Saga heilsuhælismáls NLFÍ

Fyrsta gjöfin til stofnunar heilsuhælis, að upphæð 100 krónur, barst félaginu árið 1940 frá frú Þuríði Erlendsdóttur, Grettisgötu 57B í Reykjavík. Það var þó ekki fyrr en á aðalfundi félagsins 18. marz 1942, að lögð var fram og samþykkt tillaga frá félagsstjórn um stofnun sérstaks sjóðs í þessu skyni. Og á næsta aðalfundi, 29. marz 1943, var kosin 7 manna nefnd til þess að annast fjáröflun í sjóðinn. Kosningu hlutu: Frú Arnheiður Jónsdóttir, frk. Elín Egilsdóttir, frú Guðrún Þ. Björnsdóttir, frú Matthildur Björnsdóttir, sem af félagsstjórn var skipuð form. nefndarinnar, Pétur Jakobsson, fasteignasali, Þorvaldur Jónsson, verzlunarmaður, og frú Unnur Skúladóttir. Nefndin tók þegar til starfa og sendi konum innan félagsins samskotalista. Söfnuðust þannig í fyrstu atrennu milli 40 og 50 þúsund krónur.

Á aðalfundi 19. marz 1944 var samþykkt skipulagsskrá fyrir Heilsuhælissjóð NLFÍ, og er hún prentuð í 3. hefti HEILSUVERNDAR 1948 með breytingum, sem síðar voru gerðar. Í stjórn sjóðsins voru kosin á fundinum frú Fanny Ásgeirsdóttir, frú Guðrún Þ. Björnsdóttir, frú Kristjana Carlsson og Pétur Jakobsson, en stjórn NLFÍ skipaði frú Matthildi Björnsdóttur formann. Síðan hafa nokkrar breytingar orðið á stjórninni, og er hún nú þannig skipuð: Formaður frú Matthildur Björnsdóttir, sem hefir verið formaður frá byrjun, ritari Pétur Jakobsson, fasteignasali, gjaldkeri Þórarinn Björnsson, póstfulltrúi, frú Guðrún Þ. Björnsdóttir og frú Kolfinna Jónsdóttir.

Fyrir nokkrum árum fékk sjóðsstjórn fastan merkjasöludag, annan sunnudag í júní, lét prenta merki og gerði tilraunir með merkjasölu. Þá lét hún prenta falleg og smekkleg minningarspjöld, sem eru til sölu hjá formanni sjóðsins í Reykjavík og á nokkrum stöðum úti um land og gefa sjóðnum vaxandi tekjur. Síðan 1944 hafa verið haldnar árlegar skemmtanir öll árin nema eitt til ágóða fyrir sjóðinn. Og þá hafa sjóðnum borizt gjafir og áheit, smærri og stærri, sem of langt yrði upp að telja. Veglegustu gjafirnar voru frá Sigurði Guðmundssyni, klæðskerameistara, 5000 krónur, sem hann færði sjóðnum á fimmtugsafmæli sínu til minningar um móður sína og systur látnar, og 5000 krónu dánargjöf frá frú Unu Vagnsdóttur.

Vorið 1947 var haldinn basar, sem félagskonur stóðu fyrir og gaf af sér á 5. þúsund krónur. Sama ár var stofnað til happdrættis, og voru þau frú Guðrún Þ. Björnsdóttir, Björgólfur Stefánsson, kaupmaður, og Björn L. Jónsson, veðurfræðingur, skipuð í happdrættisnefnd. Tókst nefndinni að afla margra glæsilegra happdrættismuna, þeirra á meðal bíls og heimilisvéla. Dregið var 17. júní 1948, og varð hreinn ágóði af happdrættinu um 170 þúsund krónur.

Á aðalfundi félagsins 23. apríl 1947 var samþykkt að hækka félagsgjöldin um helming, ársgjald úr 10 í 20 krónur og ævigjöld úr 100 í 200 krónur, og var það jafnframt tilskilið, að hækkunin skyldi renna í heilsuhælissjóð.

Það mun hafa verið árið 1941, sem stjórn NLFÍ fór fyrst að líta í kringum sig eftir stað fyrir væntanlegt hæli. Fyrstu skilyrðin, sem sá staður yrði að fullnægja, voru þessi: 1. Landrými og önnur skilyrði til ræktunar grænmetis og garðávaxta handa hælinu. 2. Jarðhiti til gróðurhúsa og annarrar upphitunar. 3. Æskilegt var og talið, að hælið gæti einnig rekið kúabú og framleitt mjólk til eigin þarfa. Með hliðsjón af þeim upplýsingum, er nýlega hefir verið skýrt frá hér í ritinu, um nauðsyn húsdýraáburðar til þess að búa til lífrænan safnhaugaáburð, er telja má grundvallarskilyrði fyrir því, að hægt sé að framleiða fullkomlega heilnæmar afurðir, bæði grænmeti til manneldis, skepnufóður og mjólk, er þetta þriðja atriði litlu eða engu veigaminna en tvö hin fyrstu. Stjórnin leitaði fyrst fyrir sér í Mosfellssveit og í Krísuvík, en varð ekki ágengt.

Síðan skipulagsskrá heilsuhælissjóðs var samþykkt, hafa stjórnir félagsins og sjóðsins unnið sameiginlega að öllum helztu málum, er varða undirbúning að stofnun hælis. Hafa þær haldið marga sameiginlega fundi. Á fundi 7. sept. 1943 var kosin 5 manna nefnd til þess að leita að og velja stað fyrir hælið. Nefndin leitaði víða fyrir sér, m.a. í Mosfellssveit og Ölfusi. Mikið var um það rætt, hvort hælið þyrfti nauðsynlega að standa í nágrenni Reykjavíkur, og voru um það nokkuð skiptar skoðanir. Eftir að fullreynt þótti á áðurnefndum stöðum, tók nefndin til athugunar "heita" staði í Borgarfirði og Árnessýslu. Og þegar hún varð þess áskynja, að jörðin Gröf í Hrunamannahreppi væri til sölu, gerði hún sér ferð þangað austur. Leizt öllum vel á staðinn, og var nefndin sammála um að leggja málið fyrir fund stjórnanna, að fengnum upplýsingum um verð og greiðsluskilmála.

Árangurinn af þeim málaleitunum varð sá, að á félagsfundi 5. sept. 1946 var stjórninni heimilað að kaupa jarðeignina Gröf, og hinn 20. nóv. sama ár var kaupsamningurinn undirritaður. Kaupverð jarðarinnar var 100 þúsund krónur, sem greiðast skyldu á fimm árum. Auk þess keypti félagið og hlutafélagið Gróska tvö gróðurhús af ábúanda jarðarinnar, Emil Ásgeirssyni, og jafnframt var honum byggð jörðin til fardaga 1955. Félagið hefir varið nokkru fé til viðgerðar og endurbyggingar á íbúðarhúsi í Gröf og til þess að breyta farvegi Litlu-Laxár, og byggja varnargarð, en áin hefir árlega brotið úr túni jarðarinnar og hefði haldið því áfram. Um farvegsbreytinguna var farið eftir tillögum Ásgeirs L. Jónssonar, vatnsvirkjaráðunauts.

Síðastliðið haust var Ágúst Steingrímssyni, byggingafræðingi, falið að gera tillöguuppdrátt að hæli fyrir 120 hælisgesti. Jafnframt skyldi athugað, hvernig hægt yrði að haga byggingum þannig, að hælinu yrði komið upp í áföngum, þannig að byrjað væri með rúm fyrir um 30 hælisgesti og síðan bætt við eftir efnum og ástæðum. Hefir Ágúst nú verið ráðinn til að gera fullnaðarteikningu að hælinu. Jafnframt voru skipaðir í bygginganefnd þeir Björn L. Jónsson, Björn Kristjánsson, kaupmaður og Jóhann Fr. Kristjánsson, húsameistari. Sótt var um fjárfestingarleyfi til byrjunarframkvæmda, en svar er ókomið.

Á síðastliðnu ári var ákveðið að breyta um merkjasöludag og hafa hann eftirleiðis á afmæli Jónasar læknis Kristjánssonar, hinn 20. september ár hvert. Í tilefni af 10 ára afmæli félagsins 24. jan. s.l. var þó fengið leyfi til að hafa merkjasölu þann dag. Er sagt frá því á öðrum stað hér í ritinu, svo og útbreiðslufundi og skemmtun, sem haldin var í því tilefni, og afmælisgjöfum og áheitum, sem félaginu hafa borizt frá vinum og vildarmönnum.

„Hálfnað er verk þá hafið er“ Þetta stutta yfirlit sýnir, að heilsuhælismálið, þetta mikla áhugamál félagsins og velferðarmál þjóðarinnar allrar, er komið á góðan rekspöl. Mestu átökin eru að vísu framundan. En með bjartsýni og trú á skilning og örlæti almennings verður baráttunni haldið áfram, unz markinu er náð. Lokamarkið er þó ekki heilsuhælið sjálft, heldur sem fullkomnust heilbrigði og hamingja þjóðarinnar allrar. Í þeirri sókn, sem getur tekið tugi eða hundruð ára, ætti hið væntanlega hæli að geta orðið öflugasta lyftistöngin og sannkölluð háborg íslenzkrar heilbrigði.

Related posts

Nýr pistlahöfundur

Gleðilegt nýtt ár

Ályktanir 39. landsþings Náttúrulækningafélags Íslands