Veiða og sleppa

Í ljósaskiptunum á fullkomnu ágústkvöldi sátum við fjölskyldan við útikamínuna og nutum þess að ylja okkur við eldinn, grilluðum sykurpúða og spjölluðum um lífið og tilveruna. Veðrið var upp á sitt besta, fullkomin stilla, fáninn lafði niður með fánastönginni, fossniður heyrðist í fjarska, fullt tungl að gægjast upp fyrir fjallstoppa í fjarska og snarkið í eldinum eitthvað svo hlýlegt, á svona kvöldi talar maður jafnvel í hálfum hljóðum til að yfirgnæfa ekki stemninguna. Þá heyrðist skothvellur og í kjölfarið fylgdu nokkrir fast á eftir. Gæsaveiðitímabilið að hefjast.

Yngsta systir mín er án efa sú okkar systra sem er einna blíðust og best, hún er góðmennskan uppmáluð, alltaf boðin og búin að hjálpa vinum og vandamönnum þurfi þeir á aðstoð að halda.  Hún má ekkert aumt sjá og væri til dæmis alveg vís með að spelka fótbrot á húsflugum. Hún er sannur vinur vina sinna, brosmild og kát og gullfalleg í þokkabót.  Til viðbótar er hún svo ungleg að af og til er hún innt eftir skilríkjum við ýmis tækifæri, okkur eldri systrunum til hrellingar, ég hef til dæmis aldrei verið beðin um skilríki neins staðar, nokkurn tíma. Fyrir nokkrum árum tók þessi yngsta eðalsystir upp á því að stunda skotveiði af miklu kappi, okkur hinum til mikillar undrunar. Við vorum sosum ekkert sérlega hissa þegar hún tilkynnti að hún ætlaði að taka skotvopnapróf,  margir stunda skotíþróttir og skjóta á leirdúfur í gríð og erg en litla systir lét það ekki duga, hún fór alla leið og veiðir alla þá fugla sem leyfilegt er að veiða á Íslandi og er nú hægt og rólega að feta sig yfir í fiskveiðar. Við eldri systurnar erum smám saman að jafna okkur á þessu og það verður nú að viðurkennast að það hjálpar verulega að fá af og til grafna gæs eða reyktar bringur til að gæða sér á. 

Í vetur gerðist það á vinnustað systur minnar þegar hún mætti til starfa einn morguninn að mikill gauragangur barst innan af skrifstofu fyrirtækisins.  Nokkrir starfsmenn öskruðu hástöfum og brambolt, brothljóð og læti skóku húsnæðið, eins og verið væri að kasta húsgögnum til og frá og brjóta glugga eða annað lauslegt. Aðrir starfsmenn stóðu skelkaðir fyrir utan dyrnar og lögðu hreinlega ekki í að ráðast inn á skrifstofuna af ótta um líf sitt og limi. Þá kom sér vel að systir mín er ýmsu vön úr heimi skotveiðanna.  Hún gekk yfirveguð fram, opnaði dyrnar rólega í hálfa gátt og gægðist inn.  Inni á skrifstofunni stóðu þrír starfsmenn uppi á húsgögnum, társtokknir og náfölir, að því er virtist sturlaðir af hræðslu. Einum þeirra tókst þó að benda með skjálfandi hendi á gólfið og stynja upp titrandi röddu: ,,..það er mús!!“

Á miðju gólfinu sat lítil og bústin mús og horfði forviða í kringum sig á ástandið á skrifstofunni en greinilegt var að á flóttanum upp á skrifborðin höfðu skrifsborðsstólar og annar lauslegur skrifstofubúnaður látið í minni pokann fyrir óttaslegnum starfsmönnunum og lá búnaðurinn nú í óreiðu á gólfinu. Systir mín var ekki lengi að meta ástandið, eins og veiðimönnum er nú tamt að gera, þar skiptir máli að taka ákvarðanir sem varða líf og dauða á einu augnabliki.  Hún steig því inn á skrifstofuna og lokaði dyrunum þannig að hinir starfsmennirnir, sem höfðu hópast fyrir utan dyrnar, sáu ekki almennilega hvað gerðist fyrir innan. Veiðikonan talaði róandi röddu við samstarfsfólkið og gekk síðan ákveðið að músinni sem virtist ekki átta sig á því að þarna væri um stórhættulega konu að ræða. Mýs geta verið snöggar að hreyfa sig en þessi litla mús átti ekki roð í systur mína sem greip hana eldsnöggt upp á skottinu. Samstarfsfélagarnir, sem enn héldu sig á öruggum stað uppi á skrifborðum sínum, gripu andann á lofti og vonuðu örugglega að nú væru dagar músarinnar taldir en systir mín, veiðikonan fengsæla, skyttan óskeikula, ákvað á þessari stundu að prófa nokkuð sem hún hafði aldrei gert fyrr:  Að veiða og sleppa.

Músargreyið þóttist vera dauð, hékk niður á skottinu og hreyfði sig ekki en systir mín opnaði dyrnar að skrifstofunni og sýndi forvitnum vinnufélögum fenginn. Til að hughreysta vinnufélagana og fullvissa þá um að músinni væri óhætt fékk systir mín músina til að hreyfa sig aðeins og gekk svo með hana rakleiðis út um útidyrnar, yfir bílastæði fyrirtækisins og í nærliggjandi móa og þar var músinni sleppt. Hennar hefur ekki orðið aftur vart í fyrirtækinu og það tók ekki nema tvo daga að koma skrifstofunni aftur í samt lag. Vesalings starfsfólkið sem lenti í þessum músahremmingum hefur fengið viðeigandi áfallahjálp en systir mín var svo að sjálfsögðu heiðruð með glæsilegum hætti á vetrarskemmtun fyrirtækisins. Þar var henni afhent falleg orða sem hún gengur með við hátíðleg tækifæri og innrammað viðurkenningarskjal sem prýðir vegginn í stofunni heima hjá henni. Við eldri systurnar erum mjög ánægðar með það að sjá að þrátt fyrir að litla systir virðist vera blóðþyrstur og miskunnarlaus veiðimaður er hún inni við beinið sama gæðablóðið og við höfum alltaf haldið.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur  

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Að vökva lífsblómið