Tómatar í öll mál – Pistill frá Gurrý

Ég elska tómata.  Mér er reglulega bent á það heima hjá mér að maður elski ekki mat, manni geti þótt hann frábær og ljúffengur og að maður elski börnin sín og fjölskylduna en ég held því samt fram statt og stöðugt að ég elska tómata!  Þegar ég var barn fannst mér tómatar engan veginn geta flokkast undir mannamat.  Þeir voru vondir á bragðið, oft dálítið súrir, erfitt að borða þá því gumsið spýttist út úr þeim og maður var allur útbíaður, þegar þeir voru notaðir ofan á brauð varð brauðið blautt og óætt og síðast en ekki síst, þeir voru svo óþolandi hollir.  Af og til prófaði ég að smakka tómata, enda er ég alin upp við það að maður eigi að smakka allan mat að minnsta kosti þrisvar, áður en manni er óhætt að fullyrða að hann sé vondur, en allt kom fyrir ekki.  Þeir skánuðu bara ekkert.  Þannig liðu árin, ég pillaði tómata úr salötum, tók tómatsneiðina af hamborgaranum og fúlsaði almennt við þessari óboðlegu fæðu.  Svo rann upp sá dagur að ég sá ljósið.  Ég smakkaði góðan tómat.

Ég man enn tilfinninguna þegar ég lét tilleiðast, eftir heilmiklar fortölur, að teygja mig eftir tómati sem hékk hárauður og fullþroskaður á gróskumikilli tómatplöntu og beið örlaga sinna.  Sennilega hefur þessi tiltekni tómatur ekki haft neina hugmynd um það hvaða straumhvörfum hann myndi valda á þessari stundu en þetta var tómaturinn sem gerði það að verkum að í dag elska ég tómata.  Bragðið af honum var eins og lítil bragðsprengja í munninum.  Fullkomin blanda af sætu og súru bragði, aldinkjötið var þétt og stinnt og innihaldið safaríkt.  Á þessari stundu flaug í gegnum huga mér að þessi tómatur væri hreinlega eins og besta sælgæti á bragðið, bara hollur.  Þarna áttaði ég mig snarlega á því að það var ástæða fyrir því að fólk hámaði í sig tómata eins og það ætti lífið að leysa, þeir eru einfaldlega dásamlegir á bragðið.

Tómatar eru ættaðir úr Vesturheimi, frá Mið- og Suður-Ameríku og bárust þaðan til Evrópu með spænskum landkönnuðum, sennilega í kringum árið 1500.  Sennilega hafa fyrstu tómatarnir verið gulir á litinn og á stærð við kirsuberjatómata.  Í Mið- og Suður-Ameríku höfðu tómatar verið notaðir til matar í um 2000 ár, að því er talið en en það tók Evrópubúa nokkurn tíma að taka tómatana í sátt.  Tómatar eru nefnilega af kartöfluættinni sem einnig hefur verið nefnd náttskuggaætt, í höfuðið á hinni baneitruðu og banvænu plöntu, náttskugga.  Evrópubúarnir voru því mjög tortryggnir á þessi skínandi skæru aldin og tregir til að smakka aldinin.  Þegar ljóst var að tómatarnir voru sérlega ljúffengur ávöxtur breiddist hróður þeirra hratt út, einkum í suðurhluta Evrópu og urðu þeir fljótlega hluti af daglegu fæði fólks.  Í dag tengjum við tómata við matargerð Miðjarðarhafslanda og eru tómatar lykilatriði í mörgum réttum frá þeim slóðum.

Tómataræktun breiddist smám saman norður eftir Evrópu og voru þeir aðallega ræktaðir á sumrin á sólríkum og hlýjum stöðum.  Eftir að gróðurhús komu til sögunnar lengdist ræktunartíminn og ræktunarsvæðið stækkaði enn frekar.  Á Íslandi hófst tómataræktun fyrir alvöru fljótlega eftir að farið var að nota jarðhita til að hita upp gróðurhús.  Garðyrkjubændur gerðu margvíslegar tilraunir í fyrstu til að sjá hvaða tegundir væri skynsamlegt að rækta í gróðurhúsum sínum og komust að þeirri niðurstöðu að best væri að rækta einærar tegundir sem gæfu mikla uppskeru á flatareiningu yfir sem lengstan tíma.  Gúrkur og tómatar urðu því lykiltegundir í ræktun í íslenskum gróðurhúsum og eru það enn fram á þennan dag.  Það tók hins vegar töluverðan tíma að kenna íslenskum neytendum að borða þessa gæðafæðu.  Íslenskar húsmæður voru ekkert síður tortryggnar á þessi skínandi skærrauðu aldin en Evrópubúarnir fjórum öldum fyrr en smátt og smátt tókst garðyrkjubændum að koma tómötum á disk landsmanna.  Straumhvörf urðu í ræktuninni þegar farið var að rækta tómata allt árið um kring í gróðurhúsum við vaxtarlýsingu og í dag er staðan þannig að íslenskir garðyrkjubændur um framleiða um 70% af þeim tómötum sem við neytum árlega. Lengi vel var einungis hægt að fá ,,venjulega“ rauða tómata, stóra og rjóða en smám saman hefur hlutur kirsuberja- og konfekttómata aukist á kostnað hinna.  Neytendur hafa tekið litlu tómötunum opnum örmum því þeir eru fyrirtaks nasl milli mála.  Galdurinn við góða tómata er að geyma þá ekki í kæli, þeir bragðast best ef þeir eru við stofuhita enda eru þetta ávextir ættaðir úr hitabeltinu.  Tómatar sem eru geymdir á eldhúsborðinu eru líka mun líklegri til að rata beint í munna heimilisfólks en ef þarf að grafa eftir þeim í grænmetisskúffum kæliskápa.  Tómatar geta auðveldlega staðið í nokkra daga á eldhúsborðinu án þess að skemmast, við kaupum jú ekki tómata til að endast að eilífu heldur til að njóta þeirra á meðan þeir eru ferskir og girnilegir. 

Á meðan ég skrifaði þennan pistil sat ég með tómataskál með nokkrum (reyndar frekar mörgum) kirsuberja- og konfekttómötum fyrir framan mig.  Sennilega lekur skálin því nú eru allir tómatarnir horfnir en mikið voru þeir dásamlegir á bragðið, ég elska tómata!

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Að vökva lífsblómið