Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði hefur verið starfandi frá árinu 1955 og hefur verið einn af hornsteinum íslenskrar heilbrigðisþjónustu síðan þá. Á þessum 63 árum hefur ýmislegt breyst í heilsueflingu landsmanna. Dvalargestur sem valdi á Heilsustofnun árið 1982 orti þessa skemmtilegu vísu um dvöl sína á Heilsu“hælinu“ eins og það hét í þá daga. Þarna má sjá að stólpípa og safakúrar voru notaðir til að grenna fólk.
Heilsuhælið
(lag: Nína og Geiri)
Á Heilsuhælið höldum við,
og höfum vonum um lækningu og frið,
einhver því komið hefir á fót
að hælið sé allra meina bót.
Í leirinn ertu lagður fljótt
lokast þá allar varnir skjótt
í nefinu kláði og augunum tár
Eyvi þau þurrkar og þér líður skár.
Í vatnsnuddi Gulli þig glettist við
gefur þér bunu á rass og kvið,
upp úr karinu eins og skot
annars hann sprautar þig í rot.
Í Bylgjunum hjá Báru er gott,
þú brúnkar og húðin verður flott.
Stuttbylgju-karlarnir stara á
straumlínukroppana líða hjá.
Í sundlauginni er svaka grín
þar synda konu og hrekkjusvín.
Þetta er æfing, og allir fá bað,
hann Ísak sagði mér að gera það.
Í heitapotti er heilmikið fjör
þar hressist fólkið í táning úr kör
en kjötsúpulyktin er kæfandi sterk
svo færðu í tómann kviðinn verk.
Á glasafæði þú oft ert sett,
ef ætlarðu að vera grönn og nett,
en glösin þau segja ekki allt
í ábæti færðu, pípu og salt
Í matsalnum er margt svo gott
matinn Pálína skreytir flott,
ef færðu þér krúsku og hveitikorn
fýkurður fyrir næsta horn.
Eitt er það gegn um þunnt og þykkt,
þá verður að mæta og stíga á vigt,
taktu þá bæði pípu og salt.
Taktu burt úrið og tennur og allt.
Ef ætlarðu að fá þér alvöru nutt
svo alltaf þú gangir ein og óstudd.
Þá erkiengilinn öruggan tel
elsku Kláus hann nuddar svo vel.
Við símann Ragnheiður brosir blítt
blikkar og segir ósköp þýtt:
Flýttu þér, vertu ekki að fela þig
frúin vill strax þig tala við.
Að lokum liggur þín leið á burt
þig langar að vera lengur um kjurt.
En aðrir (hópar) bíða og aðrir (hópar) þrá
Heilsuhælið að komast á.
Inga Jónasar,
frá Súgandafirði.
Birtist í 2.hefti ritsins Heilsuverndar árið 1982.
1 Ummæli
Í Árnessýslu er aldrei friður
og ólæti í bælinu
er ekki hægt að ná þeim niður
á Náttturleysingjahælinu.
Comments are closed.
Add Comment