Köld böð og sjósund – Málþing nóvember 2022

Þriðjudagskvöldið 8.nóvember sl. fór fram málþing NLFÍ um köld böð og sjósund. Fullt var út úr dyrum og mættu um 200 manns á málþingið og greinilegt þetta er málefni sem Íslendingar eru áhugasamir um. Þennan áhuga má sjá í auknum fjölda sjósundsiðkenda og fjölgun kaldra potta í sundlaugum hringinn í kringum landið.

Fundarstjóri var Margrét Grímsdóttir framkvæmdarstjóri hjúkrunar á Heilsustofnun í Hveragerði og rakti hún það hvernig köld böð höfðu verið notuð á Heilsustofnun frá stofnun árið 1955.

Fyrstur á mælendaskrá var dr. Björn Rúnar Lúðvíksson prófessor og yfirlæknir ónæmisfræðideildar LSH. Hann talaði um áratuga reynslu sína af sjósundi og hvaða áhrif sjósundið hefði á líkamskerfi okkar og hversu vel það virkaði m.a. gegn gigtarsjúkdómum. Björn hefur stundað sjósund frá því að hann var lítill gutti að svamla í sjónum við Herjólfsgötu í Hafnarfirði.
Björn lagði áherslu á að sjósund væri ekki fyrir alla og mikilvægt væri að sérstaklega fólk með hjarta- og æðasjúkdóma fengi leyfi frá sínum lækni til sjósunds.
Björn talaði um hina mögnuðu „brúnu fitu“ sem er verndandi gegn ýmsum lífsstílssjúkdómum en ástundum sjósunds stuðlaði að fjölgun brúnna fitufruma.

Andri Iceland, Vilhjálmur Andri Einarsson heilsu- og lífsleikniþjálfari  var næstur viðmælenda og talaði hann um það hvernig hann hefði verið kominn á botninn líkamlega og andlega áður en hann kynntist köldum böðum, en kuldinn hefði bjargað lífi hans.
Hann lagði mikla áherslu að fólki yrði að ná slökun áður en það færi í kuldann, streittur kroppur þolir mjög illa kuldann. Hann segist kenna öndun, hugleiðslu og önnur andleg meðöl á námskeiðum sínum.
Hann deildi reynslu sinni eftir að hafa gengið of langt í kælingunni með keppnisskapið að vopni en það sé ekki málið þegar kemur að kælingu. „Less is more“ var hans boðskapur þegar kemur að kælingu og það er ekkert vit að sýna einhverja töffarastæla með því hver getur verið lengst í köldu baði.

Síðust á mælendaskrá var Erna Héðinsdóttir kennari, lýðheilsufræðingur og markþjálfi og ræddi um reynslu sína af sjósundi og fræddi um námskeið sem hún hefur verið með í sjósundi. Hún fór yfir mörg praktísk ráð að hafa í huga í sjósundi s.s. að vera aldrei ein/n á ferð, vera nálægt landi, vera vel nærður og ekki ætla sér of mikið í byrjun.
Hún deildi reynslu sinni og sagði frá góðum bókum um sjósund til að fræðast meira.

Í lok málþings tóku við pallborðsumræður og sköpuðust skemmtilegar umræður um köld böð og sjósund.

Hér má nálgast upptöku af málþinginu.

Fræðslunefnd NLFÍ vill þakka öllum þeim sem tóku þátt í málþinginu kærlega fyrir velheppnað málþing.

Björn Rúnar hélt áhugavert og persónulegt erindi.
Erna Héðins fór m.a. yfir praktísk atriði við öruggt sjósund
Fullt var út úr dyrum
Frummælendur Andri, Erna og Björn Rúnar voru kát að loknu málþinginu.
Frummælendur ásamt Geir Gunnari formanni fræðslunefndar og Margréti Grímsdóttur fundarstjóra.

Related posts

Vel heppnuð matþörungaferð

Matþörungaferð 21.september

Vel heppnað kryddjurtanámskeið