Heilsuhælisbygging í Eyjafirði


Fyrir 9 árum áttum við Laufey Tryggvadóttir, núverandi formaður Náttúrulækningafélags Akureyrar, samtal um nauðsyn þess að koma upp náttúrulækningahæli í Eyjafirði. Öll þau ár sem liðin eru síðan að náttúrulækningahælið í Hveragerði komst í gang, þá hefir það verið augljóst að það myndi ekki nægja þeirri þörf sem er fyrir slíkar stofnanir hér á landi. Allskyns sjúkdómar og þreyta sækja að og reynslan hefir sýnt að sú lækningaaðferð sem viðhöfð er í Hveragerði kostar aðeins brot af því sem venjuleg sjúkrahúslega kostar. Það er einnig reynsla fengin fyrir því, að fjögra til sex vikna dvöl í slíku hæli getur skilað fólki ótrúlega hressu á vinnumarkaðinn á ný, ef vel tekst til, og sparast þá dvöl á hinum dýru sjúkrahúsum.

Það var engin tilviljun að Eyjafjörður kom í hug okkar þegar farið var að svipast eftir stað fyrir slíkt hæli á Norðurlandi, þar er veðursæld meiri en víða annarsstaðar; þar er Akureyri, stærsti kaupstaður norðanlands, þar er náttúrufegurð og síðast en ekki síst að á Akureyri er starfandi náttúrulækningafélag sem búið er að starfa þar lengi með meiri krafti en víða annarsstaðar. Það sem helst skorti á var að þar voru óvíða staðir sem byðu fram jarðhita ásamt annarri aðstöðu sem viðunandi gat talist, og öll þau ár sem liðin eru síðan má segja, að farið hafi í slíka leit, en þegar heita vatnið fannst á Laugalandi það ríflegt, að ákveðið var að leiða það til Akureyrar var það mál leyst.

Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Eyjafirði hefir verið valinn staður í Kjarnaskógi og byggingarframkvæmdir eru hafnar, þá munu margir spyrja: Hvar er Kjarnaskógur? Kjarni er gamalt býli sunnan Akureyrar. Þar hafa vormenn Akureyrar á síðustu áratugum unnið mikið afrek við að græða landið skógi og nú taka þessir bjartsýnu Akureyringar Náttúrulækningafélaginu opnum örmum og bjóða land fyrir heilsuhæli þess í þessum nýgrædda skógi í Kjarnalandi, í fallegri brekku, örskammt frá hitaæðinni, kaldavatnsæðinni, raflínunni, og flugvelli Akureyrar. Stað sem brosir við morgunsólinni þegar hún kemur upp yfir Vaðlaheiðinni. 

Í öllu framkvæmdastarfi til undirbúnings þessara bygginga ber fyrst að nefna formann Náttúrulækningafélags Akureyrar, frú Laufeyju Tryggvadóttur, sem þegar í byrjun tók málið að sér og hefir síðan unnið að því af þeim frábæra dugnaði sem ætíð einkennir hana og þau störf sem hún tekur að sér. Með henni til þessara starfa hefir valist samhentur hópur kvenna og karla, þar sem enginn hefir látið sitt eftir liggja, og víst megum við undrast hverju þau hafa komið til leiðar í fjársöfnun og framkvæmdum.

Þriðjudagurinn 7. ágúst 1979 var ákveðinn sem fæðingardagur þessarar merku stofnunar. Forseta NLFÍ, frú Arnheiði Jónsdóttur, var tilkynnt þessi ákvörðun og þess óskað að hún yrði viðstödd athöfnina. Frú Arnheiður lét ekki á sér standa og tók með sér forstjóra samtakanna, Friðgeir Ingimundarson, og einnig var ég sem þetta ritar viðstaddur sem fulltrúi NLFÍ í bygginganefnd Akureyrarhælisins. Hinn ákveðni dagur rann upp, nokkrir tugir Akureyringa mættu í Kjarnaskógi á tilsettum tíma, og hin fyrsta skóflustunga var tekin af formanni Náttúrulækningafélags Akureyrar, frú Laufeyju Tryggvadóttur. 

Að því loknu flutti hún ræðu og skýrði frá aðdraganda framkvæmdanna. Frú Arnheiður Jónsdóttir flutti einnig ræðu, minntist upphafsmanns samtakanna hér á landi, Jónasar Kristjánssonar læknis, og bað starfi og stofnun blessunar Guðs.

Bygging heilsuhælis NLFA er hafin og þá verður mörgum á að spyrja, hvenær framkvæmdum þar verði það langt á veg komið að það geti tekið á móti sjúklingum og veitt hliðstæða meðferð og nú er gert í Hveragerði? Því getur að vísu enginn svarað upp á ár eða dag, en höfum í huga málsháttinn: "Hálfnað er verk þá hafið er„. Verum bjartsýn, hjálpumst að og þá munu verkin tala fyrr en okkur grunar. Þörfin er brýn, það sýnir hin mikla aðsókn í Hveragerði og hinir löngu biðlistar sem þar skapast. Sú var tíðin að sjálfboðavinna var boðin, en nú er öldin önnur, allir hafa nóg að starfa, og þeir sem hér bíða eru margir lítt vinnufærir. En við höfum mörg rýmri kringumstæður fjárhagslega en var fyrir 50-70 árum síðan. 

Ef við gefum sem flest nokkra upphæð í þessa byggingu þá mun hún verða tilbúin fyrr en varir og veitir okkur eða afkomendum okkar þráðan bata og vellíðan. Eitt til tvö hundruð þúsund krónur árlega megum við mörg missa; látum það af hendi, eða aðra upphæð eftir því sem á stendur, okkur til ánægju, öðrum til gagns, minnug þess, að margt smátt gerir eitt stórt.

 

 Árni Ásbjarnarson
Heilsuvernd 5. tbl. 1979,
bls. 112-114

Related posts

Nýr pistlahöfundur

Gleðilegt nýtt ár

Ályktanir 39. landsþings Náttúrulækningafélags Íslands