Uppskeran úr matjurtagarðinum – Pistill frá Gurrý

Áhugi almennings á ræktun matjurta hefur stóraukist undanfarin ár.  Fólk sem á garða hefur tekið besta blettinn í garðinum undir matjurtagarð og matjurtagarðar eru ekki lengur geymdir í felum eins og óhreinu börnin hennar Evu heldur eru þeir stolt og prýði garðeigandans.
Þeir sem ekki eru svo lánsamir að hafa garða við húsin sín geta hugsanlega leigt sér garðland hjá viðkomandi sveitarfélagi og komist þannig í snertingu við móður náttúru og eins er hópur fólks sem lætur sér nægja að rækta matjurtir á svölunum hjá sér.  Allir þessir ræktendur hafa komist að hinum dýra sannleik að heimaræktað bragðast best.

Skemmtilegasti hluti sumarsins er þegar fyrsta uppskeran kemur í hús, eins og þegar kíkt er undir kartöflugrösin um miðjan júlí og fyrsta smælki sumarsins er tekið upp, soðið og borið fram léttsaltað í smjöri og steinselju, jafnvel með nýsoðinni ýsu, þá er gaman.  Fyrstu gulræturnar, dálítið stuttar í annan endann en brakandi stökkar og sætar á bragðið og hverfa á augabragði í munna sem hafa hlakkað lengi til að kynnast þessum gulrótum.  Fyrstu salatblöðin, kannski ekki mörg eða stór en einstaklega græn á bragðið og skjóta búðakeyptu salati ref fyrir rass.  Fyrstu krækiberin, rifsberin, bláberin, sólberin, það er alltaf jafn ótrúlegt hversu sterk upplifun fyrsta bragð sumarsins af hverri tegund er, þegar beðið hefur verið eftir þessum krásum í heilt ár.

Þegar líður að hausti breytist gamanið aðeins.  Þá er komið að hinum harða sannleika að það verður að taka upp úr garðinum, draga fram stungugaffalinn og uppskeruhnífinn, þjálfa hnáliði og bakvöðva fyrir átökin, bíða eftir rétta veðrinu, vona að frysti ekki of snemma, ráðast svo til atlögu við uppskeruna.  Það er mjög gefandi að sjá góða uppskeru að hausti en að sama skapi þarf að skipuleggja vel hvernig á að koma uppskerunni þannig fyrir að hún skemmist ekki.  Rótarávextir eins og rófur, kartöflur og gulrætur geymast flestir best í myrkri og kæli við 2-4°C.  Geymslan þarf að vera þurr og yfirborð rótarávaxtanna sömuleiðis þegar þeir fara inn í geymsluna því annars er hætta á því að grásveppur eða grámygla nái sér á strik.  Hægt er að geyma þessa ávexti mánuðum saman við rétt hita- og rakastig.  Hvítkál og rauðkál geymast líka vel við þessar aðstæður.

Blómkál, spergilkál  og rósakál er tilvalið að snöggsjóða í um það bil eina mínútu og kæla það svo niður áður en það er sett í frysti.  Fryst kál af þessu tagi er frábært að nota út í súpur og pottrétti fram eftir vetri.  Súrsun er einnig góð geymsluaðferð og eru heimasúrsaðar rauðrófur og rauðkál ómissandi með jólamatnum á mörgum heimilum.

Sumt grænmeti er hægt að rífa niður og frysta ósoðið eins og gulrætur, rófur og hvítkál og margar tegundir kryddjurta er hægt að fínsaxa og frysta beint án þess að þær tapi í neinu bragðgæðum sínum.

Flestallir þeir sem fara að rækta matjurtir geta ekki hugsað sér að hætta því en með árunum breytast áherslur í ræktuninni.  Reynslan kennir okkur hvaða tegundir eru vinsælar hjá fjölskyldunni og hvað fellur ekki í kramið en reynslan kennir okkur líka að stilla okkur í hóf hvað magn varðar.  Nú á tímum eru sífellt fleiri að verða meðvitaðri um þá ótrúlegu sóun matvæla sem á sér stað í heiminum.  Við hendum um fimmtungi af þeim nýtanlega mat sem við kaupum til heimilisins á ári hverju.  Svarið við þessari sóun er að hver og einn þarf að byrja í eigin ranni.  Einfaldir hlutir eins og að gera innkaupalista til vikunnar áður en farið er í búðina og að taka reglulega til í ísskápnum geta gert gæfumuninn.  Að sama skapi þurfum við að gæta þess að skipuleggja matjurtaræktunina þannig að við komumst yfir að nýta uppskeruna með skynsamlegum hætti og hendum henni ekki beint í ruslafötuna, til þess eru þessi matvæli okkur allt of hjartfólgin.  Við höfum gefið þeim áburð, vökvað þau, varið þau gegn meindýrum og sjúkdómum og hlakkað til að borða þau allt sumarið, þau eiga það skilið að fá að enda í maganum á okkur.

Skrifað af Guðríði Helgadóttur, gurry@lbhi.is

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Að vökva lífsblómið