Það er gamall siður og góður að þakka fyrir sig, og góða siði skulum við hafa þótt gamlir séu. Ég hefi nú gist hér væna vist á sjöttu viku og get ekki látið hjá líða að flytja þakkir. Það sem ég segi hér á eftir er tengt þessu stóra og góða heimili, og þó einkum Jónasi lækni Kristjánssyni sem ég tel að hafi verið mesta stórmenni á sviði heilbrigðismála hér á landi á þessari öld og þótt lengra sé leitað. Hann var brautryðjandi, og leið brautryðjandans er torsótt og grýtt, útheimtir þrek og þol, og þó umfram allt trú á það að leiðin sé fær. Alla þessa eiginleika átti Jónas læknir í ríkum mæli.
Jónas Kristjánsson var héraðslæknir á Sauðárkróki frá 1911 til 1938, að hann fluttist til Reykjavíkur nær sjötugur að aldri. Var hann læknir minn frá því ég var á barnsaldri meðan hann var í Skagafirði.
Fyrsta minning mín um Jónas lækni er mjög glögg. Það var að áliðnum vetri 1914, og var ég þá 9 ára. Læknirinn hafði gert boð í sveitina og látið kalla saman nokkur börn á heimili mitt til þess að skoða þau og skera úr hálsi og nefkoki ef þurfa þætti. Snjór var á jörð, og leiðin sem læknirinn þurfti að fara var 50 kílómetrar og því tíu tíma ferð báðar leiðir, og þá var hesturinn eina farartækið, og harðræði voru oft í vetrarferðum.
En Jónas læknir var gjörhugull og ráðsnjall og kunni að búa sig í vetrarferðum. Hann var í þykkum ullarsokkum sem náðu upp á mitt læri og með vettlinga fóðraða með lambsskinni sem náðu upp að olnboga. Þá lét hann búa til hvílupoka úr mórauðum gæruskinnum, þann fyrsta sem ég heyrði talað um, hafði hann stundum með sér á ferðalögum og sagði að í þessu húðfati væri hægt að liggja úti í hvaða veðri sem væri.
Ég hafði engan ótta af lækninum og mun hafa verið fyrstur inn til hans. „Opnaðu ginið geyið mitt“, sagði hann, og svo fór hann með vísifingur inn í nefkokið. Þetta var rannsókn, og svo kom sjálf læknisaðgerðin á eftir. Við vorum látin sitja á stól með baki, og Arnljótur Kristjánsson kraup fyrir aftan stólinn og hélt utanum okkur, svo að við vorum alveg skorðuð. Teknir voru hálskirtlar úr sumum, en nefkokið hreinsað á mér. Til þess notaði læknirinn verkfæri með hring á endanum er sveigja var á. Þetta var ansi sárt meðan á því stóð, en ekki var hægt að koma því við að hljóða, enda var það betra, því að baðstofan fyrir framan hurðina var full af fólki, börnum sem átti að lækna og fullorðnu fólki. Hvað mér viðkom, vissi læknirinn hvað hann var að gera. Ég var krampaveikur, fékk krampa í svefni, en eftir þessa aðgerð kom það aldrei fyrir.
Jónas Kristjánsson var svipmikill nokkuð, örlyndur og léttlyndur. Tilsvör hans og viðbrögð ýmis voru í minnum höfð, kýmileg og nöpur, og var þar af miklu að taka. Ég ætla að nefna tvö tilsvör sem dæmi.
Á fyrstu árum Jónasar á Sauðárkróki kom til hans maður og bað um plástur sem væri góður að draga.“Á hvað, draga sleða?„ Læknirinn hafði ekki mikla trú á plástrum. Hann vildi skera í meinsemdirnar.
Öðru sinni var það, að maður sem kallaður var litli Grímur var sendur að sækja lækni handa konu í barnsnauð. Vetur var, og Grímur var með sleða og hesta fyrir og ók í spretti eftir Eylendinu sem svo var kallað. Á leiðinni frameftir fór Jónas heim á bæ að líta á sjúkling sem var mikið veikur. Þá sagði litli Grímur: „Það dugar ekkert dosk, barnið verður daut“t. Þegar þeir fóru af stað aftur hvatti Jónas hestana á stökk, en við það hrökk Grímur út af sleðanum og kallaði, en læknirinn lét hann eiga sig en kallaði aftur: „Það dugar ekkert dosk, barnið verður dautt“.
„Hvað er þetta, þú ert fimmtíu ára, þig sem hugði ég á besta skeiði“, kvað Jóhannes Örn um Jónas lækni á fimmtugsafmæli hans 1920. Á þeim tíma var talið að fimmtugir menn væru komnir yfir besta aldur. En Jónas Kristjánsson var þá á besta aldri þótt fimmtugur væri. Það var einmitt á þessum árum að hann hóf að kynna skoðanir sínar af miklum sannfæringarkrafti. Hann ræddi við fólk, hvar sem hann hitti það og flutti fyrirlestra, þar sem fólk kom saman. Hann var brennandi í andanum eins og Páll postuli og lagði áherslu á hófsemi í mat og drykk og að velja heilnæmar fæðutegundir úr jurtaríkinu, bæði til að lækna sjúkdóma og ekki síður til að fyrirbyggja þá, því að;það er of seint að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í, sagði hann. Það var hugsjón hans að fólk dæi eðlilegum dauðdaga, á þann veg að öll líffæri slitnuðu jafnt og lífið fjaraði út smátt og smátt, þjáningarlítið, eins og klukka sem gengur út.
Jónas Kristjánsson hlaut óskorað traust í héraði. Skagfirðingar vissu það vel að hann var einn af bestu skurðlæknum landsins, við hlið prófessoranna Guðmundar Hannessonar og Guðmundar Magnússonar. Frægasta skurðaðgerð Jónasar var sú, þegar hann opnaði heilabú á sigmanni í Drangey sem hafði hrunið á, og þessi maður er við bestu heilsu enn í dag.
Ekki verður annað sagt en kenningum Jónasar læknis um heilsufræði væri vel tekið í héraðinu. Fjöldi fólks vildi tileinka sér þær eftir því sem við varð komið. Það var byrjað að rækta grænmeti, og brauð var bakað úr hýðishveiti, og margir hættu að gera sætt með hvítum sykri.
Öðru máli var að gegna um stéttarbræður Jónasar Kristjánssonar. Þeir létu sér fátt um finnast, og ekki örgrannt að sumir gerðu gys að kenningunni um náttúrulækningar, og mátti segja að Jónas stæði einn í sinni stétt. En hann lét það ekki á sig fá, því að hann var alltaf sannfærður um sinn málstað.
Það er stundum sagt um prestana, að þeir vísi veginn en fari hann ekki sjálfir. Jónas læknir vísaði veginn og fór hann sjálfur. En hann dó úr krabbameini 90 ára gamall, og vel gæti ég trúað því, að ef hann hefði ekki sjálfur farið nákvæmlega eftir kenningum sínum í heilsuvernd hefði hann andast 20 árum fyrr.
Þegar við lítum til baka yfir hálfa öld verður ekki móti því mælt, að Jónas Kristjánsson;kom, sá og sigraði. Öll þjóðin viðurkennir náttúrulækningar. Um sautján hundruð manns koma í þetta heilsuhæli á ári hverju og fá meiri eða minni heilsubót, og læknar eru óbágir að vísa hingað sjúklingum.
Meiri hluti mannkyns lifir á fæðu úr jurtaríkinu eingöngu. Í norðlægum löndum eins og Íslandi, þar sem ekki vaxa aldin eða korn, eru dýrin milliliður og hold þeirra notað til matar. Ég held að Íslendingar hefðu varla getað lifað í landi sínu nema borða kjöt og fisk. En tæknilegar breytingar og framfarir valda því að nú er hægt að lifa á jurtafæði eingöngu eins og í Asíu og eins og gert er hér í hælinu.
Í Prédikara Salómons konungs stendur skrifað: "Því að örlög mannanna og örlög skepnunnar örlög þeirra eru hin sömu: eins og skepnan deyr svo deyr og maðurinn, og allt hefir sama andann, og yfirburði hefir maðurinn enga fram yfir skepnuna. Satt segir Salómon konungur. Allt hefir sama andann, en um yfirburði mannsins yfir skepnu má deila.
Til eru sértrúarflokkar sem neyta ekki fæðu úr dýraríkinu. Mér finnst það ekki út í bláinn, þó að ég aðhyllist ekki skoðanir þeirra að öðru leyti.
Í dulrænum fræðum segir, að þeir sem komnir eru nokkuð áleiðis á andlegri þroskabraut megi ekki eiga neinn hlut að því að taka skepnur af lífi eða eta hold þeirra, því að það auki dýrseðlið í manninum. Víst er dýrseðlið nóg í manninum, en ég hefi skilið það svo, að þetta eigi kannski ekki sérstaklega við mig og þig, þetta venjulega fólk, heldur hina sem komnir eru í tröppuna fyrir ofan.
Á fyrstu tugum þessarar aldar var bóndi í minni sveit, sem átti mörg börn og var fremur fátækur. Að áliðnu sumri slátraði hann lambi sem var heimagangur. Dóttir bónda, átta ára gömul, fékkst ekki til að borða kjötið og var spurð hversvegna hún léti svona. Telpan svaraði því, að hún gæti það alls ekki, því að hún hefði gefið lambinu allan tímann sem það lifði og sér hefði þótt svo vænt um það.
Ég var bóndi í nær 40 ár, og mér fannst löngum að búskapur væri skemmtilegasta atvinnugrein í heiminum. Og þó var dimmur skuggi þar yfir. Það var hið sífellda skepnudráp. Sannarlega leið mér illa á haustin þegar átti að fara að slátra. Lömbin voru öll falleg og þrungin af lífsorku. Sum áttu að lifa, en hin áttu að deyja. Ég varð að dæma. Ég átti ekki undanfæri, og þó átti ég undanfæri. Það var að hugsa ekki. Og við sem höfum etið kjöt og gerum það hér eftir, höfum það undanfæri eitt, að hugsa ekki.
Ég vík aftur að því, að hér er vistin svo góð. Það er hið hlýja og friðsæla andrúmsloft. Það er sál hússins sem hann Zóphonías Pétursson var að fræða okkur um nýlega. Andinn mótar efnið, hugsun og athöfn.
Bænin má aldrei bresta mig eða þig. Við kvöldbænir og sálmasöng hér finnst mér ég hafi orðið ungur í annað sinni. Hugljúfasta æskuminning mín er sú, þegar faðir minn las Passíusálma og Vigfúsarhugvekjur í vökulok. Það er mér ilmur frá horfinni tíð.
Trúarhugmyndir mínar eru ekki í sérlega föstu formi. Ég held að hin gamla vísa taki yfir þær með sínum einfaldleik:
Trúðu á tvennt í heimi,
tign sem hæsta ber,
Guð í alheimsgeimi,
Guð í sjálfum þér.
Heilsuvernd 2. tbl. 1975, bls. 30-34