glöð, en því miður hef ég nú ekki náð því þroskastigi. Ég er nefnilega að miða þessa atburði alltaf við það að þeir geri líf mitt ekki þungt og ekki of erfitt. Og ég er ekki að reyna að verða fullkomin manneskja. Sem betur fer lærði ég það seint og um síðir að það streð skilaði engu, vegna þess að ég er því marki brennd að vera ófullkomin. Ég leyfi mér að fullyrða að allir hér inni séu því sama marki brenndir. Og nú móðgast kannski einhver, en ég held samt stíft við það. Og það er það sem við eigum alltaf að hafa í huga: við erum ekki fullkomin. Við gerum mistök. Það sem átti að verða ánægjulegt vekur ekki með okkur ánægju, það sem átti að heppnast heppnast ekki, og þá verðum við að snúa því við í okkar huga og hugsa sem svo: O.K., hvað ætla ég þá að læra af þessu?

Við verðum samt alltaf að leyfa okkur að hlakka til. Eitt einkenni þunglyndis er það að gefa sér aldrei þetta leyfi að hlakka til og það sem ég kalla ragnarakatilfinninguna: að búast alltaf við hinu versta og ef maður hleypir sér inn í tilhlökkunina þá er það dæmt til að mistakast: Ég vissi að ég hlakkaði of mikið til. Þetta viðhorf hjálpar okkur alls ekki neitt. Þetta viðhorf akkúrat þrengir okkar líf. Við getum líka kallað þetta að reyna alltaf að hafa vaðið fyrir neðan sig. Ef maður hlakkar aldrei til neins þá verður maður ekki fyrir vonbrigðum. Jújú, gott og vel, þetta er kannski ágætis fílósófía en hvað græðir maður á henni? Getur einhver sagt mér það? Er eitthvað á þessu að græða? Nei, ykkur vefst tunga um tönn og mér líka.

Þó svo að þeir viðburðir sem maður hefur leyft sér að hlakka til gagnvart, misheppnist, þá hefur maður þó þetta yndislega tilhlökkunartímabil sem enginn getur tekið frá manni og liðið vel á meðan í spenningnum.

Ég held að flest ykkar muni eftir því þegar þið hættuð eða ef það gerðist; nú ætla ég ekki að fullyrða að það hafi einhvern tíma gerst, en það gerðist hjá mér að hlakka til jólanna. Ég held að það hafi gerst um svipað leyti og ég varð unglingur og fór að fá mjúka pakka og bækur í jólagjöf. Og það líka snarfækkaði jólapökkunum á þessum tíma, einhverra hluta vegna. Það var þetta system, þið vitið, að hætta að gefa krökkum sem voru fermd og allt í einu hrundi pakkatalan niður í fimm. Um það leyti varð lífið flóknara, maður fór að lenda í alls konar ástarsorgum og vissi ekki hvað maður yrði þegar maður yrði stór og fannst þetta með jólastússið ekki gefa sér nokkurn skapaðan hlut lengur. Því miður týndi ég út fullt af hlutum í leiðinni sem ég hætti að hlakka til gagnvart.
Svo var það ekki fyrr en ég var orðin fullorðin að ég áttaði mig á því að ég þyrfti að koma þessu inn aftur. Að tilhlökkunin í sjálfri sér hefði tilgang. Og ég hef skemmt mér ágætlega síðan, inn á milli. Til dæmis getur maður leyft sér að hlakka til næsta sumars yfir veturinn.
Leifur mun nú segja ykkur meira um það og kannski bendir hann ykkur á fleira sem þið getið hlakkað til hlakkað til haustsins, til dæmis, hlakkað til þegar hríðarbyljirnir skella á, hlakkað til að fara á skíði eða skauta eða í göngutúr eða í einhverja hrakninga á heiðarvegum.
En mestu máli skiptir semsé hvaða hugarfar þið notið. Ætlum við að velja jákvæðu leiðina eða ætlum við að velja neikvæðu leiðina? Við nefnilega veljum öll sjálf. Og ef við lítum svo á að okkar sé ekki valið, þá erum við búin að gera okkur sjálf að fórnarlömbum. Fórnarlömb skemmta sér aldrei neitt.

Nú, ég læt þessu lokið og vona að þið skemmtið ykkur vel það sem eftir lifir vetrar og séuð mikið farin að hlakka til sumarsins, og skelli mér á kóræfingu.

Takk fyrir mig.

Related posts

Gervilíf

Skjáfíkn – Málþing nóvember 2024

Saga skógræktar á Íslandi