Hvert stefnir hin vestræna siðmenning?

Hvernig stendur á því að vestrænar þjóðir eru allra þjóða kvillasamastar og hrakar þó með hverjum áratug sem líður? Þannig mætti lengi spyrja. En svarið er ófengið ennþá, og svo mun fara enn um óákveðinn tíma þar til ekki verður hjá því komizt að finna sannleikann í þessum efnum, þann sannleika, sem í raun og veru blasir við augum hvers þess manns, sem beitir heilbrigðri skynsemi. Vér erum krankfelldir, vegna þess að við neytum dauðrar og ónáttúrlegrar fæðu, þrátt fyrir það að forsjón lífsins ætlar oss náttúrlega lifandi fæðu.

Hinn hvíti mannflokkur hefur villzt inn á rangar manneldisbrautir. Hver maður og hver þjóð, sem neytir dauðrar fæðu, eru að kalla dauða yfir sig. Reynslan er ólygnust. Dómi hennar verður ekki áfrýjað, hver sem í hlut á.

Vestræn siðmenning á sök á ægilegum óförum, sem frumstæðar þjóðir hafa orðið fyrir, er þær hafa tekið upp siði hennar. Tóbak, alkohol og kynsjúkdómar, en umfram allt óhollar matarvenjur hafa sært fákunnandi sakleysingja ólífissárum. Verður ekki annað sagt en að vestræn siðmenning sé komin á hálar brautir í manneldismálum, mannskemmdarbrautir, sem orðið hafa til þess að lífsþrótti vestrænna þjóða hefur hrakað hröðum skrefum síðustu 75 árin. Á þessum árum hefur komið fram fjöldi kvilla, sem áður voru ókunnir. Þykist ég dómbær um þetta vegna þess, að flestir komu þessir kvillar til sögunnar eftir að ég hóf læknisstörf.

Því nær allir sjúkdómar, er á oss sækja nú, stafa af röngum og sjúklegum manneldisvenjum. Læknastéttin verður ekki dæmd sýkn saka um að eiga nokkurn þátt í þessu ófremdarástandi. Athygli lækna hefur beinzt að sjúkdómseinkennum, en raunverulegar orsakir sjúkdómanna hafa orðið útundan. Um þetta efni ritaði hinn mikli lífeðlisfræðingur og nóbelsverðlaunamaður Carrel í bók sinni Man the Unknown.

Um þetta hefur hinum fræga skurðlækni Sir Arbuthnot Lane farizt svo orð „Langvarandi reynsla mín sem skurðlæknir hefur kennt mér, að eitthvað er grunsamlega rangt við nútímamenningu vora. Og það er sannfæring mín, að ef ekki verður gerbreyting á nútímalifnaðarháttum, er vaxandi hrun og hrörnun hins hvíta kynflokks óumflýjanlegt.„

Ef ekki verður breyting á óttast ég að vestrænnar menningar bíði hrun og ekki minna en hrun Rómaveldis, sem m.a. varð vegna þess að þá skorti nýta hermenn til varnar sínu víðlenda ríki. Nú er svo komið að Íslendinga skortir menn til þess að starfa að sjómennsku. ˆ Hvert stefnir þessi þjóð?

Það er ekki einhlítt að reisa spítala. Oss vantar menn, sem geta og vilja taka að sér að kenna þjóðinni heilsurækt. Menn verða að læra þau lögmál, sem ráða heilbrigði mannsins og þeir verða líka að lifa eftir þeim. Við verðum að rækta heilbrigði í stað sjúkdóma. Vér verðum að komast í veg fyrir sjúkdómana, það mundi spara okkur fjárútlát og margskonar óþægindi. Vér kostum 52 milljónum króna til sjúkrahúsabygginga. 10 milljónir fara í allskonar eiturlyf, sem betur væru ókeypt og ónotuð. Læknafjöldi vex ár frá ári hér á landi og sjúkdómum fjölgar að sama skapi eða rúmlega það. Hvar endar þetta?

Til þess að komast í kynni við heilbrigðari menningarhætti verðum við að leita í afkimum heimsins fjarri allri vestrænni menningu. Vér verðum að breyta um hugsunarhátt, vinnubrögð og starfshætti, ef vér eigum ekki að falla fyrir sverði úrkynjunarinnar. Ekki er seinna vænna!

Sannarlega virðist svo sem menn hafi gleymt því að maðurinn er háður því, sem hann leggur sér til munns, eins og aðrar lífverur. Maðurinn er það, sem hann etur. Hann verður að lifa á lifandi fæðu.

Jurta- og ávaxtaæta er hann frá upphafi. Sem alæta getur hann að vísu lifað alllengi, en það styttir líf hans. Eskimóar, sem lifa á kjöti, verða tæplega eldri en 45-50 ára og eru þá orðnir gamlir og útslitnir. Maðurinn deyr fyr en honum er ætlað vegna þess, að hann brýtur í bága við þau lögmál sem lífið er háð.

Hvað er manneldi? Það eru viðskipti hvers manns við allt sitt umhverfi, efnislega, sálarlega og andlega séð. Maðurinn getur ekki lifað á efni eins og það kemur fyrir í hinni dauðu náttúru. Líf verður hvarvetna að nærast á lífi. Án lifandi fæðis tortímir maðurinn sjálfum sér fyr en varir. Hver fruma mannslíkamans getur því aðeins starfað að hún fái til viðhalds lifandi fæði magnað sólargeislum bundnum í efni. Án þess er engin fruma starfhæf.

Hvað eru sjúkdómar? Þeir eru afleiðingar þess að vér höfum brotið í bága við lögmál lífsins. Ef fruma fær óviðeigandi fæði, verður hún meira og minna óstarfhæf, en neyðist jafnframt til að hefja baráttu fyrir lífi sínu. Sama gildir um manninn allan. Fæðislaus getur hann ekki þrifizt, og neyti hann dauðrar fæðu hefst barátta fyrir lífinu og framhaldi þess. Ef vér neytum til lengdar dauðrar og ónáttúrlegrar fæðu, verðum vér að lokum að taka til láns úr varasjóði líkama vors. Þegar hann er tómur eru öll sund lokuð og lífið slokknar. Sjúkdóma sem stafa af rangri fæðu, er ekki hægt að bæta til fulls með öðru en lifandi, náttúrlegri fæðu. Lyf geta lítið bætt, þegar lífið á í baráttu vegna óhollrar næringar. Vér þurfum að eiga vinsamleg viðskipti við jörðina. Í þeim viðskiptum megum við ekki hafa rangt við. Slík rangindi gætu e.t.v. fært okkur stundargróða, en sá gróði verður aldrei langær. Svikin bitna á oss sjálfum um síðir. Jörðin getur gefið oss allt, sem vér þörfnumst til þess að geta lifað heilbrigðu lífi, ef vér aðeins högum ræktun hennar í samræmi við lögmál lífsins. Sannarlega höfum vér brotið freklega lögmálin, sem allt vort líf er háð. Ekki þarf að undra þótt krankleiki á sál og líkama liggi eins og mara á mannfélagi nútímans.

Þessi grein birtist í 1. tbl. Heilsuverndar 1957.

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing