Síðan Jónas Kristjánsson, þáverandi héraðslæknir og sjúkrahúslæknir á Sauðárkróki, flutti hreyfingu þá, sem kölluð er náttúrulækningastefna, til Íslands, hefir hann verið eini boðberi hennar hér á landi í læknisstöðu. Hér verður ekki rakin barátta læknisins nema lítillega, þótt merkileg sé, einnig á árunum áður en nokkurt félag var stofnað um þessa hugsjón. Stefnu og hugsjónum þessarar hreyfingar hefir verið lýst í ræðum og ritum Jónasar læknis, frá því hann byrjaði að boða þær opinberlega á Sauðárkróki, að mig minnir 1923 í sýslufundarvikunni, og fram á þennan dag.
Mönnum finnst, sem eðlilegt er, sú grundvallarkenning alltof einföld, að þau lífsöfl (element), sem geti verndað heilsu manna, geti einnig læknað sjúka, eða hins vegar, að þau lífsöfl, er geti læknað sjúka, geti líka með daglegri notkun verndað og viðhaldið góðri og eðlilegri heilsu. Hvað ætti þá þetta langa og erfiða læknanám að þýða, ef málið væri svona einfalt. Bismarck gamli hefir sagt, að einn mikill galli væri á síldinni: hún væri of ódýr til þess að fólk fengist til að eta hana. Sú kenning náttúrulækna, að eldhúsið eigi að vera lyfjabúð heimilisins, hefir einnig hneykslað marga, enda á slíkt vitanlega langt í land, lengra en viðurkenning ýmsra annarra sanninda, sem haldið er fram, og hér verða ekki rakin, enda mjókkar bilið milli hinna ýmsu kenninga stöðugt, en hægt.
Brautryðjandastarf er oftast miklum erfiðleikum bundið. Þetta mál var og er margþætt, og flestir þættir þess voru þá hérlendis mikið til óþekktir eða skammt á veg komnir. Ef málið hefði þá ekki verið borið fram af reyndum lækni, glöggum og djörfum hugsjónamanni, þá væri hér engin slík hreyfing til í landinu, eða að minnsta kosti ekki svo kröftug sem hún er nú og með hinu samtvinnaða mikla aðalmarkmiði: 1) lækningu sjúkra og 2) að forða frá vanheilsu og vanlíðan.
Eftir að ég settist að í Hamborg í Þýzkalandi árið 1928, fór ég að kynna mér þessar kenningar þar í landi. Þar voru til svo miklar bókmenntir um þessi efni og öll undirstöðuskilyrði svo fullkomin, að í engu landi öðru mun vera neitt svipað þekkt. Auk bóka voru mörg tímarit gefin út um þessi efni af hámenntuðum prófessorum og doktorum og einnig af sjálfmenntuðum mönnum. Mörg félög voru til, sum stór, sem höfðu tugi eða jafnvel hundruð þúsunda meðlima um allt landið, einnig minni félög, bundin við einn stað eða einn náttúrulækni eða eitt eða fleiri heilsuhæli. Ekki vissi ég til, að nokkurt slíkt félag hefði matsölu, þær voru þó margar til, en líklega allar í einkaeign. Mörg heilsuhæli og margar lækningastofur náttúrulækna voru víðsvegar um Þýzkaland, Austurríki og Sviss, en flest í einkaeign. Mörg þeirra störfuðu aðeins á sumrin og fram á haust, einkum þau, sem voru í fjöllum eða við sjó. Um 1930 var reiknað út, að um 11 milljónir Þjóðverja aðhylltust náttúrulækningastefnuna og leituðu aðallega til náttúrulækna, en síðar voru gjörðar auknar kröfur til þeirra og þeim settar frekari skorður, ef þeir höfðu ekki tekið læknispróf við einhvern háskóla ríkisins. Hér var því um auðugan garð að gresja, og mætti margt fleira um það segja.
Þegar ég kom heim til Íslands sumurin 1929 og 1931, sagði ég Jónasi lækni ýmislegt af þessum málum og hvatti hann til að kynna sér allt, sem hann gæti í Þýzkalandi. Hann fór þó næstu utanför sína 1935 til Ameríku, vegna málsins. Það sumar kom ég næst heim, og var Jónas læknir þá nýkominn að vestan og lét vel af för sinni. Þá kom til mín maður einn í Reykjavík, sem hafði fyrir stuttu farið norður á Sauðárkrók til að leita læknisráðs hjá Jónasi. Hann sýndi mér "resept", ef svo má kallast, frá lækninum, skrifað á stórt blað, sem innihélt allítarlegar ráðleggingar um mataræði og fleira. Þetta varð hann að gjöra, þar eð ekkert var þá til prentað af þesskonar ráðleggingum á íslenzku. Hann tók þá að beita hinum nýju ráðum við ýmsa af sjúklingum sínum, við hinar erfiðustu aðstæður.
Sumarið 1937 kom ég næst til Íslands og dvaldist þá eins og vant var nokkra daga heima á Sauðárkróki. Læknirinn var þá mjög mikið á ferðalögum til sjúklinga í héraði sínu, enda var það tíðum svo. Eg hafði lítið tækifæri haft til að tala við hann um sameiginleg áhugamál okkar, og tíminn var orðinn naumur, svo að ég settist niður við skrifborð einn daginn og samdi fundarboð, sem farið var með til um 15 manna í kauptúninu, og uppkast að lögum fyrir félag, sem heita skyldi "Náttúrulækningafélag Íslands", með heimilisfangi á Sauðárkróki. Mættu allir, sem boðaðir voru, um kvöldið að "Hótel Tindastóli", þar á meðal Jónas læknir og fjölskylda hans. Þetta var 5. júlí 1937.
Eg ávarpaði fundinn og lýsti tilgangi fundarboðsins og sagði nokkuð frá náttúrulækningastarfseminni í Þýzkalandi og að ég teldi nauðsynlegt, að félag væri stofnað hérlendis til þess að lyfta undir brautryðjandastarf Jónasar læknis og auka fræðslu fólksins í landinu um þessi mikilvægu mál. Jónas læknir lýsti ánægju sinni yfir þessari hugmynd, sem hann líkti við hlýjan vorblæ úr suðri, og sagði frá reynslu sinni og annarra í þessum efnum. Allir, sem tóku til máls, voru meðmæltir stofnun félagsins, og var það því stofnað og lögin samþykkt. Auk forsetans, Jónasar læknis, voru þessir kosnir í stjórn: Haraldur Júlíusson, kaupmaður, Eyþór Stefánsson, verzlm., Valgarð Blöndal, póstafgreiðslumaður og undirritaður (einkum til að undirbúa ferðalag forsetans næsta ár).
Vorið eftir (1938) fór Jónas læknir ferð mikla til Þýzkalands og Sviss og gaf sér góðan tíma og fékk hin ákjósanlegustu tækifæri til að kynnast sem bezt ýmsum helztu náttúrulæknum og hælum í þessum löndum. Af náttúrulæknum var þá Dr. Bircher-Benner í Zürich frægastur í Evrópu. Einnig safnaði hann þá að sér allmiklu af bókum og tímaritum og taldi för sína hafa verið mjög árangursríka. Hann kynnti sér þá og sérstaklega baðlækningar, einkum heit böð og svokölluð yfirhitunarböð, Hyperthermi böð, með innpakkningu á eftir, sem kennd hafa verið við Schlenz og próf. dr. Lampert er þekktastur af.
Til félagsstarfsemi á Sauðárkróki vannst varla nokkur tími, enda ákveður læknirinn þá um sumarið að segja af sér embætti og flytjast búferlum til Reykjavíkur. Þar fær hann áhugamenn fljótt í lið með sér. Hjörtur Hansson kaupmaður gengst fyrir fundarboði, og stofnfundur er haldinn að nýju í Varðarhúsinu í Reykjavík, 24. janúar 1939. Jónas Kristjánsson setur fundinn og skýrir frá tilefni hans. Sigurjón Pétursson, hinn mikli íþróttakappi og frömuður í líkamsrækt um margra ára skeið, var fundarstjóri, en Hjörtur fundarritari. Allir fundarmenn, 30 að tölu, gerðust stofnendur félagsins. Í stjórn voru kosnir þessir: Forseti Jónas Kristjánsson, læknir; varaforseti Sigurjón Pétursson, verksmiðjueigandi, og meðstjórnendur Sigurður Björnsson frá Veðramóti í Skagafirði, Hjörtur Hansson, kaupmaður og Axel Meinholt, kaupmaður.
Þau 10 ár, sem síðan eru liðin, hefir félagið unnið markvisst að áhugamálum sínum á þann hátt sem hér segir:
1. Fyrstu árin var starf félagsins aðallega fólgið í fundahöldum, sem fóru fram mánaðarlega að vetrinum, en að sumrinu voru oft farnar göngu- eða grasaferðir. Auk venjulegra félagsfunda voru og haldnir útbreiðslufundir. Á fundum fluttu Jónas Kristjánsson og ýmsir aðrir erindi um manneldismál og önnur heilbrigðismál, ræktun o.fl. Þá svaraði læknirinn spurningum, er honum bárust, og voru spurningar og svör skráð í sérstaka bók. Auk þess hefir Jónas Kristjánsson flutt fyrirlestra utan félagsins, þar á meðal í útvarp, og ritað greinar í blöð og tímarit. Og nú er byrjað að sýna stuttar fræðslukvikmyndir á fundum félagsins. Sumarið 1947 kom hinn víðkunni sænski frömuður í heilsurækt, Are Waerland, til landsins á vegum félagsins og flutti fyrirlestra á íslenzku víðsvegar um landið.
2. Félagið hefir gefið út 7 bækur, og eru þær þessar: Sannleikurinn um hvítasykurinn, eftir Waerland (1941). Nýjar leiðir, fyrirlestrar og ritgerðir eftir Jónas Kristjánsson (1942). Matur og megin, eftir Are Waerland (1943 og 2. útgáfa 1944). Nýjar leiðir II, þýddar og frumsamdar ritgerðir (1946). Heilsan sigrar, eftir Waerland (1946). Úr viðjum sjúkdómanna, eftir Are Waerland (1947). Menningarplágan mikla, eftir Waerland og Ed. Bertholet (1948). Tvær fyrstu bækurnar eru uppseldar fyrir löngu, og 2. útg. af Matur og megin er einnig að verða uppseld.
3. Tímaritið HEILSUVERND byrjaði að koma út 1946 undir ritstjórn Jónasar Kristjánssonar. Eru áskrifendur þess um hálft annað þúsund.
4. Matstofa félagsins að Skálholtsstíg 7 tók til starfa 22. júní 1944 og hefir átt miklum vinsældum að fagna. Hefir félagið þar unnið merkilegt brautryðjandastarf á sviði fæðissölu og mataræðis. Hafa aðrar matsölur tekið matstofuna til fyrirmyndar um tilhögun fæðis o.fl., og hið sama hafa að sögn mörg heimili gert.
5. Í ársbyrjun 1945 gekkst félagið fyrir því, að stofnað var hlutafélagið Gróska til kaupa á gróðurhúsum í Laugarási í Biskupstungum, með það fyrir augum að framleiða grænmeti handa matstofunni og félagsfólki. Þegar NLFÍ keypti jörðina Gröf í Hrunamannahreppi, seldi Gróska eignir sínar í Laugarási en keypti í staðinn gróðurhús í Gröf og hyggst að reka þar garðyrkjustöð í samvinnu við væntanlegt heilsuhæli með ræktunaraðferðum þeim, sem lýst hefir verið hér í ritinu.
6. Á 75 ára afmæli sínu stofnaði forseti félagsins sjóð, að upphæð 15 þús. krónur, til styrktar læknum, er vilja kynna sér náttúrulækningar erlendis.
7. Stofnun heilsuhælis hefir frá upphafi verið eitt aðaláhugamál félagsins. Heilsuhælissjóður var stofnaður 19. marz 1944. Hinn 20. nóv. 1946 keypti félagið jörðina Gröf í Hrunamannahreppi fyrir væntanlegt heilsuhæli. Og fyrir nokkru er hafinn undirbúningur að byggingu hælisins, og mun ætlunin að byrja framkvæmdir þegar á þessu ári.
Þótt lækningastarfsemi Jónasar Kristjánssonar heyri ekki undir félagið, er hún samtvinnuð starfi þess, því að með bað- og mataræðislækningum sínum og ráðleggingum til þeirra mörgu sjúklinga, er til hans leita, vinnur hann félaginu og útbreiðslu stefnunnar ómetanlegt gagn.
Þessar félagsdeildir hafa verið stofnaðar utan Reykjavíkur: Akureyrardeild 27.8. 1944. Siglufjarðardeild 25.9. 1946. Ísafjarðardeild 11.5. 1948. Ólafsfjarðardeild 25.5. 1948, og nýlega hefir verið stofnuð deild á Sauðárkróki. Í deildunum eru um 350 félagar, en félagatalan alls um 1800, þar af rúmir 100 ævifélagar.
Í stjórn félagsins eru nú: Forseti Jónas Kristjánsson, læknir; varaforseti Björn L. Jónsson, veðurfræðingur, og er hann jafnframt framkv.stjóri félagsins; ritari Hannes Björnsson, póstmaður; gjaldkeri Hjörtur Hansson, kaupmaður; vararitari Axel Helgason, lögregluþjónn. Í stjórn Heilsuhælissjóðs eru: Formaður Matthildur Björnsdóttir, frú, skipuð af stjórn NLFÍ; ritari Pétur Jakobsson, fasteignasali; gjaldkeri Þórarinn Björnsson, póstfulltrúi; meðstjórnendur Guðrún Þ. Björnsdóttir, frú, og Kolfinna Jónsdóttir, frú.
Ekki er annað hægt að segja en að félagið hafi unnið ótrautt að hugðarefnum sínum og náð talsverðum árangri á ekki lengri tíma. En verkefnin eru mikil og mörg, og langt á það í land, að verulegur hluti þjóðarinnar njóti ávaxtanna af starfi félagsins, eins og þar sem slík hreyfing hefir náð mestri útbreiðslu. En með tilliti til þess áhuga og dugnaðar, sem alltaf hefir einkennt félagið, mun mega spá því miklum og merkilegum afrekum á komandi árum, sem ég held að muni sanna á hinn ánægjulegasta hátt tilverurétt þess og uppfylla hinar glæstu vonir stofnenda þess frá upphafi.
Heilsuvernd, 4. tbl. 1948,