Upphaf nattúrulækningarstefnunnar á Íslandi

Miðvikudaginn 19. júlí sl. birtist í Morgunblaðinu grein um Náttúrulækningastefnuna á Íslandi  í 30 ára, þar sem því er haldið fram, að Björn Kristjánsson stórkaupmaður hafi flutt þessa stefnu til Íslands fyrir 30 árum, gróðursett frækorn þessarar stefnu í íslenzkum reit, falið þetta frækorn umönnun þess manns, er hann treysti öllum mönnum betur til að hlúa að því, þ.e. Jónasi Kristjánssyni, þáverandi héraðslækni á Sauðárkróki.

Og í greininni er það haft eftir Jónasi að hann ætti honum (þ.e. B.Kr.) að þakka þann áhuga, sem hann hefði þar (þ.e. á ferðalagi um Þýzkaland árið 1938) fengið fyrir stefnunni, hann hefði kveikt í sér„ (undirstrikað hér).

Greinarhöfundur er bersýnilega lítt kunnugur gangi þessara mála eða hefir fengið villandi upplýsingar um þau. Eins og allir kunnugir vita, byrjaði Jónas Kristjánsson að kynna þessa stefnu opinberlega á Sauðárkróki upp úr 1920, eftir að hafa heimsótt hinn heimskunna ameríska náttúrulækni Kellogg fyrir rúmum 45 árum. Um þetta segir Jónas í tímaritinu Heilsuvernd 1. hefti 1959:

Ég kynntist náttúrulækningastefnunni fyrst vestur í Ameríku, í hinu heimsfræga heilsuhæli Kelloggs. Árið 1921 dvaldi eg þar um þriggja vikna skeið sem gestur Kelloggs„.

Og sjálfur skrifar Björn Kristjánsson í sama tímarit, 4. hefti 1948, greinina;NLFÍ 10 ára og upphaf náttúrulækninga á Íslandi og segir þar m.a.: Síðan Jónas Kristjánsson, þáverandi héraðslæknir og sjúkrahúslæknir á Sauðárkróki, flutti hreyfingu þá, sem kölluð er náttúrulækningastefnan, til Íslands, hefir hann verið eini boðberi hennar hér á landi í læknisstöðu. Hér verður ekki rakin barátta læknisins nema lítillega, þótt merkileg sé, einnig á árunum áður en nokkurt félag var stofnað um þessa hugsjón. Stefnu og hugsjónum þessarar hreyfingar hefir verið lýst í ræðum og ritum Jónasar læknis, frá því hann byrjaði að boða þær opinberlega á Sauðárkróki, að mig minnir 1923 í sýslufundarvikunni, og fram á þennan dag.

Það sem gerist árið 1937, er ekki annað en það, að félag er stofnað og stefnan fær núverandi nafn sitt til samræmis við erlend heiti. Og eins og jafnan verður, þegar barizt er fyrir góðum málefnum, fékk Jónas til liðs við sig marga góða fylgismenn, konur og karla, þeirra á meðal Björn Kristjánsson.

En sjálfur er Jónas Kristjánsson fyrsti brautryðjandi þessarar heilsu- og mannbótastefnu hér á landi.

Arnheiður Jónsdóttir
Heilsuvernd 4. tbl. 1967,

bls. 116-117

 

 

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi