Opnun Matstofu Jónasar á Heilsustofnun NLFÍ

Í gær fimmtudaginn 18. maí var formleg opnun á nýrri og endurbættri matstofu Heilsustofnunar sem fékk nafnið Matstofa Jónasar, til heiðurs Jónasi Kristjánssyni lækni, stofnanda Heilsustofnunar og NLFÍ.
Í tilefni af þessum tímamótum var slegið upp heilmikilli veislu. Halldór Steinsson kokkur Heilsustofnunar bauð upp á dýrindis heilsumat og mikill fjöldi gesta mætti til að fagna þessum tímamótum. Meðal gesta voru Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Páll Magnússon alþingismaður og Guðni Ágústsson fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.
Gunnlaugur K. Jónsson forseti NLFÍ og Haraldur Erlendsson yfirlæknir og forstjóri Heilsustofnunar héldu tölu. Auk þess ávarpaði forsætisráðherrra Bjarni Benediktsson veilsugesti og óskaði Heilsustofnun innilega til hamingju með nýja og glæsilega matstofu.

Maturinn og næringin á Heilsustofnun hefur alltaf verið hornsteinninn í meðferðinni til heilsueflingar. Jónas Kristjánsson stofnandi var ötull baráttumaður fyrir hollum lífsháttum og mikilvægi góðrar næringar. Í ritið Heilsuvernd árið 1950 skrifaði hann m.a.: „Næringin er sterkasti hlekkurinn í akkerisfesti lífsins. Sé hann unninn úr lélegu efni, reynizt hann undantekningarlaust svikull, þegar á reynir. Líkaminn er það hljóðfæri, sem sálin spilar á. Lífslagið fer eftir samræmi og samstillingu allra strengja þess.“

Frá stofnun NLFÍ árið 1937  hefur félagið viljað stuðla að því að almenningur á Íslandi hafi aðgang að hollum og góðum mat. Megintilgangur félagsins er ,,að efla og útbreiða þekkingu á lögmálum heilbrigðs lífs og á heilsusamlegum lifnaðarháttum“ og stór þáttur í því er að bjóða upp á næringarríkan og hollan mat á matstofu Jónasar.
Út frá þessum markmiðum tók matstofa NLFÍ til starfa 22. júní 1944 í Landfógetahúsinu að Skálholtsstíg 7 í Reykjavík. Þetta var fyrsta matstofan á Íslandi sem sérhæfði sig í grænmetisfæði og var langt á undan sinni samtíð.

Markmið NLFÍ með rekstri matstofu í gegnum tíðina hefur verið að:

  • Bjóða upp á úrval hollra grænmetis og fiskirétta.
  • Notast við lífrænt vottaðar afurðir í eldamennskunni, ekkert hvítt hveiti, enginn hvítur sykur og engin aukaefni.
  • Selja lífrænt vottaðar vörur.
  • Bjóða uppá matvörur án allrar erfðabreytinga.
  • Efla fjölbreytni í lífrænni ræktun í samvinnu við bændur.
  • Fræða landsmenn um heilbrigða lífshætti með reglulegum fræðsluuerindum.
  • Stuðla að heilbrigði landsmanna með næringarríkum mat

NLFÍ óskar Heilsustofnun innilega til hamingju með Matstofu Jónasar og vonar að hún verði til þess að auka enn frekar hróður Heilsustofnunar og stuðla að heilbrigði landsmanna.

Related posts

Nýr pistlahöfundur

Gleðilegt nýtt ár

Ályktanir 39. landsþings Náttúrulækningafélags Íslands