Áhrif plantna á loftgæði innanhúss og líðan fólks

Áhrif plantna felast meðal annars í lífsstarfssemi þeirra. Þær nota koltvísýring, vatn og orku sólarljóssins til uppbyggingar, ferlið köllum við ljóstillífun og aukaafurð hennar er súrefni. Að auki þurfa plöntur á steinefnum að halda, næringu sem þær fá úr frjóum jarðvegi.
Vatn er mikilvægur hlekkur í lífsstarfsemi plantna og hlutverk þess eru margvísleg en til þessara hlutverka nýtir plantan einungis 10% af því vatni sem hún tekur upp, afgangurinn leitar út um laufblöð hennar.
Fjöldi rannsókna gefa til kynna að plöntur bæta andrúmsloftið á vinnustaðnum, þær lækka styrk CO2 og annarra efna sem eru skaðleg í háum styrk, styrkur mengaða loftsins
minnkar og loftið í rýminu reynist ferskara, súrefni eykst.
Plöntur sem þurfa mikla vökvun geta hækkað loftraka um allt að 15% og geta því verið heppilegar þar sem loftraki er of lágur. Plöntur geta einnig haft áhrif á hitastig með skuggaáhrifum og uppgufun vatns.
Plöntur koma ekki í stað loftræstingar, en þar sem loftræsting er léleg geta plöntur gert gagn.

Áhrif plantna á líðan fólks
Sýnt hefur verið fram á að hægt sé að bæta heilbrigði á vinnustað með plöntum. Það er vísindalega sannað að fólki líður betur og er í betra jafnvægi í návist plantna, vinnuafköst aukast. Fjöldi rannsókna hafa verið gerðar á þessu sviði og niðurstöður þeirra leiða í ljós að þar sem plöntur eru hafðar í vinnurými eða við tölvuskjái þar eru færri veikindadagar. Það dregur úr einkennum eins og þreytu, streitu, höfuðverkjum og ertingu í slímhúð.
Allt er vænt sem vel er grænt segir einn af málsháttum okkar. Plöntur hafa góð áhrif á okkur, tilfinningar okkar verða jákvæðari og sjúkir ná fyrr bata. Grænt ýtir undir sköpunarkraft, einbeitingu og afköst almennt. Grænar plöntur auka vellíðan, hvar sem er og hvenær sem er.
Dreifa þarf plöntum jafnt um rýmið, ef um skrifstofu er að ræða er mælt með einni stórri plöntu á hverja 12 m2, eða einni minni plöntu á hverja tvo starfsmenn. Ekki má gleyma að plöntur dempa hljóð, geta því verið góð lausn í opnu rými.

Planta eða gæludýr
Flest börn eiga sér þann draum að eignast gæludýr, ekki er alltaf hægt að verða við því vegna búsetu eða annarra þátta. Hér er tilvalið að fjárfesta í fallegri pottaplöntu sem barnið getur hugsað um. Plantan launar það svo með heilnæmara lofti og jafnvel með blómum.

Hvaða plöntur eru þetta?
Plöntur sem þykja hreinsa loftið vel og hafa komið vel út úr prófunum eru: pathiphyllum wallisii – friðarlilja, Dracaena – drekatré, Chlorophytum – veðhlaupari, Chrysanthemum – pottakrýsi, Gerbera – geislafífill, Phoenix roebelenii – döðlupálmi, Chrysalidocarpus lutescens – gullpálmi, Chamaedorea – bergpálmi, Rhapis excelsa – kínapálmi, Schefflera – regnhlífartré, Scindapsus – mánageisli, Aglaonema – sjómannsgleði, Nephrolepis – bostonburkni, Ficus robusta – gúmmítré og Ficus benjamina – fíkjutré Benjamíns.
Plöntur sem þurfa mikið vatn og geta þar með hækkað rakastig eru: Burknar, skrautgrös, pálmar, fíkjutré og bergflétta.
Það þarf að velja plöntunum góðan stað, þær þurfa birtu, næringu og vatn. Ekki mikið gagn í plöntum sem vanþrífast.

Í Hollandi og Bretlandi eru árlega valdar skrifstofuplöntur ársins – við ættum að taka okkur þá til fyrirmyndar og bæta svolitlu grænu inn í líf okkar.
Plöntur sem hafa unnið hinn eftirsóknaverða titil síðustu ár eru;
Sansevieria – tengdamóðurtunga/indíánafjöður, Spathiphyllum wallisii – friðarlilja,  Beaucarnea – flöskulilja og  Phalaenopsis – brönugras (orkidea).

Heimildir:
Drífa Björk Jónsdóttir; námsefni BLA 112 (2010). Landbúnaðarháskóli Íslands
Vefsíður:
http://www.plants-for-people.org/
http://floradania.dk

Skrifað af Guðrúnu Helgu Guðbjörnsdóttur, garðyrkjufræðingi

Related posts

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Leiðir að umhverfisvænna lífi