Björn L. Jónsson veðurfræðingur fimmtugur


Björn Leví Jónsson veðurfræðingur varð fimmtugur 4. febrúar þ.á. Hann er fæddur 4. febrúar 1904 að Torfalæk í Austur-Húnavatnssýslu. Foreldrar hans voru Jón bóndi Guðmundsson og Ingibjörg Björnsdóttir, systir Guðmundar heitins landlæknis. Björn varð stúdent árið 1925. Lagði hann svo stund á veðurfræði við Sorbonne-háskólann í París og lauk þar námi 1930. Sama ár gerðist hann starfsmaður við Veðurstofuna í Reykjavík og er það enn. Varaforseti fransk-íslenzka félagsins, Alliance Francaise, hefur hann verið síðan 1933. Hann er kvæntur Halldóru Valdínu Guðmundsdóttur frá Haganesi í Fljótum, Halldórssonar.

Björn L. Jónsson, eins og hann er oftast nefndur, er einn af brautryðjendum náttúrulækningastefnunnar á Íslandi. Var það því málefni eigi lítið happ, að jafn mikilhæfur maður skyldi ljá því lið sitt. Var hann um skeið framkvæmdastjóri Náttúrulækningafélags Íslands og varaforseti þess. Við bókaútgáfu félagsins var hann mjög riðinn og í ritstjórn þessa tímarits, "Heilsuverndar„; fórst honum þar allt mjög vel úr hendi, enda er hann vel að sér um íslenzkt mál, gjörhugull og vandvirkur. Þessar bækur mun hann hafa þýtt "Sannleikurinn um hvítasykurinn„ eftir Ara Waerland, "Heilsan sigrar„ eftir sama mann, "Mataræði og heilsufar„ eftir Mac Carrison og "Lifandi fæða„ eftir Kirstine Nolfi. Auk þess mun hann eiga einhvern þátt í þýðingu fleiri bóka, er út hafa komið á vegum Náttúrulækningafélagsins. Hefur félagið alveg vafalaust unnið mikið gagn með útgáfu bóka um kenningar náttúrulækningastefnunnar, og er hlutur Björns L. Jónssonar á því sviði stór og mjög þakkarverður.

Eins og Björn L. Jónsson á kyn til, er hann greindur í bezta lagi. Hann er vel að sér um heilsufræðileg efni og allt, er náttúrulækningastefnuna varðar. Starfsmaður er hann góður og fylgir máli sínu fast fram, þegar honum þykir við þurfa. Í stuttu máli Hann er atkvæðamaður.

Áhugamenn um velferðarmál mannkynsins geta ekki vænzt þess, að þeir hitti ævinlega fyrir sér viðhlæjendur eina, hvorki í hópi samherja eða hinna, er aðrar skoðanir hafa, og ekki hefur alltaf verið "blæjalogn„ um Björn L. Jónsson. En ekki hygg ég, að hann harmi það eða mikli fyrir sér. Munu og allir sammála um það, að hann sé einn af atkvæðamestu brautryðjendum náttúrulækningastefnunnar á landi hér, og á þeim lárberjum er honum gott að hvíla, nú, er hann hverfur að öðrum störfum um stund.

Þar er nú komið þróunarsögu náttúrulækningastefnunnar á Íslandi, að jafnvel hugsunarleysingjarnir eru hættir að hlæja. Það er mikils vert stig fyrir hvert gott málefni. Næsta stigið er það, að menn taki að viðurkenna, að margar af kenningum stefnunnar séu athyglisverðar og jafnvel viturlegar, ˆ að minnsta kosti þess verðar, að þær séu prófaðar. Björn L. Jónsson á sinn mikla og góða þátt í þessu breytta viðhorfi til stefnunnar, ásamt hinum unga öldungi og mannvini, Jónasi lækni Kristjánssyni. Fleiri góðir menn hafa þar vitanlega að unnið, en í sögu náttúrulækningastefnunnar á Íslandi eru þessir tveir menn það tvístirni, er einna skærast hefur skinið á vegum heilsuverndar og nýrra og betri lífshátta. Bar Björn gæfu til að standa við hlið þessa siðbótamanns íslenzkra heilbrigðismála og aðstoða hann vel og drengilega á fyrstu árum byrjunarerfiðleikanna.

Um leið og ég þakka Birni L. Jónssyni fyrir brautryðjandastarf hans, vil ég einnig færa honum þakkir fyrir þau persónulegu kynni, sem ég hef af honum haft, og árna honum heilla í lífi og starfi.

Gretar Fells.

Related posts

Nýr pistlahöfundur

Gleðilegt nýtt ár

Ályktanir 39. landsþings Náttúrulækningafélags Íslands