Kærleiks- og kyrrðarstund Náttúrulækningafélags Reykjavíkur (NLFR) sem haldin var í safnaðarheimili Laugarneskirkju í gærkvöldi tókst með eindæmum vel og skapaðist þægileg og hugljúf stemming.
Dagskráin hófst á því að Ingi Þór Jónsson, formaður NLFR var með hugleiðingu um jólin, kærleika og hvað litlu hlutirnir í lífinu skipta miklu máli.
Unnur og Jón Tryggvi spiluðu notalega tónlist fyrir viðstadda og komust margir í jólaskap við að hlusta á þeirra hugljúfu jólalög.
Tónlistin átti stóran sess á þessari kyrrðarstund og söngdívan Rós Ingadóttir söng ítölsk ástarljóð í bland við íslensk jólalög við undirleik Helga Hannessonar. Í lokalagi hennar tók allur salurinn undir með henni í hinu fallega og hátíðlega lagi „Heims um ból“.
Hinn virti rithöfundur Guðmundur Andri Thorsson las upp úr bók sinni „Og svo tjöllum við okkur í rallið“. Auk þess fjallaði hann um tilurð þess að bók þessi varð til og uppljóstraði því að þessi titill á bókinni þýddi einfaldlega ekki neitt, heldur var þetta bara bullmál milli hans og föður hans Thors Vilhjálmssonar.
Rúsínan í pylsuendanum á þessu kyrrðarkvöldin var slökun með Unni Arndísardóttur jógakennara. Fóru því allir slakir heim og með kærleik í hjarta.
Þessar kyrrðarstundir NLFR eru kærkomnar til að minnka jólastressið sem oft vill taka yfirhöndina hjá okkur í jólaundirbúningnum. Gestum þykir gott í koma þar sem kærleikur, kyrrð og ró er stemmning stundarinnar í góðu umhverfi.
Stjórn NLFR sendir bestu óskir til félagsmanna sinna um kærleiksríka jólahátíð og gæfuríkt komandi ár. Þökkum innilega stuðning og samveru liðinna ára.
Guðmundur Andri með skýringar á efni bókar sinnar „svo tjöllum við okkur í rallið“
Tónlistarmennirnir Helgi píanóleikari, Inga Rós söngkona og tónlistarparið Jón Tryggvi og Unnur
Stjórn NLFR (frá vinstri): Ásthildur Einarsdóttir, Björg Stefánsdóttir, Brynja Gunnarsdóttir og Ingi Þór Jónsson. Á myndina vantar Bjarna Þorarinsson.