Milljarðauppbygging í Hveragerði – Grein úr Morgunblaðinu

Náttúrulækningafélag Íslands ætlar að byggja upp og endurnýja Heilsustofnun í Hveragerði, reisa allt að 140 þjónustuíbúðir og byggja upp hágæða heilsulind.

Milljarðauppbygging stendur fyrir dyrum í Hveragerði á allra næstu árum. Náttúrulækningafélag Íslands hyggur á miklar framkvæmdir við Heilsustofnunina í bænum. Horft er til uppbyggingar Heilsustofnunar, byggingar þjónustuíbúða auk heilsulindar og/eða heilsuþorps á lóð félagsins.

Undirbúningur að framkvæmdunum hefur staðið yfir síðastliðin 15 ár, að sögn Gunnlaugs K. Jónssonar, forseta NLFÍ og formanns rekstrarstjórnar Heilsustofnunar. Hann segir í samtali við ViðskiptaMoggann að verkefnið sé komið á þriðja stig viðskiptaáætlunar af sex og næsta skref sé að auglýsa arkitektasamkeppni á næstu vikum. Niðurstaða hennar á svo að liggja fyrir í byrjun næsta árs. Framkvæmdir eiga samkvæmt þessu að geta hafist síðar á sama ári.

Afar spennandi fyrir alla

Hann segir verkefnið afar spennandi fyrir alla sem að því koma. „Við höfum úr miklu landi að spila í hjarta bæjarins, sem býður upp á mikla möguleika. Við höfum notið mikils stuðnings og velvilja frá bæjaryfirvöldum og nærumhverfisins í gegnum tíðina, enda ekki hægt að reka svona vinnustað nema með slíkum stuðningi. Heilsustofnun er stærsti vinnustaðurinn í bænum.“

Gunnlaugur segir ástæðuna fyrir því að ráðist er í framkvæmdir sem þessar nú að ekki megi bíða lengur með að tryggja rekstur Heilsustofnunar til framtíðar. Nauðsynlegt sé að bæta alla aðstöðu Heilsustofnunar, ekki síst með nýju meðferðarhúsi fyrir einstaklings- og hópmeðferðir. Hann segir að sjálfstæði Heilsustofnunar sé í dag takmarkað, þar sem það sé mjög háð einum stórum viðskiptavini, ríkinu, sem bæði ákveður hvaða þjónusta sé keypt og á hvaða verði. Aukið sjálfstæði er nauðsynlegt að mati Gunnlaugs, ekki síst í þeim tilgangi að vinna að markmiðum eigandans, sem fyrst og síðast snúist um að einstaklingurinn beri ábyrgð á eigin heilsu.

Áætluð velta Heilsustofnunar á næsta ári er 1,5 milljarðar króna. Bæði eru þar tekjur af þjónustusamningnum við ríkið og sértekjur upp á mörg hundruð milljónir króna á ári. „Við höfum alltaf þurft að niðurgreiða þjónustuna sem við veitum heilbrigðisyfirvöldum með sértekjunum. Ríkið greiðir til dæmis ekki fyrir fæði og húsnæði sinna skjólstæðinga.“

Hann segir að vegna þess að sértekjur séu notaðar í að borga niður þjónustuna sem veitt er sé stofnunin að éta innan úr sjálfri sér, eins og hann orðar það. „Við höfum lengi verið að leita leiða til að verða sjálfstæðari og styrkja reksturinn og skoðað allar mögulegar og ómögulegar leiðir í því sambandi. Í dag er það þannig að stærsti hluti húsakynnanna er byggður á árunum 1953-1970 og við náum varla að halda því í horfinu.“

Verkefnið er unnið í samvinnu við ráðgjafarsvið Ernst & Young. Gunnlaugur segir að ekki sé einungis horft til þjónustu við Íslendinga, heldur einnig til erlendra viðskiptavina. Margir eru þó viðkvæmir fyrir því og telja að ýta eigi íslenskum sjúklingum út úr Heilsustofnun. Hann segir að það sé alls ekki sannleikanum samkvæmt. Heilsustofnun muni áfram sinna því hlutverki sem hún hefur sinnt áratugum saman.

Gunnlaugur segir verkefnið þríþætt. Í fyrsta lagi uppbygging og endurnýjun Heilsustofnunar. Í öðru lagi bygging allt að 140 þjónustuíbúða, en þar er um að ræða íbúðir sem fólk festir kaup á en nýtir sér þjónustu Heilsustofnunar. Í þriðja lagi er síðan um að ræða uppbyggingu hágæða „Health Resort“ eða heilsulindar sem m.a. njóti þjónustu Heilsustofnunar, m.a. hvað faglega þjónustu áhræri. Í þessum efnum er m.a. horft til fyrirmynda í Þýskalandi, Sviss og víðar. „Þeir sem sækja slíkar heilsulindir eru yfirleitt vel efnað fólk yfir fimmtugt og eins má nefna að það færist sífellt í aukana að fyrirtæki leiti eftir slíkri þjónustu með það í huga að rækta mannauð sinn til að bæta árangur.“

Gunnlaugur bendir á að Heilsustofnun sé líklegast eini aðilinn á Íslandi sem veitt getur heilsutengda lækningaþjónustu á breiðum grunni. Gríðarleg eftirspurn er að hans sögn eftir þjónustu sem þessari á alþjóðamarkaði.

Spurður um fjármögnun verkefnisins segir Gunnlaugur að betri mynd komist á þau mál um leið og afrakstur hönnunarsamkeppninnar liggur fyrir í byrjun næsta árs, en miðað við þær athuganir sem gerðar hafa verið sé nægur áhugi fjárfesta nú þegar fyrir hendi.

„Við viljum byggja Heilsustofnun upp með bravúr þannig að hún nái til enn breiðari hóps, m.a. í þeim tilgangi að einstaklingurinn beri ábyrgð á eigin heilsu og velferð og nái þannig að bæta árum við lífið og lífi við árin.“

Þessi grein birtist í viðskiptablaði Morgunblaðsins 11. september s.l. og er birt með góðfúslegu leyfi höfundar Þórodds Bjarnasonar tobj@mbl.is

Related posts

Nýr pistlahöfundur

Gleðilegt nýtt ár

Ályktanir 39. landsþings Náttúrulækningafélags Íslands