Heilsuhæli NLFÍ

Á næstu síðu er birt grunnmynd af fyrirhuguðu heilsuhæli N.L.F.Í., sem nú er í byggingu og bráðum komið undir þak að hálfu.

Grunnflöturinn er um 1200 m2. Húsið verður byggt úr asbesti á trégrind. Verður húsið hið skemmtilegasta og vandaðasta og vel fyrir þörfum dvalargesta séð. Sérstök deild verður fyrir ljós-, leir-, gufu- og vatnsböð.

Fyrirhugað er að reka hælið árið um kring.

Áratuga barátta Jónasar læknis Kristjánssonar í ræðu og riti fyrir bættu mataræði og hollum lifnaðarháttum yfirleitt hefur skilað miklum árangri. Enda mun brautryðjandastarf hans, á þessu sviði heilbrigðismálanna, halda nafni hans lifandi eftir að vanabundnir kollegar, sem andhverfir hafa verið stefnu hans, eru gengnir og gleymdir.

Einn af draumum Jónasar Kristjánssonar, heilsuhælið, er að verða að veruleika. Og vonandi á þessi mikli mannvinur einnig eftir að sjá þann draum sinn rætast að taka þar á móti sjúklingum og leiða þá til nýrrar heilsu og nýs lífsskilnings.

Rekstur hressingarheimilis N.L.F.Í. undanfarin sumur hefur sannað, svo að ekki verður í efa dregið, að væntanlegt hæli á miklu hlutverki að gegna, svo mikilvægu, að þjóðin hefur ekki efni á að vera án þess. Dvalargestir hælisins og sjúklingar eiga ekki einungis að öðlast þar bætta heilsu, aukinn starfsþrótt og lífstrú. Hver dvalargestur á ekki síður að tileinka sér og flytja með sér til síns heima kunnáttu og skilning á hollustu- og heilsugildi réttra lifnaðar- og hugsunarhátta.

Þannig á hæli N.L.F.Í. að verða heilsuræktarstöð og skóli í senn. ˆ Stuðlum öll að því með fjárframlögum, hvert eftir sinni getu, að bygging hælisins þurfi ekki að tefjast.

Einhuga átak fjöldans orkar öllu.

M.M.Sk.

Related posts

Nýr pistlahöfundur

Gleðilegt nýtt ár

Ályktanir 39. landsþings Náttúrulækningafélags Íslands