Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ) fagnaði 80 ára afmæli sínu 5.júlí s.l. með veglegri afmælishátíð á Sauðárkróki.
Afmælishátíðin tókst með miklum ágætum og léku veðurguðirnir við gesti. Fjöldi manns lét sjá sig á þessum tímamótum NLFÍ.
Geir Jón Þórisson veislustjóri og formaður afmælisnefndar setti hátíðina og flutti ávarp frá forseta NFLÍ, Gunnlaugi K. Jónssyni.
Jón Ormar Ormsson flutti mjög áhugaverðan og skemmtilegan fyrirlestur undir heitinu „Jónas Kristjánsson, læknir á heimavelli“. Jón Ormar er mjög fróður um ævi og störf Jónasar Kristjánsonar.
Söngatriði var í boði heimamanna í Skagafirði og var það fallegur einsöngur undir píanóleik.
Stór þáttur í starfi NLFÍ er það að halda upp merkjum og frumkvöðlastarfi Jónasar Kristjánssonar læknis og var sýnt myndbrot úr heimildarmynd sem í vinnslu um ævi og starf Jónasar Kristjánssonar. Að því loknu var skrifað undir samning milli kvikmyndagerðarmanna og stjórnarmeðlima NLFÍ um gerð þessarar myndar sem mun væntanlega vera frumsýnd í lok árs 2018.
Að þessum atriðum loknum fóru veislugestir út í veðurblíðuna og blómsveigur var lagður að minnisvarða um þá sem stóðu að stofnun NLFÍ árið 1937
Veislugestum var boðið upp á dýrindis súpu og holla afmælistertu sem var í boði Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði.
Hér má sjá myndir frá afmælishátíðinni.