Vorverkin við pottaplönturnar

Nú þegar styttist í vorið er gott að huga að plöntunum sem hafa notið hvíldarinnar í vetur, búum þær undir vaxtartímann sem er að ganga í garð með umpottun og snyrtingu.

Umpottun

Það er gott að fríska upp á pottaplönturnar með ferskri mold þegar daginn fer að lengja. Það þarf þó ekki að umpotta öllum plöntum á hverju ári, en stórum vaxtarfrekum plöntum borgar sig að umpotta. Stundum er nóg að skipta um ræktunarefni (mold) og nota sama pottinn aftur, en í þeim tilfellum sem planta er orðin of stór fyrir pottinn eða moldarhnausinn er orðinn margofinn stórum rótum þá borgar sig að skipta yfir í stærri pott. Stærri pottur á helst ekki vera mikið stærri en sá fyrri, aðeins 5 – 7 cm stærri.

Ef planta er búin að standa lengi í sama pottinum með sama ræktunarefninu (moldinni) þá gæti verið ráð að skipta því út. Ræktunarefnið sem samanstendur af t.d. svarðmosa (sphagnum), moltu og vikri, er lifandi efni sem brotnar niður. Við niðurbrotið tapast eiginleiki ræktunarefnisins til að halda og gefa frá sér vatn og næringu og loftrýmd ræktunarefnisins verður of lítil. Gott ráð frá garðyrkjufræðingnum er – ekki spara í moldarinnkaupum, gott ræktunarefni er lykillinn að heilbrigðri plöntu. Það verður ekki hjá því komist að fjárfesta í erlendri mold nema þið hafið verið dugleg í moltugerð og eigið dýrindis þroskaða moltu til að rækta í.

Gott úrval af góðu ræktunarefni er að finna hjá flestum garðyrkjustöðvum og í verslunum með garðyrkjuvörur.
Nokkrum tímum áður er hafist er handa er gott að vökva plöntuna, hún er þá safaspennt á meðan aðgerðum stendur og rykið verður minna.
Losið plöntuna úr pottinum, leysið úr rótarflækjum, ef einhver mold er utan á rótunum þá mun hún falla af við þessa aðgerð. Það er óhætt að klippa á of langar rætur eða rótarflækjur en athugið að ef rætur eru klipptar mikið þá þarf einnig að klippa græna hlutann – það þarf að vera jafnvægi á milli rótar og yfirvaxtar.
Setjið þunnt lag af mold í botninn á pottinum, plöntunni er komið fyrir þannig að yfirborð rótarhnaussins sé 1-2 cm undir pottabrúninni. Því næst er að koma mold niður með hliðum pottsins, hér hafið þið kannski 2 cm frá rótarhnaus að pottahlið – þetta verk er vandasamt. Notið fingurna, penna eða pinna til að þrýsta moldinni niður, það mega ekki vera nein holrúm því þá er hætta á að ræturnar þorni. Það má þó ekki þrýsta svo mikið að moldin verði of þétt, það er ágætt að slá pottinum lauslega niður til að moldin falli á réttan stað. Þunnt moldarlag má setja ofan á gamla rótarklumpinn ef þarf, en plantan á helst að standa í sömu dýpt og áður þ.e.a.s. það er ekki gott að setja mold upp á stöngul plantna.
Komið plöntunni fyrir þar sem hún varin fyrir of miklu sólarljósi fyrstu tvær vikurnar eftir umpottun, vökvið vel og leyfið moldinni að þorna áður en vökvað er aftur.

Snyrting / klipping

Ekki hræðast að klippa plöntur, þær svara yfirleitt klippingu með auknum greinavexti. Það er hægt að byrja á því að klípa af nývexti hér og þar til að sjá hvernig plantan bregst við. Það er að sjálfsögðu best að móta plöntuna á meðan hún er ung og viðhalda vaxtarforminu með reglulegri klippingu eða snyrtingu. En ef það þarf að stytta greinar eða topp þá er bara að láta vaða, sérstaklega ef rótarkerfið hefur verið skert af ráði.
Það eru þó ekki allar plöntur sem þurfa á klippingu að halda en smá snyrting eins og að fjarlægja visin blöð og stöngla gerir fallega plöntu enn fallegri.

Nokkrir punktar

  • Planta sem er of stór fyrir pottinn sinn þarf meiri vökvun en ella og hættan á þurrkskemmdum verður meiri.
  • Planta í of stórum potti ræður ekki við þann raka sem til verður við vökvun, hætta verður á súrefnisleysi við rætur og litlar svartar flugur þrífast einstaklega vel.
  • Planta í óglerjuðum leirpotti þornar fyrr en planta í glerjuðum potti eða plast potti.
  • Pottar fyrir plöntur verða að hafa gat í botninum svo umframvatn geti lekið frá.
  • Plöntur þola illa að standa tímunum saman í vatni, 20 – 30 mínútur duga.
  • Í stóra potta er gott að nota gróft ræktunarefni (grófur svarðmosi, stærri vikurkorn)

Samantekt:
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, garðyrkjufræðingur

Heimildir:
Tovah Martin. Stueplanter. Turbine 2017.
Povl Bruun-Möller. Ideer til vinduskarmen. Lademann 1983.
www.floradania.dk

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Vel heppnað kryddjurtanámskeið