Svíþjóðarför vorið 1946

För mín til útlanda síðastliðið sumar var 9. utanlandsferð mín. Hún var gerð í því skyni, að kynnast starfsemi og framförum á sviði lækninga, sérstaklega á sviði heilsuverndar. Mér er fyrir löngu ljóst orðið, að heilsufar vort, eins og margra annarra þjóða, er miklu lakara en þörf er á, að menn eru heftir fjötrum hleypidóma og vanþekkingar, bæði andlega og líkamlega.

Ég fór héðan flugleiðis til Stokkhólms þriðjudaginn 14. maí, og tók flugið aðeins 7 tíma. Ég varð fyrir hálfgerðum vonbrigðum, því að þoka og ský huldu haf og hauður, svo að ekki sá til lands. Er við flugum yfir skýjunum, datt mér í hug hið mikla skýjaþykkni vanþekkingar, er hylur mannkyninu þau sannindi, að það er sífellt að berjast um fánýta hluti án þess að koma auga á það, sem mest er um vert. En það er andlegur og líkamlegur þroski. Skýjaþykknið minnir á efnishyggjuna og baráttu um fjármuni, um auð og yfirráð. Tæknin hefir aukizt. En það er hin andlausa tækni. Hinsvegar hefir þekking vor á sjálfum oss ekki vaxið, og ekki heldur skilningur vor á mannlífinu og tilgangi þess. Um það bera heimsstyrjaldirnar gleggstan vott. Þær eru vottur þess, að hin einhliða, skefjalausa efnishyggja ræður meiru en nokkurt annað afl í heiminum, og að þar sem hún er, þar er orsakanna til styrjalda og ófriðar að leita.
Nýmóðins hernaður
Í gegnum hergnýinn og hörmungaóp deyjandi manna hafði til Íslands stranda borizt ómur af annarskonar stríði í löndum, sem voru utan við sjálft veraldarstríðið. Það voru Svíþjóð og Svissland. Það var þessi hernaður, sem ég vildi kynna mér, en að þessu sinni gafst mér ekki tími til að fara til Svisslands.

Svíþjóð, þetta hlutlausa land, fór ekki alveg á mis við stríð. Þar herjaði einn nýr og nýmóðins víkingur, Are Waerland. Hernaður hans var annars eðlis en menn eiga að venjast. Þessi nýmóðins víkingur herjaði á þá vanþekkingu og hleypidóma og heimsku, sem eiga mesta sök á vanheilsu, sjúkdómum og vansælu mannkynsins. Hann hefir með sínu hvassa andans sverði höggvið djarft á hendur tvær, svo að allt hefir orðið undan að láta.

Forsaga þessa hernaðar er sú, að tveir bræður berjast við vanheilsu. Sú viðureign endar með því, að annar fellur í valinn. Are Waerland kemst lífs af. Hann hafði tekið stúdentspróf, þótt lasinn væri, og lagt stund á heimspeki sem aðalfag. En svo fékk hann botnlangabólgu. Botnlanginn sprakk, það náðist ekki í skurðlækni og Waerland lá lengi milli heims og helju. Loks gróf ígerðin sig út, en Waerland var andlega og líkamlega lamaður maður.

Þetta verður til þess, að Waerland fer til Englands og leggur þar fyrir sig að lesa læknisfræði. Hann tekur ekki próf, því að hann ætlar sér ekki að verða læknir. Hann þarf ekki á því að halda að leita sér atvinnu, og hann sér víðara verksvið framundan en það að sökkva sér á kaf í sjúkdóma, sem sé það að forða meðbræðrum sínum frá því að verða veikir og kenna þeim að vernda heilsu sína og heilbrigði. Í 35 ár leggur hann stund á læknisfræði, líffræði, lífeðlisfræði og manneldisfræði, í Englandi, Skotlandi, Frakklandi og Ítalíu, og naut tilsagnar hinna færustu manna. Má meðal þeirra nefna hinn þekkta enska skurðlækni Sir Arbuthnot Lane og Sir Arthur Keith, sem er einhver þekktasti líffræðingur nútímans. Hann gerir tilraunir á sjálfum sér og öðrum með allskonar mataræði og fæðutegundir. Og honum tekst að byggja upp mataræði, sem ásamt hollum lifnaðarháttum gefur honum fullkomna heilsu, eins og hún getur bezt orðið. Síðar fer hann heim til Svíþjóðar og byrjar þar að kenna þjóð sinni.
Ekki sjúkdómar, heldur rangar lífsvenjur
Aðalinnihaldið í kenningum Waerlands er þetta: Vér eigum ekki í höggi við sjúkdóma, heldur við ranga og óheppilega lifnaðarháttu. Takið burtu og útrýmið þessum óheppilegu og ónáttúrlegu lifnaðarháttum, og sjúkdómarnir hverfa af sjálfu sér eins og dögg fyrir sólu.

Sjúkdómar og sjúkleiki, sem við er barizt, eru ekki annað en breytingar á líkama manna, en orsakir þeirra eru sjúklegar nautnir, og þó fyrst og fremst ónáttúrleg og skemmd matvæli.

Þessir röngu og ónáttúrlegu lifnaðarhættir hinna siðmenntuðu þjóða eiga sök á andlegri og líkamlegri eymd og vesaldómi fjöldans. Starf læknanna fer mestmegnis í það að gera við sjúkdómseinkennum og afleiðingum rangra lifnaðarhátta, en orsakirnar eru látnar eiga sig að mestu leyti, vegna þess að læknarnir þykjast ekki þekkja þær til fulls. Þetta er hin „rétttrúaða“ (orthodox) stefna læknisfræðinnar. Og gegn þessari efnislegu og einhliða stefnu hefir Are Waerland hafið herferð, sem hefir nú staðið látlaust í 20 ár. Ferð mín til Svíþjóðar var farin til þess að kynna mér þessa stefnu betur en bækur geta gert.
Æskan fylkir sér um Waerland
Yfirleitt hafa læknar, bæði í Svíþjóð og hér á landi, snúizt gegn kenningum Waerlands, þeir sem ekki hafa látið þær afskiptalausar. Fáir hafa lagt honum liðsyrði. Læknar hafa litið á þær sem árás á læknisfræðina og starf þeirra. Þeir hafa haldið uppi persónulegum árásum á manninn, án þess að kryfja sjálft ágreiningsmálið til mergjar. En þeir hafa ekki komið að tómum kofanum hjá Waerland. Eftir hið langa nám sitt og rannsóknir er hann hverjum lækni lærðari í lífeðlisfræði og líffræði, svo að þar standa þeir honum ekki snúning. Og fólkið finnur, að hann hefir betri málstað, hlýðir á hann og vill læra af honum. Fjöldi manna, sem áður voru heilsulausir, hafa náð aftur fullum bata og betri heilsu en þeir höfðu nokkru sinni notið, með því einu að snúa baki við læknunum og fara eftir ráðleggingum hans. Þessir menn fylkja sér um Waerland og kenningar hans. En ekki aðeins þessir menn, heldur einnig hin lífsglaða, starffúsa, djarfhuga æska hefir fylkt sér um hugsjónir Waerlands: útrýmingu hrörnunarsjúkdóma. Æska Svíþjóðar sættir sig ekki við sjúkleika og vaxandi vesaldóm. Hún krefst fullkominnar starfhæfni og vill fá að njóta lífsins í skjóli fullkominnar heilbrigði. Waerlandssinnar vilja afneita áfengi, tóbaki, kaffi og öðrum eiturnautnum. Eins og víkingur, sem leggur undir sig lönd, hefir Are Waerland farið um sitt eigið föðurland vopnaður meiri þekkingu á orsökum sjúkdóma en áður hefir þekkzt. Hann hefir á síðustu árum heimsótt hverja borg landsins og stærri þorp og oft haldið tvo fyrirlestra á dag og talað í tvo tíma dag eftir dag vikum og mánuðum saman, sem er óviðjafnanlegt þrekvirki af sjötugum manni. Og hann hefir gefið þjóð sinni bjartar vonir um betri framtíðarheilsu.

Þessar kenningar hans hafa þegar orðið andleg vakning, sem nær nú til allra stétta. Jafnvel ýmsir læknar, einkum af yngri kynslóðinni, hafa fylkt sér um þær í heimalandi Waerlands, og hér á landi hafa þekktir læknar stutt þær og viðurkennt gildi þeirra opinberlega.

Um hina nýju stefnu hefir verið stofnaður félagsskapur, sem ætlast er til að nái til allra Norðurlanda. Hann heitir Allnordisk Folkhälsa og hefir nú með höndum stórfelldar framkvæmdir, sem ekki er unnt að lýsa í stuttu máli.
Ný lífsskoðun
Stefna Waerlands er ekki bundin einvörðungu við endurbætur á næringu og mataræði manna. Þetta er ný hugarstefna, ný lífsskoðun, eins og sjá má af hinum mörgu bókum, sem Waerland hefir ritað. Þær bera allar með sér djúpristan skilning á mannlífinu og tilgangi þess.

Waerland lítur á allt líf í heimi vorum sem eina samrunna lífheild, þar sem allt stefnir að sama marki. Hugarstefna og lífsskoðun Waerlands minnir á Björn Gunnlaugsson og hina alkunnu vísu hans í Njólu:
Lífið öllu langt af ber,

lífi duftið þjónar.

Lífi birtan löguð er,

líf sér haminn prjónar.
Hugarstefna þessi opnar mönnum ný, andleg sjónarmið, sem benda á, að lífið er andlegt og skapandi eðlis. Þessvegna verður að skapa því eðlileg kjör og skilyrði til fullkomnunar.

Hið fegursta við stefnu og starf Waerlands er það, að hann leggur áherzlu á mildi, mannúð og mannjöfnuð. Þeir sem fylgja stefnu hans, gera það ekki með neinni hálfvelgju, heldur af heilum huga og sannfæringu. Í þeim heimi, þar sem Waerlandssinnar hafa völd, er stríð og ófriður útilokað. Þeir líta svo á, að maðurinn sé ekki skapaður sem rándýr eða hrææta, heldur sem jurta-, ávaxta- og mjólkuræta. Hinar lifandi frumur líkamans verða að fá lifandi fæðu til þess að varðveita líf sitt svo fullkomið sem unnt er.
Matstofur
Í Stokkhólmi og fleiri borgum í Svíþjóð hafa risið upp matstofur, þar sem framreiddur er matur eftir fyrirsögn Waerlands. Þar er útilokaður saltmatur, allur brauðmatur úr hvítu hveiti, hvíthefluð hrísgrjón, hvítur sykur og önnur óeðlileg sætindi. En þeim mun meira er notað þar af nýjum og þurrkuðum ávöxtum, auk allskonar grænmetis og garðávaxta, mjólkur og osta. Kjöt og fiskur sést þar aldrei á borðum, og egg eru ekki notuð nema lítilsháttar í suma rétti. Waerland fordæmir með öllu hverskonar eiturnautnir, svo sem áfengi, tóbak, kaffi og aðra æsandi drykki.

Um það verður ekki þráttað, að Waerland er brautryðjandi, sem hefir þegar hrundið af stað þýðingarmiklu starfi, þjóð sinni til andlegrar og líkamlegrar heilsubótar.

Jónas Kristjánsson.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi