Innlend matvæli og náttúrulækningastefnan


Þess verður stundum vart, að menn hafi horn í síðu náttúrulækningastefnunnar fyrir það að hún varar við neyzlu kjöts og fisks og vinni á þann hátt gegn hagsmunum tveggja aðalatvinnuvega þjóðarinnar. Einkum virðast sumir bændur taka sér þetta nærri og telja þessa stefnu þjóðhættulega. Hér á eftir fara nokkrar skýringar varðandi þessi mál.

1. Fyrst er því til að svara, að þegar menn eins og Jónas læknir Kristjánsson og Are Waerland voru að flytja mönnum skoðanir sínar um heilbrigðishætti og heilnæmt mataræði, þá sögðu þeir tilheyrendum sínum og lesendum það sem þeir töldu sannast og réttast í þessum efnum, kost og löst á hverju einu, alveg án tillits til þess, hverjir kynnu að skaðast eða hagnast, ef breytt væri eftir kenningum þeirra. Allar breytingar á lifnaðarháttum, hvort sem þær miða til bóta eða ekki, hljóta að hafa einhver áhrif á hagsmuni einhverra einstaklinga, jafnvel heilla stétta, ýmist til tjóns eða ábata. Og öll umbótaviðleitni væri fyrirfram dauðadæmd, ef formælendur hennar ættu að halda sér saman af ótta við að valda einhverjum fjárhagslegu tjóni.

2. Þá skal vakin athygli á því, að enda þótt formælendur náttúrulækningastefnunnar telji, að maðurinn sé frá skaparans hendi ekki kjöt- eða fiskæta, fremur en bróðir hans apinn  og í því sambandi má þess geta, þótt hér verði ekki farið út í frekari rök þessari skoðun til stuðnings, að maðurinn gerðist ekki kjötæta fyrr en eftir að eldurinn fannst  og að honum sé það fyrir beztu að neyta hvorki kjöts né fisks, þá er kjöt- og fiskneyzla ekki aðalgallinn á mataræði okkar Íslendinga og annarra menningarþjóða, heldur sykur- og hveitineyzlan. Þeir sem halda, að kjöt og fiskur sé aðalfæða okkar Íslendinga, eru mjög á villigötum. Þessar fæðutegundir eru aðeins um 15% af allri fæðutekju Íslendinga. Nær sanni væri að tala um mjólk sem aðalfæðu okkar, og það er rétt að því er varðar innlendar matvörur, því að mjólk og mjólkurafurðir nema um 20% af fæðutekjunni. En hver er þá aðalfæða okkar? Því er fljótsvarað: Sykur 20% og hvítt hveiti 20%. M.ö.o. eru sykur og hveiti um 40% eða 2/5 hlutar af öllu því, sem íslenzka þjóðin leggur sér til munns. Og allt er þetta reiknað eftir hitaeiningamagni fæðunnar. Hvítt hveiti og sykur eru einhæfustu fæðutegundir, sem á matborð okkar koma og valda meiri heilsuspjöllum en menn gera sér ljóst. Gegn þessum meinvættum heilbrigðs lífs barðist Jónas Kristjánsson af alefli, og fyrsta bókin, sem Náttúrulækningafélag Íslands gaf út, var einmitt "Sannleikurinn um hvíta sykurinn eftir Are Waerland.

3. Það er næsta eðlilegt, að þeir sem koma í Heilsuhæli NLFÍ í Hveragerði og að matborði þess, líti svo á, að náttúrulækningastefnan gangi aðallega út á það að bannfæra kjöt og fisk. En það er hinn mesti misskilningur. Sjálfur Are Waerland segir þannig í bók sinni "Matur og megin: "Það er hægt að halda góðri heilsu og ná háum aldri þótt lifað sé á kjöti, ef menn aðeins neita sér um kaffi, hvítasykur og hvítt brauð. En jafnskjótt og menn taka að neyta þessara fjörefna- og málmsaltasnauðu fæðutegunda er fótunum kippt undan heilbrigðinni.

Á matborði heilsuhælisins taka allir eftir því, að þar er ekki kjöt eða fisk að finna og draga af því þá ályktun, að þessar fæðutegundir séu skaðlegustu matvælin í augum náttúrulækningamanna. Hitt vekur enga sérstaka athygli, að hvítur sykur og hvítt brauð kemur þar aldrei á borð, heldur ekki salt eða annað venjulegt krydd, og ekki heldur niðursuðuvörur, sem jafnast ekki á við nýjan mat hvað hollustu snertir. Þá vita fáir, að grænmetið, sem mikinn hluta ársins kemur nýtt úr gróðurhúsum og görðum hælisins, er ræktað með lífrænum áburði án gerviáburðar og eitraðra varnarlyfja, sem víðast þarf að nota gegn sjúkdómum í matjurtum. Og loks er mjólk og mjólkurmatur á borðum á öllum matmálstímum. Allur brauðmatur og grautar eru úr nýmöluðu korni, þar með talinn hafragrauturinn.

4. Af ofangreindri lýsingu má sjá, að enda þótt kjöt og fiskur komi ekki á borð í hælinu, eru innlendar matvörur stærri þáttur í viðurværinu en gengur og gerist, og þær eru nær einvörðungu landbúnaðarframleiðsla. Ef landsmenn tækju sér þetta mataræði til fyrirmyndar, bæri landbúnaðurinn því síður en svo skarðan hlut frá borði.

5. Í hófinu í Húsavík, sem sagt er frá á öðrum stað hér í þessu hefti, mun einn góður og gegn ræðumaður hafa haft á orði, að náttúrulækningastefnan væri andvíg mjólkurneyzlu. Þetta er hinn mesti misskilningur, eins og bezt má marka af því, að samkvæmt athugunum, sem gerðar hafa verið tvívegis með nokkurra ára millibili, er neyzla mjólkur og súrmjólkur nálægt einum lítra á fæðisdag, og þar að auki koma mjólkurafurðir, eins og rjómi, smjör og ostar. Taka þessar tölur til dvalargesta og starfsfólks, sem er um fjórði hluti allra fæðisgesta.

Það er sykuriðnaðurinn, sem hefir ástæðu til að líta náttúrulækningastefnuna illu auga, og auðvitað kaffiframleiðendur, og þar að auki allir þeir, sem hafa atvinnu af dreifingu þessara vörutegunda. Kaffi er alls ekki á borðum í hælinu, og sykurnotkun  púðursykur  aðeins um 20 g á fæðisdag, en til jafnaðar í landinu 150 g á hvert mannsbarn að meðaltali.

 

Björn L. Jónsson 
Tímaritsgrein Heilsuvernd
 4. tbl. 1972

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi