Chili pottréttur


Solla á Gló á heiðurinn af þessum vetrarlega og bragðgóða chilli pottrétti. Hann ber heitið „Chili sin carne með súkkulaði, guacamole og sýrðum kasjúrjóma“. Chili sin carne er frábrugðið chili con carne að því leiti að það er ekkert kjöt í chili sin carne og hentar því vel grænmetisætum. 

Pottréttur
250g nýrnabaunir, lagðar í bleyti yfir nótt, skipt um vatn og soðnar í 1 ½ klst (hægt að nota úr dós)
2 msk góð olía til steikingar
1 rauðlaukur, smátt saxaður
4 hvítlauksrif, pressuð
2 stk rauður chili pipar, smátt saxaðir
500g blandað grænmeti: sætar kartöflur, gulrætur, rauð paprika
4 msk tómatpúrra
400 ml maukaðir tómatar eða tómatpassata
2 smátt saxaðar döðlur
2 tsk cuminduft
½ tsk reykt paprika eða chipotle pipar 
1 lárviðarlauf
1 kanilstöng
smá sjávarsalt
25g lífrænt 70% dökkt súkkulaði, skorið í litla bita
2 msk ferskur kóríander til að strá yfir

Aðferð:
Leggið baunirnar í bleyti yfir nótt, skiptið um vatn og sjóðið í 1-1½  klukkustund. Hitið olíu í potti og mýkið rauðlaukinn, hvítlaukinn og chilli piparinn þar í um 5 mín, hrærið tómatpúrrunni útí ásamt maukuðum tómötum, smátt söxuðum döðlum, cumindufti + reyktri paprika/chipotle + lárviðarlaufi + kanilstöng og látið sjóða í við vægan hita í 25 mín.
Á meðan þetta er að sjóða skerið grænmetið í passlega munnbita og bakið í ofni við 180 – 200°C í 20 mínútur. Bætið grænmetinu útí pottinn þegar það er bakað og leyfið að malla í 10 mín. Bætið súkkulaðinu útí og hrærið í þar til að hefur bráðnað. Stráið yfir ferskum kóríander og berið fram með sýrðum kasjúrjóma og guacamole.

Sýrður kasjúrjómi
1 dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í 2 klukkustundir
2 msk kókosmjöl
3 msk límónusafi
2 msk ólífuolía eða önnur góð olía
1-2 msk agavesýróp
½ – 1 tsk Himalaya/sjávarsalt

Aðferð:
Hellið vatninu af kasjúhnetunum og setjið allt í blandara eða matvinnsluvél og blandið þar til það verður  silkimjúkt. Ef þetta er of þykkt má þynna með smá vatni. Passið að setja ekki of mikið vatn því þá verður blandan of þunn. 

Guacamole
2 avókadó, afhýdd og steinninn fjarlægður
2 tómatar, skornir í litla teninga
½ rauðlaukur, smátt saxaður
1 msk fínt saxaður ferskur chilli pipar
1 msk límónusafi
1 hvítlauksrif, pressað
¼ tsk salt
25 g ferskur kóríander, smátt saxaður

Aðferð:
Stappið avókadóið með gaffli svo það verði að mauki, má hafa svolítið af grófari bitum. Setjið í skál með restinni af uppskriftinni, blandið saman og setjið inn í ísskáp í 10-15 mín. Að því loknu er þetta tilbúið til neyslu.

Verði ykkur að góðu. Geymist í 3-4 daga í loftþéttu íláti í kæli.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Sæt dressing með kóríander og myntu

Náttúrulegur og nærandi hlaupadrykkur