Aldarfjórðungsstarf

Að liðnum aldarfjórðungs starfsferli Náttúrulækningafélags Íslands (NLFÍ) þykir rétt, að skyggnst sé um öxl og í stuttu máli rakinn þráðurinn á starfsferli félagsskaparins, sem og að litið sé til árangursins, sem orðinn er af starfinu.

Náttúrulækningafélag Íslands var stofnað í Reykjavík 24. janúar 1939 og því jafnframt sett lög. Forgönguna að stofnun þess hafði Jónas læknir Kristjánsson. Stofnendurnir voru aðeins 30 talsins, en félagsmönnum fjölgaði brátt. Eftir nokkur ár voru félagsmenn orðnir mikið á annað þúsund.

Forseti félagsins var að sjálfsögðu kosinn Jónas læknir, sem forgönguna hafði haft um stofnun félagsins og kynnt hafði náttúrulækningastefnuna lengi undanfarið, bæði í ræðu og riti.

Í stjórn félagsins með Jónasi voru kosnir Hjörtur Hansson stórkaupmaður, Sigurjón Pétursson verksmiðjustjóri, Sigurður Á. Björnsson fulltrúi og Axel Meinholt kaupmaður. Framkvæmdastjóri varð síðar Björn L. Jónsson veðurfræðingur.

Á aðalfundum félagsins síðar var Jónas endurkosinn forseti félagsins og síðan forseti bandalags náttúrulækningafélaganna allt til æviloka.

Starfsáætlun og markmið félagsins laut eingöngu að heilbrigðismálum þjóðarinnar og var tvíþætt. Annar þátturinn laut að því að leiðbeina og hvetja til heilsusamlegra lifnaðarhátta og vara við því, sem miðar að því að spilla heilsufari einstaklinga og þjóðar. Hinn þátturinn laut að því að lækna þau áföll og mein, sem menn bíða á heilsunni vegna rangra lifnaðarhátta ˆ lækna þau á "náttúrlegan„ hátt með því að afleggja þær lífsvenjur, sem meinunum höfðu valdið. Í styttra máli var tilgangur og takmark félagsins annars vegar heilsuvernd hinsvegar heilsubót ˆ lækning áfallinna meina.

Það sem einkum var varað við í matarhæfi og lifnaðarháttum, var iðnmatvæli ýms og gervimatvæli, sneydd fjörefnum, málmsöltum og grófefnum; nautnavörur og drykkir; mengað lífsloft; hóglífi og munaðarlífi. Allt er þetta nánar skýrt í útgáfuritum félagsins og tímariti þess.

Þegar eftir stofnun félagsins hóf það sitt tvíþætta starf. Jónas læknir Kristjánsson kom á fót lækningastofu í húsi sínu, sem veitti mörgum heilsubót, sem ekki var annars staðar að fá. Og brátt (1944) kom félagið upp matstofu í Reykjavík, þar sem framreiddur var eingöngu heilsuverndar-matur.

Samhliða þessu hóf félagið útgáfu fræðslurita um Náttúrulækningastefnuna. Fyrsta ritið kom út 1941 og svo hvert af öðru, þar til er þau voru orðin 11 alls. Mest þeirra og merkast var "Nýjar leiðir„, ritgerðir og fyrirlestrar eftir Jónas Kristjánsson, sem vakið höfðu áhuga á Náttúrulækningastefnunni.

Síðan 1946 hefir félagið gefið út tímaritið Heilsuvernd ársfjórðungsrit í upphafi, en síðustu tvö árin hefir það komið út á tveggja mánaða fresti. Ritstjórar þess hafa verið læknarnir Jónas Kristjánsson, Úlfur Ragnarsson og Björn L. Jónsson.

Brátt eftir stofnun félagsins tók út um land að vakna áhugi á hinni nýju heilbrigðismálastefnu, sem það boðaði. Félög voru stofnuð í nokkrum kaupstöðum. Að frumkvæði félagsins í Reykjavík sendu félögin á Akureyri, Siglufirði, Sauðárkróki og Ísafirði fulltrúa til sameiginlegs fundar við félagið í Reykjavík 28. september 1949. Mættir voru 24 fulltrúar allra félaganna fimm. Á þeim fundi stofnuðu þau bandalag sín á milli. Fékk það nafn Reykjavíkurfélagsins Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ), en bandalagsdeildin í Reykjavík kenndi sig þá við bæinn (NLFR).

Bandalagið setti sér þegar stjórn og starfsreglur. Forseti þess var valinn Jónas Kristjánsson. Meðstjórnendur voru kosnir Björn L. Jónsson (varaforseti), Hjörtur Hansson, Marteinn Skaftfells og Steindór Björnsson. Nánari frásögn af stofnun bandalagsins er að finna í 3. og 4. h. Heilsuverndar 1949. Eftir stofnun bandalagsins voru stofnuð félög á Ólafsfirði, Blönduósi, Stykkishólmi, Akranesi, Hafnarfirði, Keflavík og Vestmannaeyjum og ennfremur í Fljótsdalshreppi. Gengu þau flest í bandalagið.

Það var tilgangur og ætlan bandalagsins að efna til víðtækari heilsuhjálpar en Jónas Kristjánsson gat veitt á lækningastofu sinni. Fyrsta framkvæmdin í því efni varð það, að sumarmánuðina fjóra 1951 rak félagið hressingarheimili í húsi Kvennaskóla Árnýar Filippusdóttur í Hveragerði. Næsta sumar rak það sams konar hæli í húsi Kvennaskólans á Varmalandi í Borgarfirði og enn þriðja sumarið aftur í sömu húsakynnum og áður í Hveragerði. Þessi sumarhæli voru vel sótt og vinsæl. Töldu margir, sem þau sóttu, sig fá mikla heilsubót.

Þetta var aðeins bráðabirgðalausn. Takmarkið var heilsuhæli, sem starfaði allt árið. Það sem á stóð, var fé til framkvæmda. Stofnfjárins þurfti að afla.

Þess er vert að geta hér, að fyrsti vísirinn til fjáröflunar var sá, að áhugakonan Guðrún Erlendsdóttir, Grettisgötu 57B, gaf árið 1940 100 krónur til stofnsjóðs heilsuhælisbyggingar. Tóku þá brátt að berast gjafir frá fleirum einstaklingum. Þremur árum síðar (1943) kaus félagið sjö manna fjáröflunarnefnd, og enn ári síðar var á aðalfundi félagsins samin og sett skipulagsskrá fyrir stofnsjóð heilsuhælis og honum sett sérstök stjórn. Segir nánar frá þessu og fjársöfnuninni í 1. h. Heilsuverndar 1949.

Árið 1946 hafði Heilsuhælissjóði safnazt svo fé, að ráðizt var í að kaupa jörðina Gröf í Hrunamannahreppi, með það fyrir augum að reisa þar heilsuhæli, þegar fjárráð leyfðu. Á jörðinni var nægur jarðhiti. Til bráðabirgða var jörðin leigð til ábúðar. Liðu svo árin næstu.

Árið 1953 var ákveðið að hefjast handa um byggingu heilsuhælis. Horfið var frá að byggja það í Gröf, jörðin var seld og aðrar eignir þar, en landspilda fengin í Hveragerði báðumegin Varmár og hælisbyggingin hafin þar.

Björn L. Jónsson, sem verið hafði framkvæmdastjóri félagsins frá upphafi, hvarf nú að læknisfræðinámi og lét því af framkvæmdastjórn. Framkvæmdastjóri í hans stað var ráðinn Sigurjón Danivalsson, mikill áhugamaður um viðgang félagsmála.

Ákveðið var að byggja hælið í því formi, að auðvelt væri að auka byggingar, þegar fram liði tími og fjárgeta ykist. Um mitt ár 1955 var komið upp heilsuhæli fyrir allt að 40 manns. Tók Heilsuhæli Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði þá þegar til starfa. Læknir Hælisins var að sjálfsögðu Jónas Kristjánsson, en ráðsmaður þess og framkvæmdastjóri Sigurjón Danivalsson. Umsóknir um hælisvist voru fleiri en hægt var að sinna.

Eftir aðeins 16 ár frá stofnun NLFÍ í Reykjavík, hafði félagið þannig náð þeim árangri í starfi sínu, að hafa byggt heilsuhæli, sem starfar að heilbrigðismálum á sama grundvelli sem Náttúrulækningahæli í öðrum löndum. Eftir það verða aðalstörf félagsins tengd hælinu og rekstri þess.

Á öðru ári hælisrekstursins var hafin bygging baðdeildar og Úlfur Ragnarsson ráðinn læknir ásamt Jónasi til þess sérstaklega að sjá um rekstur hennar. Sigldi hann sama ár til að kynna sér rekstur slíkra deilda í öðrum löndum. Í nóvember 1957 var baðdeildin fullgerð og tók til starfa.

Sumarið 1958, 15. ágúst, lézt framkvæmdastjóri Hælisins, Sigurjón Danivalsson. Framkvæmdastjóri í hans stað var ráðinn Árni Ásbjarnarson, bóndi í Kaupangi í Eyjafirði.

Fyrri hluta árs 1960, 13. apríl, lézt frumherji Náttúrulækningastefnunnar, Jónas Kristjánsson, nær níræður að aldri. Við fráfall hans var fallinn í val einn úr hópi þeirra sona Íslands, sem "ævinnar magn fyrir móðurlands gagn hefur mestum af trúnaði þreytt„.

Sama ár um haustið lét Úlfur læknir Ragnarsson af störfum fyrir Hælið. Í stað hans var ráðinn læknir Hælisins Högni Björnsson, er verið hafði héraðslæknir á Jótlandi.

Frá því í nóvember 1957 hefur Heilbrigðisstjórnin viðurkennt Hælið sem gigtlækningahæli. Frá sama tíma hafa sjúkrasamlög greitt með gigtarsjúklingum í allt að 6 vikur á ári. Læknir Hælisins með tilliti til gigtlækninga er Karl Jónsson.

Brátt eftir að Hælið tók til starfa urðu umsóknir um hælisvist á sumum tímum árs meiri en hægt var að sinna. Var þá hafizt handa um viðbótarbyggingar. Getur Hælið nú tekið á móti allt að 90 vistmönnum. Innbyggðar eru: baðstofa (finnsk), smíðastofa (föndur) og bókhlaða. Tvær sundlaugar, misheitar, eru byggðar milli húsálma. Til bygginganna hafa verið lagðar 550 þúsund krónur úr Ríkissjóði. Aðrar byggingar eru þvottahús, starfsmannahús (og annað í smíðum) og gróðurhús.

Sérstakar læknisaðgerðir eru leirböð, vatnsböð, loftböð, nuddaðgerðir, ljósböð margs konar, sundæfingar og aðrar líkamsæfingar.

Grænmetis- og garðrækt fullnægir þörfum Hælisins.

Sýnilegur árangur af starfi Náttúrulækningastefnunnar er Heilsuhælið eins og það stendur og starfar. Hitt blasir ekki við augum, né verður með tölum talið, hvað mörgum mönnum starfsemin hefur fært heilsubót né hversu margir þeir eru orðnir meðal þjóðarinnar, sem fyrir starfsemi Náttúrulækningafélaganna hafa fengið skilning á því, að matvæli, gersneydd vítamínum, málmsöltum og grófefnum eru völd að mörgum þeim sjúkdómum og meinum, sem þjá allar svokallaðar menningarþjóðir.

Náttúrulækningastefnan er ekki í andstöðu við þá heilsufræði og næringarfræði, sem kennd er. En hún eykur því við, að ofneyzla vítamín-, málmsalta- og grófefna-sneyddra sé brot gegn því lögmáli, sem forsjón lífsins hefur sett um skilyrði fyrir líkamlegri heilbrigði. Einnig telur hún, að þau áföll og mein, sem slík lögmálsbrot hafa valdið, sé eðlilegast að bæta með því að taka fyrir þau.

Stjórn Náttúrulækningafélags Íslands skipa nú: Forseti frú Arnheiður Jónsdóttir, varaforseti Pétur Gunnarsson tilraunastjóri, ritari Klemens Þórleifsson kennari, frú Guðbjörg Birkis og Páll Siggeirsson kaupmaður.

Related posts

Nýr pistlahöfundur

Gleðilegt nýtt ár

Ályktanir 39. landsþings Náttúrulækningafélags Íslands