Svissneski læknirinn Max Bircher-Benner var einn kunnasti náttúrulæknir í Evrópu á fyrri hluta 20. aldar.
Fyrstu ár sín sem læknir beitti hann venjulegum og viðurkenndum lækningaaðferðum og lyfjum, eins og aðrir starfsbræður hans. En brátt kenndi reynslan honum, að með breyttum lifnaðarháttum og hættulausum, náttúrlegum ráðum mátti oft ná árangri, þar sem lyf og aðrar aðferðir læknisfræðinnar dugðu ekki.
Hann tók að kynna sér áhrif matvæla á heilsuna, bæði á heilbrigða og sjúka, og hann sannfærðist fljótlega um, að röng næring og rangir lifnaðarhættir væru meginorsök vanheilsu og sjúkdóma, og að flesta sjúkdóma mætti fyrirbyggja og lækna með réttum lífsvenjum og ýmsum náttúrlegum og skaðlausum ráðum. En þetta er einmitt höfuðinntak náttúrulækningastefnunnar.
Hann hóf útgáfu tímaritsins Der Wendepunkt (Tímamót) árið 1924, eða um líkt leyti og skoðanabróðir hans Jónas læknir Kristjánsson byrjaði að kynna þessa stefnu hér á landi. Og líkt og Jónas var Bircher-Benner brautryðjandi þessarar stefnu í heimalandi sínu og þar langt á undan sinni samtíð, og einnig á undan Jónasi. Og áhrif hans náðu langt út fyrir Sviss, því að margir læknar í ýmsum löndum Evrópu gengu þessari stefnu á hönd í starfi sínu. Hinn kunnasti þeirra mun vera Alfred Brauchle, sem var gerður prófessor í náttúrulækningum við háskólann í Berlín og síðar yfirlæknir við stóra deild fyrir náttúrulækningar við hið mikla sjúkrahús í Dresden.
Bircher-Benner mætti mikilli andstöðu stéttarbræðra sinna í Sviss, en hann lét það ekki á sig fá. Á efri árum var honum boðið til fyrirlestrahalds, m.a. til Berlínar og London. Í Zürich stofnaði hann heilsuhæli árið 1904, og er því nú stjórnað af börnum hans og tengdabörnum og starfrækt á þeim grundvelli, sem hann lagði í upphafi.
Bircher-Benner andaðist árið 1939. Árið áður hafði Jónas Kristjánsson heimsótt hann. Jónas skrifaði grein um Bircher-Benner í Heilsuvernd 2. hefti 1949, og rekur þar kenningar hans um orsakir sjúkdóma og ráð við þeim:
1. Ónáttúrleg og dauð fæða og eiturnautnir eru höfuðorsakir sjúkdóma, bæði hrörnunarsjúkdóma og næmra sjúkdóma. Sem dæmi má nefna hvítt hveiti, hvítan sykur, sterkt krydd, áfengi, tóbak, kaffi, ofneyzlu á kjöti, fiski og eggjum og á eggjahvítu yfirleitt.
2. Endurskipun matar- og lifnaðarhátta eru mikilvægustu framtíðarverkefni læknisfræðinnar.
3. Sjúkdómavarnir verða fyrst og síðast að grundvallast á réttri næringu og heilbrigðum lífsvenjum.
Bircher-Benner skipar matvælum í flokka eftir næringargildi. En hann miðar ekki við hitaeiningamagn eða steinefnamagn, heldur það sem hann kallar lífgildi, sem að vísu er nokkuð óljóst hugtak og ekki hægt að sýna fram á með mælingum. En ósoðna, lifandi jurtafæðu “; ávexti, grænmeti, rótarávexti “; telur hann heilnæmustu fæðuna. Soðin jurtafæða hefir glatað sumum beztu eiginleikum sínum. Og þegar jurtafæðan gengur gegnum líkama dýra til framleiðslu á mjólk og kjöti, glatar hún einnig sumum helztu næringarverðmætum sínum, þannig að slík matvæli komast ekki til jafns við ferska jurtafæðu, sem hann telur hlaðna sólarorku.
Bircher-Benner var fæddur 22. ágúst 1867, og var því rúmum þremur árum eldri en Jónas Kristjánsson.
Það vill svo til, að um þessar mundir vinnur í Heilsuhæli NLFÍ í Hveragerði þýzk nuddkona, sem starfaði heilt ár, eða þar til í júlí 1967, í Bircher-Benner-hælinu í Zürich. Hún skýrir svo frá, að í hælinu séu um 70 rúm, fullsetin árið um kring. Meiri hluti sjúklinganna eru erlendir, frá flestum löndum heims og af mörgum kynflokkum. Það er ekki fátæklingum hent að dvelja þar, því að lægsta gjald fyrir húsnæði, fæði og nudd- eða baðmeðferð tvisvar á dag nemur sem svarar 650 íslenzkum krónum. Þar við bætist gjald fyrir læknisskoðun, rannsóknir, lyf o.fl., þannig að allur kostnaður fer upp í 1000 til 1300 krónur á dag, og yfirleitt munu sjúkrasamlög ekki taka þátt í greiðslum.
Fæðið er hreint mjólkur- og jurtafæði, en kaffi og venjulegt te aldrei á borðum. Máltíðir eru aðeins þrjár, morgunverður kl. 8, hádegisverður kl. 12 og kvöldverður kl. 18,30. Enginn síðdegisdrykkur. Sjúklingar hafa yfirleitt fótavist, og meðferðin er fólgin í allskonar nuddi, sjúkraleikfimi og æfingum, böðum og föstum. Hælið hefir eigin matjurtagarð, þar sem eingöngu er notaður náttúrlegur áburður. Húsakynni eru að ýmsu leyti gamaldags, en fyrirhugaðar eru breytingar og endurbætur á innréttingum. Í hælinu er sérstakur reykingasalur, en annars eru reykingar bannaðar.
Margir koma í hælið til þess að megra sig, aðrir til hvíldar og hressingar eða til rannsóknar. Hér er ekki um venjulegt sjúkrahús að ræða, og ekki heldur gigtlækningahæli, heldur almennt hressingar- og hvíldarhæli. Margir dvalargestir koma aftur og aftur, sumir jafnvel oft á ári, ekki sízt fólk, sem þarfnast aðstoðar til að halda vigt sinni í skefjum.
Forstjóri hælisins er dóttir Bircher-Benners, frú Kunz, en eiginmaður hennar er yfirmaður rannsóknarstofunnar, efnafræðingur að menntun. Yfirlæknir er einnig kona, nákominn ættingi Bircher-Benners, frú Liechti von Brasch að nafni.
Björn L. Jónsson
Heilsuvernd 6. tbl. 1967, bls. 172-174