Náttúrulækningafélag Íslands 80 ára – Saga félagsins

Hinn 5. júlí árið 1937 boðaði maður að nafni Björn Kristjánsson til fundar á Hótel Tindastóli á Sauðárkróki. Tilgangur fundarins var að stofna félag sem byggði á kenningum náttúrulækningastefnunnar sem hann hafði kynnst í Evrópu. Björn var fæddur og og uppalinn á Sauðárkróki en hafi verið búsettur í Hamborg um nokkurra ára skeið og kynnst stefnunni þar.

Birni hefur sennilega verið kunnugt um áhuga Jónasar Kristjánssonar, lækinis á Sauðárkróki, um málið og hafi það hvatt hann til að stofna félagið. Jónas hafði þá um langt skeið talað fyrir bættu mararæði og heilbrigðari lífshátum, m.a. á fundum Framfarafélags Skagfirðinga sem stofnað var árið 1918. Jónas mun hafa verið aðalhvatamaður að stofnun þess félags og var forseti þann tíma sem félagið starfaði eða um 20 ára skeið.

Á stofnfundi Náttúrulækningafélags Íslands var Jónas Kristjánsson, læknir, kjörinn forseti. Aðrir í stjórn voru kjörnir: Björn Kristjánsson, verslunarfulltrúi, varaforseti; Haraldur Júlíusson, kaupmaður, ritari; Eyþór Stefánsson verslunarmaður, gjaldkeri og Valgarð Blöndal, póstafgreiðslumaður.

Jónas lét af störfum sem læknir á Sauðárkróki í árslok 1938 og flutti til Reykjavíkur, þar sem hann sagðist ætla að vinna að því að í heilbrigðismálum væri lifað eftir lögmáli náttúrunnar.

Við brotthvarf Jónasar féll félagsstarfsemi NLFÍ á Sauðárkróki að mestu niður. Í janúar 1939 var síðan boðað til stofnfundar á ný í Reykjavík. Síðan hefur félagið dafnað vel og seinna meir voru stofnuð dótturfélög um land allt og lifa tvö af þeim enn, Náttúrulækningafélag Reykjavíkur og Náttúrulækningfélag Akureyrar.

Hófst nú Jónas handa við undirbúning að stofnun heilsuhælis sem varð að veruleika þegar Heilsuhælið í Hveragerði opnaði fyrir fyrstu gestunum í júlí 1955.

NLFÍ hóf útgáfu tímaritsins Heilsuverndar árið 1946 og gaf út um árabil. Jónas skrifar svo í ávarpi fyrsta blaðsins: ,,Náttúrulækningastefnan, eins og ég lít á hana, boðar trú á lífið og heilbrigðina, á andlega og líkamlega heilbrigði, jafnvægi og lífsgleði, en afneitar trúnni á sjúkdóma.‘‘

Dótturfélagið Náttúrlækningafélag Akureyrar (NLFA) var stofnað 27. ágúst 1944 og hélt upp á 70 ára afmæli sitt þann dag árið 2014. Jónas Kristjánsson, læknir, forseti NLFÍ og Björn L. Jónsson, veðurfræðingur og varaforseti félagsins mættu á stofnfund félagsins fyrir tilmæli manna á Akureyri, þar mun Sigurður Líndal Pálsson, menntaskólakennari, hafa verið forgöngumaður. Á framhaldsstofnfundi sem haldinn var mánuði síðar var Sigurður kosinn formaður félagsins, talaði hann þar um ástæður þess að hann gekkst fyrir stofnun félagsins ,,Taldi hann einkum það að útvega hingað hollari fæðutegundir og sérstaklega ódýrara grænmeti‘‘segir í fundargerð.

Fyrstu árin lagði félagið NLFÍ lið við fjáröflun til að byggja upp heilsuhælið í Hvergerði, en litla félagið á Akureyri átti sér draum – drauminn um heilsulind á Norðurlandi.
Var nú hafist handa við fjáröflun og byggingu sambærilegs heilsuhælis á Norðurlandi sem á endanum var valinn staður í Kjarnskógi sunnan Akureyrar.
Margar hendur komu þar að verki og á endanum tókst að reisa fysta áfanga hússins sem nefnt var Kjarnalundur. En byggingatíminn var langur og þegar húsið var að verða tilbúið var ljóst að ekki var lengur grundvöllur fyrir rekstri þess. Það fór svo að húsið var selt og stór hluti söluandvirðisins var lagt í byggingu baðhússins á Heilsustofnun í Hveragerði.

Segja má að í Heilsustofnun sé afrakstur frumkvöðlastarfs Jónasar og þess mikla starfs sem félagsmenn Náttúrulækningafélaganna allra og velunnara þeirra hafa innt af hendi.

Það er ósk okkar og von að Náttúrulækningafélögin og starfsemi þeirra megi blómstra um langa framtíð. Þrátt fyrir tiltölulega háan aldur eru félögin í fullu fjöri og boðskapur þeirra á jafn vel við í dag og fyrir 80 árum.

„Berum ábyrgð á eigin heilsu“

Sigrún Daðadóttir
Formaður NLFA

Related posts

Nýr pistlahöfundur

Gleðilegt nýtt ár

Ályktanir 39. landsþings Náttúrulækningafélags Íslands