Haustið er komið með sínum lægðum, roki og vindi. Því er um að gera að ylja sér með gómsætri súpu. Við þökkum cafesigrun.com kærlega fyrir að leyfa okkur að deila þessari súpu með lesendum NLFÍ.
Súpan er einstaklega holl því hún inniheldur tómata, engifer, sætar kartöflur, hnetur og margt fleira hollt og gott. Það þægilega við súpuna er að maður getur skorið grænmetið mjög gróft því það fer allt saman í matvinnsluvél! Súpan er því sérlega fljótleg í undirbúningi.
Súpan er mjólkurlaus, glúteinlaus og hentar jurtaætum (enska: vegan).
Innihald – fyrir fjóra
– 1 msk kókosolía
– 1 laukur, saxaður gróft
– 2 hvítlauksgeirar, saxaðir gróft
– 2 g ferskt engifer, saxað smátt
– 0,5 msk cumin (ekki kúmen)
– 1 msk coriander
– 1 tsk kanill
– 1 tsk negull
– 250 g tómatar, saxaðir gróft
– 450 g sætar kartöflur, saxaðar gróft
-1 stór gulrót, söxuð gróft
– 750 ml vatn
– 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
– 1 gerlaus grænmetisteningur
– 20 g cashew hnetur, þurrristaðar á pönnu
– 1 tsk cayenne pipar (má sleppa)
– 1 msk hnetusmjör (hreint og án viðbætts sykurs)
– Nokkur corianderlauf (má sleppa)
Aðferð
- Afhýðið laukinn, hvítlaukinn, engiferið, gulræturnar og sætu kartöflurnar og saxið allt gróft.
- Saxið tómatana einnig gróft.
- Hitið kókosolíuna í stórum potti. Hitið laukinn í um 7 mínútur eða þangað til hann er orðinn mjúkur. Ef vantar meiri vökva á pönnuna, notið þá vatn.
- Bætið hvítlauk, engiferi, cumin, coriander, kanil og negul saman við.
- Bætið tómötunum, sætu kartöflunum og gulrótinni saman við. Hitið í um 5 mínútur.
- Hellið 750 ml af vatni út í pottinn ásamt grænmetisteningnum.
- Látið suðuna koma upp og leyfið þessu að malla í um 30 mínútur eða þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
- Takið súpuna af hellunni og látið kólna í nokkrar mínútur.
- Á meðan skuluð þið hita pönnu (án olíu) og þurrrista hneturnar í um 2 mínútur.
- Hellið súpunni í matvinnsluvél ásamt þurrristuðu hnetunum og hnetusmjörinu og blandið þangað til allt er orðið vel maukað. Áferðin fer eftir smekk ykkar þ.e. ef þið viljið hafa grænmetisbita í súpunni getið þið blandað hana skemur en maukið lengur fyrir mýkri áferð. Einnig má nota töfrasprota eða blandara.
- Hellið súpunni nú í pottinn og hitið vel.
- Saltið og piprið eftir smekk.
- Dreifið nokkrum corianderlaufum yfir súpuna áður en hún er borin fram.
– Berið fram með snittubrauði eða öðru góðu brauði.
– Súpan er enn þá betri daginn eftir.
– Ef þið viljið hafa súpuna grófari, má mauka grænmetið minna.
– Frysta má súpuna og hita upp síðar.
– Nota má ósaltaðar jarðhnetur í staðinn fyrir cashewhnetur.
– Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
– Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
– Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
– Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.