Til eru fræ

Fræsöfnun er eitt af skemmtilegri haustverkefnunum í garðyrkjunni. Tilfinningin sem fylgir því að safna fræi er sú að maður er að draga björg í bú, leggja drög að framtíðarræktuninni, skapa möguleika á ræktunarævintýrum næstu ára.  Sumir garðyrkjumenn safna fræi af tugum tegunda plantna á meðan aðrir láta sér duga að gæta þess að að eiga fræ af uppáhaldstegundunum sínum.  Fræsöfnun á sér stað við alls konar aðstæður og hvarvetna sem lokkandi plöntur er að finna. Stundum virðist jafnvel sem svo að fræ hreinlega varpi sér af plöntunum lóðbeint niður í galopna vasa garðyrkjufólks sem eins og af tilviljun á leið hjá. Þetta gerist þó einkum á ferðalögum um framandi slóðir og ekki alltaf sem þessi ævintýragjörnu fræ falla í frjóan jarðveg.

Á sérlega sólríkum og fallegum septemberdegi vorum við vinnufélagarnir í Garðyrkjuskólanum að spjalla um fræsöfnun og sáningar úti í náttúrunni þegar einn vinnufélaginn nefndi að sig langaði mjög mikið í fræ af gullkolli.  Gullkollur (Anthyllis vulneraria) er mjög falleg niturbindandi planta sem er nokkuð algeng á suðvesturhorninu en sjaldgæf í öðrum landshlutum.  Svo skemmtilega vill til að í uppsveitum Kópavogs, í grennd við heimili mitt, eru heilu breiðurnar af gullkolli, einkum og sér í lagi á hljóðmönum meðfram annasömustu umferðargötunum.  Ég bauðst því til þess með mikilli gleði að safna nokkru magni af gullkollsfræi fyrir félaga minn.

Eftir að hafa skóflað í mig kvöldmat (mér finnst ómögulegt að safna fræjum á fastandi maga) greip ég poka undir fræið og klæddi mig í hlýja úlpu því töluvert hafði kólnað í veðri eftir því sem leið á daginn, enda heiðskírt og stillt í veðri. Satt best að segja hafði ég það einnig á bak við annað eyrað að glæsilega nýja hettulausa og haustgula úlpan mín kæmi í veg fyrir að mér yrði ruglað saman við sveppatínsluáhugafólkið sem fjölmennir gjarnan á umferðareyjum á þessum árstíma.  Ég gekk svo sem leið lá að næstu hljóðmön og hófst handa við frætínsluna.  Eftir skamma stund var ég orðin vel niðursokkin í verkefnið og komin með dágóðan slatta af fræi í pokann.  Ég tók þó eftir því á einum tímapunkti að tveir bílar hægðu vel á sér þegar þeir óku framhjá mér en ég kippti mér ekkert upp við það, enda full sjálfsöryggis í úlpunni.  Loks var pokinn vel fullur og ég ákvað að láta þar við sitja. Þegar ég klöngraðist yfir hljóðmönina gekk ég rakleitt í flasið á nokkrum unglingspiltum sem mér fannst ég kannast við og heilsaði þeim í forbífarten. Á leiðinni heim  lá leið mín framhjá sérlega gróskumiklum kínareyni sem stóð fagurlega skreyttur berjum við göngustíginn og það var eins og við manninn mælt, berin hreinlega slógust um að fá pláss í hinum pokanum sem ég var með í vasanum, af einskærri tilviljun að sjálfsögðu.

Daginn eftir var félagi minn einstaklega ánægður með frægjöfina og þakkaði kærlega fyrir sig, næst sá ég svo undir iljarnar á honum þar sem hann hljóp til fjalls og hófst handa við að sá gullkollinum í nærliggjandi skriðu.  Reyniberin verða líklega notuð í nemendaverkefni því það er ekki síður kúnst að kunna að fara með berin og koma þeim í réttan feril eftir að þau hafa dottið í vasann.

Þegar ég kom heim úr vinnunni mætti ég yngri dóttur minni í dyrunum og fannst hún heldur þungbúin að sjá. Ég spurði hana hvað væri að því venjulega eru hún glaðværðin uppmáluð. Hún horfði alvarleg á mig.  ,,Mamma.  Fórstu í göngutúr í gærkvöldi?“  Ég svaraði því játandi og bætti því við að það væri ómögulegt að sitja heima í jafn fallegu veðri og hafði verið um kvöldið. ,,Mamma, getur verið að þú hafir hitt einhverja krakka úr skólanum?“ Ég gat ekki neitað því en gat þó ekki greint henni frá því hverjir þessir krakkar nákvæmlega voru.  ,,Hvað varstu eiginlega að gera þegar þú hittir krakkana?“ spurði dóttir mín og var þó nokkuð niðri fyrir.  ,,Ég var bara að tína fræ af gullkolli fyrir vinnufélaga minn, það eru svo ótrúlega fallegar breiður af honum hér í hverfinu“ svaraði ég og brosti út að eyrum við minninguna um frætínsluna. Dóttirin varð eins og þrumuský á svipinn. ,,Mamma, skilurðu ekki hvað þetta er vandræðalegt? Krakkarnir halda að þú hafir verið að tína sveppi!  Gastu ekki bara verið í hettupeysu eins og allir aðrir sem tína sveppi og SLEPPT ÞVÍ ALVEG AÐ HEILSA KRÖKKUM ÚR HVERFINU?“  Að svo mæltu skellti hún hurð.

Ég velti því hins vegar fyrir mér hvers konar einkennisbúning fræsafnarar ættu helst að fá sér. Ætli sveppatínslufólkið geti gefið góð tískuráð?

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur og gullkollur

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Að vökva lífsblómið