Aðsókn að hælinu fór enn vaxandi á árinu 1961, og sóttu það fleiri dvalargestir en nokkru sinni fyrr. Yfirgnæfandi meiri hluti þessa fólks var sjúklingar á vegum sjúkrasamlaga, hvaðanæva af landinu. Þá dvelur árlega í hælinu nokkur hópur sjúklinga, sem eru haldnir langvinnum sjúkdómum og eru á ríkisframfæri, og í þriðja lagi eru gestir, sem dvelja þar sér til hvíldar og hressingar um lengri eða skemmri tíma, án þess að um sjúkdóma sé að ræða.
Sú tilhögun var yfir sumarmánuðina 1961, frá 15. júní til 15. ágúst, að fyrir gigtarsjúklinga sem dvöldu þar eftir tilvísun læknis, greiddu sjúkrasamlög böð og aðra meðferð, en fæði og húsnæði greiddu sjúklingarnir sjálfir. Þessi tilhögun gildir einnig fyrir sama tímabil á þessu sumri.
Kostnaður við dvöl í hælinu er nú 180 kr. yfir sólarhringinn. Af því mega sjúkrasamlög greiða 135 kr., samkvæmt heimild tryggingarráðs, og þurfa þá sjúklingar að greiða 45 kr. á dag.
Ýmsar framkvæmdir og umbætur eru fyrirhugaðar, þegar fjárhagsgeta leyfir, og nú í sumar er ákveðið að byggja aðra sundlaug við hlið þeirrar, sem fyrir er. Verður hún minni, og er ætlunin að hafa hana með heitara vatni, vegna þeirra, sem gigtveikir eru og geta ekki synt. Verður þá hin laugin betri fyrir þá, sem ekki þola mikinn hita. Hvort meira verður byggt á þessu sumri, er óákveðið ennþá.
Heilsuvernd 3. tbl. 1962,