Frá heilsuhælinu

www.heilsustofnun.is


Starfsemi heilsuhælisins hefir verið með svipuðum hætti, það sem af er þessu ári, eins og að undanförnu. Í ársbyrjun voru sjúklingar fáir, en þeim fjölgaði seinni hluta janúar, og frá því seinni hluta marzmánaðar til 15. júní var aðsókn meiri en svo, að hægt væri að taka fólk jafnótt og þess var óskað.

Um miðjan júní varð sú breyting, að sjúkrasamlögin lækkuðu greiðslu sína og höguðu henni þannig, að ekki var greidd dvöl sjúklinga í hælinu, heldur aðeins meðferð, sem þeir fengu eftir læknisráði, svo sem nudd, böð o.fl.

Þessi skipan gilti til 15. ágúst s.l., en þá breyttust greiðslur sjúkrasamlaganna aftur í fyrra horf, og vonandi sér tryggingarráð sér fært í framtíðinni að finna fast form fyrir greiðslur sjúkrasamlaga vegna þeirra sjúklinga, sem í hælum dvelja, svo að ekki ríki eins mikil óvissa um það frá einum tíma til annars, eins og nú hefir verið, en slík óvissa hlýtur að valda áhyggjum og óþægindum, bæði sjúklingum og starfsfólki þeirra stofnana, sem hér eiga hlut að máli.

Helztu framkvæmdir á þessu ári eru byggð gróðurhús um 300 m2 að stærð. Þar eru nú (16. ágúst) fullþroskaðir tómatar og gúrkur, auk ýmsra annarra matjurta. Lögð er áherzla á að nota sem beztan lífrænan áburð, og engin varnarlyf gegn jurtasjúkdómum eru notuð, hvorki í gróðurhúsum né útirækt, enda hefir þess ekki þurft, því að heilbrigði plantnanna hefir verið góð hér í sumar.

Á síðasta vori var byggður hluti af geymsluhúsi og bætt þar úr brýnni þörf. Þá var og haldið áfram að rækta lóðina. Ólafur Valur Hansson ráðunautur og Ingimar Sigurðsson garðyrkjubóndi í Fagrahvammi, Hveragerði, gerðu gróðurkort af lóðinni, og eftir því var unnið. Hraunið var rutt og jafnað, mold og áburði ekið í og síðan sáð grasfræi, trjám og runnum plantað eftir því sem við átti, samkvæmt tillögum áðurnefndra sérfræðinga.
Land það, sem nú hefir verið tekið til ræktunar, mun vera um 1 hektari, og er það næsta umhverfi hælisins. Ræktun og fegrun lóðarinnar verður dýr, en hún er nauðsynleg engu að síður, og því verki verður að hraða svo sem kostur er á.

Eins og getið var um í síðasta hefti Heilsuverndar, hafa verið gefin út skuldabréf, sem verið er að selja til að standa straum af kostnaði við lóðina.

Heitum við enn á stuðningsmenn Náttúrulækningafélagsins að kaupa þau.

Þótt nokkuð sé framkvæmt árlega, er enn langur óskalisti um margt, er vantar af byggingum og öðru, sem nauðsynlegt er að gera fyrir þessa stofnun okkar, svo að hún svari því hlutverki sínu að vera sannkallað heilsuhæli.

Árni Ásbjarnarson.

Heilsuvernd 3. tbl. 1961,
bls. 94-95

Related posts

Nýr pistlahöfundur

Gleðilegt nýtt ár

Ályktanir 39. landsþings Náttúrulækningafélags Íslands