Framtíðarhorfur Náttúrulækningafélags Íslands

Félagsskapur Náttúrulækningafélags Íslands byggist meðal annars á því að útbreiða þekkingu á lögmálum heilbrigðs lífs og heilsusamlegra lifnaðarhátta, en í því felst meðal annars það að kenna mönnum að varast orsakir sjúkdóma og útrýma þeim. Þetta er sá hyrningarsteinn, sem allt meginstarf félagsins byggist á. Þessi djarfa og fagra stefnuskrá krefst mikils starfs og stórra fórna.

Á þeim fáu árum, sem félagið hefir starfað, má með sanni segja, að ótrúlega mikið hafi á unnizt í því að útbreiða þekkingu á hollum lifnaðarháttum. Félagið hefir unnið að mannbótahugsjón sinni með ýmsum aðferðum, t.d. bókaútgáfu, þar sem almenningur hefir fengið margháttaða fræðslu um það, hvernig hægt sé að „rækta“ líkamlega og andlega heilsu með heilbrigðum lífsvenjum og um skaðsemi óhollrar fæðu,  gildi hinnar náttúrulegu, lifandi fæðu. Margar af þessum bókum eru eftir fræga manneldis- eða næringarfræðinga. Þá hefir félagið á undanförnum árum stuðlað að því, beint og óbeint, að matsölu- og veitingahús svo og verzlanir hefðu heilnæma fæðu og matvörur á boðstólum. Um nokkur ár rak félagið matstofu hér í Reykjavík með góðum árangri, og pöntunarfélag var stofnað fyrir ári síðan, sem ótvírætt hefir sannað, að slík þjónusta við almenning er ómissandi og eitt þýðingarmesta spor, sem félagið hefir enn stigið til að hrinda í framkvæmd hugsjónum sínum. Þá hefir félagið rekið hressingarheimili undanfarin ár bæði í Borgarfirði og í Hveragerði. Þó að þetta heimili hafi að sjálfsögðu verið rekið við óhentugar aðstæður á ýmsa lund, hefir rekstur þess gefið merkilega reynslu ˆ reynslu, sem sýnir, að slík heilsuhæli eru þjóðinni lífsnauðsyn og verður vikið að því síðar. Eins og sjá má af þessum fáu atriðum, sem lauslega hefir verið drepið á hér að framan, er ljóst, að félagið hefir leyst af hendi furðulega mikið starf. En þótt mikið hafi á unnizt, hefir verkefnunum ekki fækkað heldur vaxa þau og fjölga við hvert ár, sem líður, ef halda á í horfinu og ekki slaka á klónni.

Skal þá vikið nokkrum orðum að þeim verkefnum, sem framundan eru. Er þá fyrst að nefna heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands. Fyrsti áfangi þess var orðinn fokheldur um síðustu mánaðamót, en hann rúmar um 27 vistmenn auk starfsfólks. Borðstofa er þar fyrir 80 manns og rúmgóð setustofa ásamt ýmsum fleiri salarkynnum, sem slíkum rekstri tilheyrir. Byggingarkostnaður þessa áfanga er áætlaður um kr. 1.250.000.00. Næsti áfangi verður af svipaðri stærð eða um 621 m2. Í þeim hluta byggingarinnar verða álíka margar sjúkrastofur og í fyrri áfanganum, ásamt leirböðum og tilraunastofum o.fl. salarkynnum. Í miðri þessari húsaþyrpingu, sem myndar vinkil eða öllu heldur U, verður sundlaug.

Undir byggingar þessar lagði ríkið til rúma 20 hektara lands, sem liggja beggja megin Varmár. Í sambandi við land þetta bíða mikil og mörg verkefni. Landið þarf að girða með traustri girðingu. Umhverfis hælið þarf að skipuleggja trjá- og blómagarða, koma fyrir tennisvöllum og jafnvel golfvelli. Austanvert við Varmá liggur um 9 hektara land, sem liggur mjög vel við ræktun, en það þarf að ræsa fram, og verður sennilega byrjað á því í sumar. Er ráð fyrir gert að rækta á þessum stað alls konar grænmeti. Sá hluti hælisins, sem nú er fokheldur, verður væntanlega tilbúinn til reksturs vorið 1955.

Við heilsuhælið í Hveragerði eru miklar vonir tengdar, þegar það er tilbúið. Það á ekki einungis að taka á móti sjúklingum og veita þeim hina beztu hjúkrun og lækningu, sem völ er á, heldur á hælið líka að vera nokkurs konar skóli, þar sem lögð verður áherzla á að kenna sjúklingum að varðveita hina endurheimtu heilsu, svo allt fari ekki í sama horfið og áður, og kenna þeim að varast orsakir sjúkdómanna.

Í heilsuhælinu verður í framtíðinni rekin fullkomin rannsóknarstofa, þar sem fram fer rannsókn á lækningagildi hveraleirs, hveragufu og hveravatns gagnvart hinum ýmsu sjúkdómum, t.d. gigt o.fl. Þá verður önnur rannsóknarstofa, sem rannsakar næringar- og hollustugildi hinna ýmsu fæðutegunda og áhrif þeirra á sjúkdóma.

Um framtíð heilsuhælisins í Hveragerði vil ég til gamans skýra frá áliti ýmissa merkra útlendinga á framtíð heilsuhæla, sem reist yrðu við hveri og laugar hér á landi.

Á síðastliðnum tveim áratugum hefi ég, vegna atvinnu minnar, oft átt þess kost að ferðast með útlendingum um byggðir og öræfi Íslands. Á þessum ferðum hefi ég kynnzt og talað við marga menn af ýmsum stéttum og þjóðernum, t.d. bankastjóra, verkfræðinga, lækna, prófessora og vísindamenn o.fl. Þegar ég nú í huganum dreg saman í heild ummæli þessara manna, varðandi hagnýtingu íslenzkra hvera, hvort heldur er um að ræða gufu, leir eða vatnshveri, þá eru þau eitthvað á þessa leið „Ef þið Íslendingar hefðuð fjármagn til að reisa fullkomin og vönduð heilsuhæli við hverina ykkar bæði í byggð og óbyggð, streymdi fólk til slíkra staða frá flestum þjóðlöndum, og gæti rekstur slíkra heilsuhæla orðið með beztu tekjulindum þjóðarinnar.“  Persónulega er ég sannfærður um, að þetta er ekki fjarri sanni. Ég hygg, að íslenzku hverirnir búi yfir margvíslegum möguleikum í sambandi við rekstur heilsuhæla. Rekstrarskilyrði á heilsuhælum hér á landi eru hin ákjósanlegustu á marga lund; ekki einungis í sambandi við hverina, heldur hreint loft, hreint vatn, landrými, kyrrð o.fl. Náttúran er bezti læknirinn. Hún svíkur engan í viðskiptum, ef við kunnum að fara með það, sem hún hefir fram að bjóða. Ef náttúran getur ekki hjálpað sjúkum og veikum mönnum, þá hjálpa meðul lítið. Ef við viljum taka í framrétta hönd móður náttúru, með því að leggja niður óhollar og skaðlegar lífsvenjur, hverfa sjúkdómarnir af sjálfu sér. Þetta eru staðreyndir, sem beztu og vitrustu vísindamenn allra alda eru sammála um. Ljós, loft og vatn ásamt hollri fæðu, hæfilegri hreyfingu og hvíld.

Þetta eru töfralyf, sem læknað geta flest mannleg mein, ef með þau er farið af þekkingu og reynslu. Óneitanlega væri það göfugra hlutverk að vinna að því að byggja hér mörg og vönduð heilsuhæli í byggð og óbyggð þessa lands, þar sem þúsundir manna, ekki einungis Íslendingar heldur og útlendingar, gætu notið hvíldar og hressingar og endurheimt heilsu sína í faðmi íslenzkrar náttúru, heldur en rembast við að gera Ísland að venjulegu ferðamannalandi; byggja mörg og dýr hótel og stritast við að uppfylla alls konar óheilbrigðar og hégómlegar kröfur, oft duttlungafullra lúxusflakkara, að minnsta kosti ætti það að verða fyrsta mál á dagskrá þjóðarinnar að reisa nægilega mörg sjúkrahús og heilsuhæli, svo að sjúklingar, oft meira og minna þjáðir, þurfi ekki að bíða sjúkrahúsvistar oft dögum og jafnvel vikum saman.

Sigurjón Danivalsson.

Related posts

Nýr pistlahöfundur

Gleðilegt nýtt ár

Ályktanir 39. landsþings Náttúrulækningafélags Íslands