„Menn kvörtuðu ekki nóg“ – Langvarandi niðurskurður á Heilsustofnun NLFÍ

Yfirskrift þessarar greinar er tekin úr ræðu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur úr stól Alþingis, þar sem verið var að ræða fjárlög ársins 2011 (139. Löggjafarþing – 50. Fundur, 16.des 2010). Hér eru orð frú Ragnheiðar Elínar: „Vegna orða hv. þm. Þórs Saaris áðan um meðferðina á heilsuhælinu í Hveragerði, Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, þá er (Forseti hringir.) loksins komin skýringin á því af hverju niðurskurðurinn á þeirri góðu stofnun var aukinn í 18% á milli 1. og 2. umr. (Forseti hringir.) Menn kvörtuðu ekki nóg. Sem betur fer tóku þeir til varna og sá niðurskurður var dreginn niður í 10%, það er þó skárra“.

Þessi ræða og innihald hennar er sorglegur vitnisburður um þann rekstargrundvöll sem einn af hornsteinum íslensks heilbrigðiskerfis, Heilsustofnun NLFÍ, hefur þurft að búa við undanfarna áratugi.
Eru þetta virkilega vinnubrögð sem við sem þjóð erum bara sátt við? Er það í alvöru þannig að þær stofnanir sem kvarta mest fá mesta aurinn? Hvaða bananaapalýðveldi er þetta sem við búum í? Er freki og leiðinlegi kallinn sá sem öllu ræður í íslensku samfélagi? Þarf Heislustofnun að ráða til sín „kvartara“ í fullt starf sem vinnur hörðum höndum að reglulegu kvarti í stjórnmálamönnum til að tryggja stöðugan rekstrargrundvöll?

Undirritaður hefur verið starfandi sem næringarfræðingur á Heilsustofnun á fimmta ár og allan þann tíma hefur verið endalaus barningur um rekstarfé við ríkið eða öllu heldur stofnun þess Sjúkratryggingar Íslands. Ríkið hefur ekki verið að greiða raunkostnað fyrir þá þjónustu sem Heilsustofnun veitir samkvæmt samningum. Þetta hefur leitt til þess að halli á rekstri Heilsustofnunar er mikill ár hvert. Miðað við meðaltöl undanfarin ár þá vantar um 250 milljónir á ári til að reiknisdæmið gangi upp. Heislustofnun hefur því undanfarin ár þurt að skera niður í sínum rekstri sem hefur aðllega komið fram í litlu viðhaldi og endurnýjun á húsnæði og tækjum. Nú er svo komið að ekki verið lengra gengið í niðurskurði því ríkið er ekki tilbúið að greiða raunvirði fyrir þjónustuna sem veitt er. Það þarf að segja upp fólki og draga úr starfi Heilsustofnunar. Munu því uppsagnir og harður niðurskurður taka gildi frá og með næstu áramótum.

Þessi niðurskurður er þyngri en tárum taki því árlega fá um 1600 Íslendingar betrun á sál og líkama með 3-6 vikna dvöl á Heilsustofnun. Einkunnarorð Heilsustofunar eru „berum ábyrð á eigin heilsu“. Starfsfólk leggur sig mikið fram við að efla heilsu dvalargesta og þjálfa þá í að þurfa ekki að nýta sér þjónustu spítalanna. Því er Heilsustofnun að spara ríkinu mikið fé á ári hverju með því  ma.a. að okkar dvalargestir nota minna af lyfjum, stoðtækjum og fara síður á örorku. Með minni starfssemi Heilsustofnunar er í rauninni verið að auka kostnað ríkisins þegar lengra en litið. Það er sorglegt að þeir sem stýra fjármagninu í heilbrigðiskerfinu sjái ekki að niðurskurður til Heilsustofnunar er í raun sóun á ríkisfé!

Ég hef aldrei verið þrasgjarn eða mikið fyrir að kvarta en miðað við orð fyrrverandi ráðherra í byrjun þessa pistils, þá mun ég frá og með þessum degi verða einn mesti kvartari og tuðari Íslandssögurnnar. Mér hefur alltaf þótt miklir tuðarar og kvartarar leiðinlegar manngerðir en ef kvart mitt verður til þess að fjárframlög til Heilsustofnunar verða aukin í sanngjarna upphæð þá er það þess virði. Á Heilsustofnun starfa um 100 manns og ef þau taka þátt í kvartkórnum, ásamt velunnurum Heilsustofnunar þá mun þetta kvart vonandi ná eyrum stjórnenda fjármagns í heilbrigðiskerfinu. Kosningum er einnig nýlokið og það er vonandi að nýtt Alþingi vilji taka upp betri vinnubrögð í útdeilinu fjármagns í heilbrigðiskerfinu en kvartkerfið.

Við starfsfólk Heilsustofnunar erum hér með lögð af stað með einn háværasta kvartkór sem sögur fara af sem nefnist KVARTMILLJARÐKÓRINN og vísar til þess kvartmilljarðs sem hefur vantar upp í rekstur Heilsustofnunar á hverju ári. #kvartmilljardkorinn

Berum ábyrgð á eigin heilsu.

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing