Nálastungur – Málþing í janúar 2000

Málþing Náttúrulækningafélags Íslands um nálastungur til lækninga var haldið þriðjudaginn 18. janúar 2000 á Grand Hótel í Reykjavík.

Góð aðsókn var á þingið. Að loknum fyrirlestrum sátu frummælendur fyrir svörum.

Fundastjóri var Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri HNLFÍ í Hveragerði.

Frummælendur:
– Guðmundur Björnsson yfirlæknir HNLFÍ
– Dr. Hu Minghai prófessor
– Arnbjörg Linda Jóhannsd nálastungu-og grasalæknir
– Magnús Ólason endurhæfingarlæknir
– Sigurður Guðmundsson landlæknir

Fundastjóri hóf fundinn með kynningu á frummælendum og sagði lítillega frá starfsferli þeirra og menntun. Guðmundur Björnsson sýndi myndband frá ferð sinni um Peking. Aðalleikari var Árni Gunnarsson í hlutverki sjúklings sem leitaði lækninga hjá nálastungulækni. Guðmundur bar saman austurlenskar og vestrænar aðferðir í nálastungulækningum.

Dr. Hu Ninghai flutti sinn fyrirlestur á kínversku og vakti það mikla athygli. Túlkur frá Kínverska sendiráðinu þýddi yfir á ensku. Fundastjóri sagði í megin dráttum frá fyrirlestrinum á íslensku. Hu sagði frá hvernig hægt er að nota nálastungur við ýmsum kvillum og talaði um sterkar og veikar rásir.

Arnbjörg Linda vakti athygli á menntun nálastungufræðinga. Hún sagði frá fyrirbyggjandi meðferðum við ýmsum kvillum. Meðferðin nýtist öllum aldurshópum, yngsti sjúklingur hennar er ungabarn og elsti níræður. Í lokin lýsti hún meðferð á einum sjúklinga sinna.

Magnús Ólason sagði frá kynnum sínum af nálastungum. Hann er yfirlæknir Verkjasviðs á Reykjalundi og hefur nýtt nálastungur í meðferðum sínum. Magnús sagði frá sögu nálastungunnar, hvernig meðferðin virkar og við hvaða kvillum hún nýtist. Hann sagði að erfitt væri að meta lækningu eftir nálastungumeðferð vegn lélegra rannsókna.

Sigurður Guðmundsson landlæknir talaði meðal annars um aukaverkanir nálastungumeðferðar, stöðu nálastungufræðings gagnvart heilbrigðiskerfinu og hvernig hann má starfa. Nálastungufræðingar hafa ekki tilskilin leyfi en margir starfa án athugsemda landslæknis. Núverandi afstaða landlæknis er sú að einungis læknar eigi að stunda nálstungur eða þær geta verið stundaðar af öðrum á ábyrgð læknis.

Umræður og fyrirspurnir
Það var mikið rætt um heimspekina sem er í kínverskri nálstungu,lengd námsins, sem getur verið frá einu helgarnámskeiði til margra ára og hverjir megi stunda nálastungur. Eru læknar að eigna sér meðferðina?
Afhverju mega læknar stunda nálastungur eftir eitt helgarnámskeið og hversu mikið ná þeir að læra í heimspekinni sem Kínverjar leggja mjög mikla áherslu á?
Líta læknar eingögnu á þetta sem verkjameðferð?
Í lokin var spurt hvort fé væri veitt til rannsókna á nálastungum á Íslandi? Svarið var neikvætt.

Samantekt: Anna Svava Traustadóttir

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi