Nýlega veitti Umhverfisstofnun, ORF Líftækni hf. leyfi fyrir útiræktun á erfðabreyttum byggplöntum í landi Landgræðslunnar í Gunnarsholti, Rangárþingi ytra.
Náttúrulækningafélag Íslands hefur lengi barist fyrir náttúru- og umhverfisvernd og þar með gegn ræktun erfðabreyttra planta, sérstakleg útiræktunar.
Á síðasta landsþingi NLFÍ var eftirfarandi ályktun samþykkt: „Landsþing NLFÍ hvetur stjórnvöld til að móta stefnu um eflingu lífrænnar framleiðslu á Íslandi og að styðja við við lífræna aðlögun í landbúnaði. Þeim vísindalegu rannsóknum fjölgar sem sýna fram á að lífrænar aðferðir auka langtíma hagkvæmni í framleiðslu og hafa jákvæð áhrif á lífríki og umhverfi. Landsþing bendir á að tryggja þarf að ákvæðum reglugerðar um merkingar á matvælum sem framleidd eru úr erfðabreyttum lífverum og afurðum þeirra sé framfylgt. Tryggja þarf að upprunamerkingar matvæla séu réttar og greinilegar.“
NLFÍ sendi athugasemdir við þessa leyfisveitingi í samstarfi við Matvæla- og veitingafélag Íslands (MATVÍS), Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands (NSVE) og vottunarstofuna Tún. Þessar athugasemdir má lesa hér.
Tilraunaræktun á erfðabreyttu byggi utandyra hefur staðið yfir í Gunnarsholti með hléum frá því árið 2003 og hefur NLFÍ ávallt barist gegn þessari ræktun
Það eru ýmsar ástæður fyrir því NLFÍ gerir athugasemdir við þessa útiræktun:
- Umhverfisáhætta
Ræktunin fer fram utandyra í íslenskri náttúru og ekki er vitað með vissu um áhrif erfðabreyttu plantanna á annan gróður, grunnvatn eða dýralíf. Vegna þess hversu Ísland er strjábýlt og hve veður eru oft válind má telja meiri líkur en minni að útiræktun á afmörkuðu svæði í náttúrunni sé nær ómöguleg. Einnig er stærð ræktunarsvæðisins sem um ræðir með ólíkidnum, eða allt að 5 hektarar. Það eykur auðvitað umhverfisáhættu að leyfa svona stórt svæði til ræktunar. - Möguleg víxlblöndun við aðrar plöntur
Þó að líkurnar séu ekki miklar þá er ekki útilokað að víxlfróvgun við aðrar skyldar tegundar eins og t.d. melgresi geti átt sér stað. - Ímynd Íslands sem hreint land
Ísland er land án erfðabreytta lífvera og útiræktun á erfðabreyttum plöntum ekki stunduð. Þetta er mikilvægt fyrir ímynd landsins sem hreins og náttúrulegs. Árið 2012 kom fram þingsályktunartillaga um bann við útiræktun á erfðabreyttum lífverum sem náði ekki eyrum alþingismanna. Þá var Guðmundur Ingi Guðbrandsson núverandi umhverfisráðherra framkvæmdastjóri Landverndar sem studdi þessa tillögu. Það væri því tilvalið að hæstvirtur umhverfisráðherra dustaði rykið af þessari þingsályktunartillögu og tæki málið upp aftur Hreinleiki og ímynd lands okkar er í húfi. - Frumuræktað kjöt (cell cultured meat) – Ónáttúruleg matvælaframleiðsla!
Samkvæmt umsókn ORF þá segir: „Niðurstöður fyrirhugaðrar ræktunar í Gunnarsholti verða bornar saman við ræktanir í Kanada sem og í gróðurhúsi ORF. Ef ræktunin skilar góðum niðurstöðum hefur ORF í hyggju að gera fleiri tilraunaræktanir á stærri skala með ræktanir til framleiðslu að markmiði innan fárra ára. Framleiðslan mun snúa að sameindaræktun á frumuvökum og öðrum próteinum sem eru mikilvæg fyrir frumuræktað kjöt (cell cultured meat; CCM) sem er ört vaxandi svið“.
Lokamarkmið ORF er sem sagt að búa til frumuræktað kjöt!? Þó að við Vesturlandabúar séum sólgin í kjöt og það sé valda miklum umhverfisáhrifum þá væri nú mun sniðugri kostur að hvetja Vesturlandabúa og aðra jarðarbúa að snúa sér frekar að meira grænkerafæði en að finna „ónáttúrulegar“ leiðir til að svala kjötþörfinni. - Stærra ræktunarsvæði og allsherjar útiræktun erfðabreyttra plantna hlýtur að vera lokamarkmiðið
ORF er fyrirtæki sem hefur eins og flest fyrirtæki m.a. að markmiði að eflast, vaxa og auka hagnað eigenda. Það segir sig því sjálft að með tilraunaræktun á erfðabreyttum plöntum utandyra er verið að stefna að því í framtíðinni að rækta þetta í stærri stíl til framleiðslu og sölu. Það er vonandi að íslensk stjórnvöld haldi vel á spilnum fyrir íslenska náttúru áður en kemur að því að leyfa framleiðslu og sölu erfðabreyttra plantna utandyra á Íslandi.
Erfðatæknin hefur fært okkur ýmislegt nytsamlegt en það þarf að stíga mjög varlega til jarðar þegar verið er að nota erfðatæknina utan rannsóknastofa og góðurhúsa. Náttúran á alltaf að fá að njóta vafans.
Það er mat NLFÍ að það sé verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni í þessum tilraunum. Eins og svo oft áður þegar kemur að náttúru okkar og móðir Jörð þarf hún að láta í minni pokann fyrir peningaöflum og græðgi mannsins.
Heimildir:
https://nlfi.is/wp-content/uploads/2019/11/2019-%C3%A1lyktanir_LOKASKJAL.docx.pdf
https://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/umhverfisraduneyti/nr/22199
https://www.althingi.is/altext/pdf/141/s/0196.pdf
https://eldri.landvernd.is/sidur/vid-eigum-rett-a-ad-vita-hvers-vid-neytum