Ávarp flutt í útvarp á merkjasöludegi NLFÍ 20. september 1952

Góðir áheyrendur!

Í dag, 20. september, er hinn árlegi merkjasöludagur Náttúrulækningafélags Íslands. Eru merkin seld til ágóða fyrir heilsuhælissjóð félagsins, og fer sala þeirra fram bæði í Reykjavík og víða úti um land.

Nú mun ýmsum ekki þykja það mikil tíðindi né girnileg, að heyra sagt frá merkjasölu, og er mönnum það vorkunn. Svo mjög tíðkast þær hin síðari ár. Oftast mun þó með réttu mega segja, að hér helgi tilgangurinn meðalið. Og svo er því farið með merkjasöluna í dag.

Náttúrulækningafélag Íslands er alþjóð kunnugt fyrir mikið og gagnmerkt menningarstarf. Það var stofnað árið 1939. Félagar þess eru nú 17-18 hundruð að tölu, og starfar það í 10 deildum víðsvegar um landið. Félagið hefir haft með höndum víðtæka starfsemi. Það hefir gefið út 11 bækur um mataræði og heilbrigðismál og síðustu 7 árin tímarit, 4 hefti á ári. Eitt aðalstefnumál félagsins er að koma á fót heilsuhæli, og hefir jörðin Gröf í Hrunamannahreppi verið keypt í þeim tilgangi, en þar er jarðhiti mikill og skilyrði ákjósanleg. Hyggst félagið að hefjast handa á næstunni og hefir þegar fengið fjárfestingarleyfi til framkvæmda. Hressingarheimili hefir félagið rekið undanfarin 2 sumur, s.l. sumar í húsmæðraskólanum að Varmalandi í Borgarfirði, og dvöldust þar rúmlega 200 manns um lengri eða skemmri tíma. Hér er því kominn vísir að heilsuhæli. Reynslan er ágæt eins og aðsókn sýnir, og mikil þörf fyrir slíka stofnun hér á landi. Er þess að vænta, að félaginu auðnist með tilstyrk góðra manna að hrinda þessu hugsjónamáli sínu í framkvæmd og heilsuhælið rísi sem fyrst af grunni.

Brautryðjandi náttúrulækningastefnunnar hér er Jónas Kristjánsson læknir, og hefir hann verið forseti Náttúrulækningafélags Íslands frá stofnun þess. Jónas læknir hefir kynnt sér þessa mikilsverðu, eða ef til vill mikilsverðustu hlið læknavísindanna, betur en nokkur annar íslenzkur læknir og farið víða um lönd til að afla sér nýrrar og nýrrar reynslu og þekkingar í þeim efnum. Starf hans að þessum málum mun sagan geyma og meta. Jónas Kristjánsson á afmæli í dag. Ég flyt honum beztu afmæliskveðjur og veit, að ég mæli þá fyrir munn margra. En betri afmælisgjöf getum vér ekki gefið honum í dag en þá að kaupa merki Náttúrulækningafélags Íslands. Sú gjöf er þó fyrst og fremst gefin íslenzku þjóðinni, því að fyrir hana, heilbrigði hennar og hreysti, hamingju og manndóm, er Náttúrulækningafélag Íslands að vinna.

Reykvíkingar! — Íslendingar! Leggið góðu máli lið. Eflið heilsuhælissjóð Náttúrulækningafélagsins. — Kaupið í dag merki félagsins!

Related posts

Nýr pistlahöfundur

Gleðilegt nýtt ár

Ályktanir 39. landsþings Náttúrulækningafélags Íslands