Frá heilsuhælinu desember 1962


Fyrstu mánuði þessa árs var aðsókn að heilsuhælinu nokkru minni en árið 1961; eftir því sem á árið hefir liðið hefir þetta breytzt, og nú í haust hefir aðsókn verið meiri en nokkru sinni fyrr og heildartala sjúklinga, sem hér hafa dvalið á þessu ári, mun verða nokkru hærri en síðastliðið ár.

Starfsemin hefir verið með svipuðu sniði og áður. Við og við hafa verið fengnir ýmsir merkir menn til þess að flytja hér erindi um ýmis mál. Má þar einkum til nefna Björn L. Jónsson, sem að jafnaði hefir komið hér tvisvar í mánuði og flutt erindi um náttúrulækningastefnuna og manneldismál. Þá hefir Grétar Fells, rithöfundur, flutt hér mörg erindi á þessu ári um andleg málefni.

Margir fleiri hafa flutt hér fræðandi og skemmtandi erindi á þessu ári. Þá hafa guðsþjónustur verið nokkrum sinnum. Á kvöldin hefir við og við verið komið upp ýmsum skemmtiþáttum, bæði af dvalargestum og aðkomufólki. Þessi starfsemi er mjög vel þegin af þeim, sem hér dvelja sér til heilsubótar, og eiga allir þeir, sem að hafa unnið, miklar þakkir skildar fyrir fórnfúst starf.

Föndurstofa hefir starfað yfir vetrarmánuðina eins og að undanförnu. Sú starfsemi er á hrakhólum hvað húsrúm snertir, og þarf nauðsynlega að leysa það mál hið fyrsta.

Ný hús hafa ekki verið byggð á þessu ári, en sundlaug var byggð við hlið þeirrar, sem fyrir var. Er hún nokkru minni en eldri laugin. Er ætlazt til þess, að vatnið í henni sé það heitt, að gott sé fyrir þá, sem lítið synda, en hin laugin sé kaldari og ætluð þeim, sem meira synda og hreyfa sig. Þetta fyrirkomulag virðist gefa góða raun, og eru laugarnar mikið stundaðar.

Síðastliðið sumar var unnið áfram að fegrun umhverfisins með áframhaldandi gróðursetningu trjáplantna á lóð hælisins og má segja, að nú sé stærsta átakinu lokið hér í heimalóðinni. Þó er eftir að auka þar nokkru við, og svo er alveg eftir að rækta upp land það, sem hælinu tilheyrir handan Varmár. Það land hefir verið ræst fram, og næsta vor þarf að hefjast handa um að girða það og síðan að gróðursetja þar skjólbelti, en þau eru frumskilyrði þess, að þar geti síðar þrifizt skógarlundir, garðlönd og akrar.

Matjurtaræktin var síðastliðið sumar með svipuðum hætti og sumarið 1961. Jarðeplauppskeran var minni í ár, en uppskera af gulrófum og káli meiri. Í gróðurhúsunum var aðallega ræktað gúrkur og tómatar og auk þess gulrætur, hreðkur, salat o.fl. síðari hluta vetrar og snemma vors.

Á komandi vori er fyrirhugað að lengja eldri íbúðarálmu hælisins og bæta þannig við nokkrum einbýlisherbergjum, en eftirspurn eftir þeim fer mjög vaxandi. Fleiri viðbótarbyggingar eru fyrirhugaðar, svo fljótt sem fjárhagur leyfir.

Á þessu ári hefir verið stofnað til happdrættis til ágóða fyrir nauðsynlegar framkvæmdir í hælinu, en heldur hefir gengið erfiðlega að selja miðana og ekki miklar vonir um, að sú fjáröflun hjálpi mikið. Þó getur enn úr rætzt, því að drætti hefir verið frestað til 23. des.

Merkjasala fór fram 30. sept. s.l. til ágóða fyrir heilsuhælið. Mun ágóði hennar nema 25 þúsund krónum.

Árni Ásbjarnarson.

Heilsuvernd 6. tbl. 1962,
bls. 74-175

Related posts

Nýr pistlahöfundur

Gleðilegt nýtt ár

Ályktanir 39. landsþings Náttúrulækningafélags Íslands