Verður brennt brúnt?

Loksins kom sumar!  Eftir óralanga bið birtist gula vinkonan okkar á heiðbláum himninum og gladdi landsmenn eftir hartnær tveggja ára fjarveru.  Hún hefur sosum einstaka sinnum minnt aðeins á sig, glott til okkar í gegnum skýjabreiðu, sent stöku sólargeisla niður á milli skýhnoðra ef vel liggur á og jafnvel prýtt kvöldstundir með litríku sólarlagi af og til en annars hefur hún verið fjarverandi, upptekin annars staðar, önnum kafin við að hlýja öðrum jarðarbúum. Kannski hún telji að jarðhitinn dugi okkur hér á hjara veraldar?  Allt um það, hún er mætt og við fögnum!

Ég, eins og margir aðrir landsmenn, ákvað að eyða hvítasunnuhelginni í sveitasælunni.  Við fjölskyldan pökkuðum nauðsynjum niður í tösku, keyptum inn matvæli og brunuðum svo í sumarbústaðinn í sveitinni, full tilhlökkunar að eyða helginni saman, treysta fjölskylduböndin og hamast við að slaka á í rólegheitunum.  Þegar í bústaðinn var komið tóku á móti okkur túlípanarnir, sem settir voru niður í haust, gleiðblómstrandi og glaðbeittir, litríkir og ljómandi af hreysti í sólskininu. 

Á hvítasunnudaginn sjálfan var veðurblíðan í algleymingi og ekkert annað fyrir mig að gera en að drösla bedda út á pallinn og koma mér haganlega fyrir í sólbaði með spennandi reyfara við hönd.  Eftir tveggja ára skort á sólskini sá ég fram á tilvalið tækifæri til að bæta á D vítamín birgðir líkamans og ná mér í huggulegan húðlit í leiðinni.  Þess vegna ákvað ég að láta g-strenginn duga sem klæðnað.  Ég lagðist á magann, fann hvernig sólargeislarnir böðuðu bakhliðina og hóf lesturinn.  Hægur andvari lék um kroppinn af og til, flugur suðuðu í blómum og í fjarska heyrðist í lítilli flugvél, ilmur af blómum og nýslegnu grasi í lofti, himininn svo blár, grasið svo grænt, sólin svo gul, þetta var fullkomið.  Eftir stutta stund var ég orðin verulega niðursokkin í spennusöguna, svo mjög að mér krossbrá þegar yngri dóttir mín kom skyndilega að beddanum og sagði:  ,,Mamma, trúirðu að brennt verði brúnt?“  Ég hváði við en hún sagðist nú bara vilja bjóðast til að bera á mig sólarvörn, þetta er ákaflega hjálpsöm stúlka.  Ég afþakkaði þessa þjónustu dótturinnar og útskýrði fyrir henni að ég ætlaði nú ekki að liggja lengi þarna úti.  Þegar hún var farin ákvað ég þó að snúa framhliðinni aðeins upp í sólarátt.  Þá lenti ég hins vegar í vandræðum með bókina, það er mjög erfitt að lesa á móti sól auk þess sem bókin skyggði á andlitið og dró þar með úr brúnkumöguleikunum.  Ég skellti mér því bara aftur á magann og hélt áfram lestrinum.  Örfáum köflum síðar átti eiginmaðurinn leið hjá.  Hann leit örsnöggt yfir sviðið og bauðst einnig til að bera sólarvörn á helstu svæði en enn afþakkaði ég kostaboðin og einbeitti mér að því að lesa söguhetjuna úr þeim hrikalegu hremmingum sem hún var nú komin í. 

Eftir að mér fannst mjög stutta stund lauk bókinni á besta hátt, söguhetjan leysti gátuna og skúrkarnir fengu makleg málagjöld en ég skellti mér í föt og bauð fjölskyldunni upp á sundferð og ís.  Í kvennaklefanum í sundlauginni snaraði ég mér úr stuttbuxunum og bjóst til að arka í sturtuna þegar dætur mínar ráku upp hláturrokur og bentu mér á að líta á afturendann í spegli.  Við blasti logandi rauður afturhluti fyrir neðan hráhvítt far eftir g-streng.  Ég fann þó ekki fyrir neinum óþægindum fyrr en ég stóð undir sturtuvatninu og fann hitann blossa upp.  Á þessum tímapunkti hugsaði ég um það hvað dætur mínar væru skynsamar að nota sólarvörn og að auðvitað hefði ég átt að þiggja þessi ítrekuð boð fjölskyldunnar um áburðarþjónustu.  Það er gott að vera vitur eftir á.

Nú nokkru síðar er brennt orðið brúnt en bataferlið hefur alls ekki verið þrautalaust.  Það var til dæmis hreinasta kvöl og pína að sitja í bíl í rúman klukkutíma á heimleið á mánudeginum, um tíma hélt ég meira að segja að ég hefði óvart kveikt á sætishitanum.  Framleiðendur sólbrunakrema hafa aukið hagnað sinn á öðrum ársfjórðungi verulega eftir að ég lét greipar sópa um nærliggjandi verslanir og nú hefur heil fjölskylda sólarvarnarbrúsa í mismunandi styrkleikum sest að á baðherberginu heima hjá mér.  Sá lærdómur sem ég hef þó tekið með mér eftir þessa reynslu er fyrst og fremst sá að maður á alls ekki að lesa spennandi skáldsögur í sólbaði.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur, áður brennd, nú brún.

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Að vökva lífsblómið