Náttúrulækningafélag Akureyrar 70 ára


Í dag eru 70 ár síðan Náttúrulækningafélag Akureyrar (NLFA) var stofnað.

Það var á þessum degi þann 27. ágúst árið 1944 að Jónas Kristjánsson, læknir, forseti Náttúrlækningafélags Íslands, ásamt Birni L. Jónssyni lækni, og þáverandi varaforseta NLFÍ, komu til fundar á Akureyri í þeim tilgangi að stofna náttúrulækningafélag á Akureyri. En orðspor af hugsjón Jónasar, frumkvöðuls náttúrulækningastefnunnar á Íslandi, hafði borist til Akureyrar, og vakið umtal og áhuga.

Björn og Jónas héldu erindi um tilgang og stefnu NLFÍ, og fundarmenn samþykktu stofnun NLFA sem varð deild í NLFÍ.  Á stofnfundinum innrituðust 58 manns í félagið. Síðan hefur félagið vaxið og dafnað og telur nú á fimmta hundrað félaga.

Fyrstu þrjá áratugina mótaðist starfsemi NLFA ekki hvað síst af því að vekja áhuga bæjarbúa á þýðingu heilsufæðis, í því skyni var sett upp verslun með heilsuvörur og keypt kornmölunarvél sem malaði allt að níu tonnum af korni á ári. 
Á þessum árum lagði félagið jafnframt ýmsum verkefnum NLFÍ lið, en þá var verið að safna fé til uppbyggingar Heilsuhælisins í Hveragerði.  
Árið 1979 var fyrsta skóflustungan tekin að byggingu heilsuhælis á Norðurlandi, enda þá komið vilyrði heilbrigðisyfirvalda um þjónustukaup. Fjórtán árum síðar, eða um haustið 1993 er stórhýsið Kjarnalundur risið og þar haldið landsþing NLFÍ. 
Vorið 1994 þótti fullreynt að heilbrigðisyfirvöld ætluðu ekki að standa við marggefin fyrirheit um þjónustukaup. Var þá Kjarnalundur leigður út til hótelrekstrar og síðar rak Akureyrarbær þar dvalarheimili fyrir aldraða. 

Húsið var síðan selt árið 2004 og hófst þá undirbúningur að byggingu félagsheimilis NLFA. 4. nóvember 2006 var félagsheimilið NLFA vígt með glæsibrag. Fjöldi gesta samglöddust NLFA á þessum tímamótum enda er húsið og umhverfi þess allt hið glæsilegasta. 

Félagsheimili NLFA sem hefur hlotið nafnið Kjarni kemur til með að þjóna starfsemi félagsins auk útleigu til félagasamtaka og einstaklinga.
Hægt er að gerast félagsmaður í NLFA hér https://nlfi.is/nyskraning

Í tilefni þessa stórafmælis NLFA heldur félagið hátíðarfund í félagsheimili sínu Kjarna kl.17:00 í dag. Á  laugardaginn næstkomandi verður opið hús í Kjarna og þar geta gestir og gangandi kynnt sér starfsemi NLFA.

Myndin sem fylgir þessari frétt er tekin af kynningarfundi sem haldin var á vegum NLFA á Akureyri árið 1956. Grein um þennan fund birtist í dagblaðinu Degi og sagði frá því að NLFA væri meðal annars að glæða áhuga Norðlendinga á hollu mataræði.
 

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni ritstjóra NLFÍ, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Nýr pistlahöfundur

Gleðilegt nýtt ár

Ályktanir 39. landsþings Náttúrulækningafélags Íslands