Sumarið er tími garðyrkjutilrauna. Frá því við Íslendingar uppgötvuðum gleðina við það að rækta plöntur okkur til gagns og augnayndis höfum við ótrauð prófað ótal tegundir plantna af ýmsum gerðum. Sumar þessara plöntutegunda hafa ekki átt framtíðina fyrir sér á Íslandi og dáið drottni sínum misfljótt eftir gróðursetningu á meðan aðrar tegundir hafa hér fundið ný heimkynni, heimkynni þar sem þeim líður vel og þær vaxa, dafna og blómstra, jafnvel betur en í öðrum heimkynnum sínum. Þannig hefur fjölbreytni í tegundavali ræktaðra plantna smám saman aukist og þróast í takt við breytingar á umhverfi og veðurfari.
Fyrstu garðyrkjutilraunir Íslendinga voru margar hverjar algerlega misheppnaðar enda prófuðu menn gjarnan suðlægar plöntur sem aldrei áttu raunverulega möguleika á því að þrífast hérlendis. Besta raun gaf að sækja íslenskar plöntur út í náttúruna og koma þeim fyrir í görðum við íbúðarhús, þær plöntur döfnuðu yfirleitt vel og voru upphafið að mörgum fallegum skrúðgörðum. Þetta sýndi ræktunarfólki þörfina á því að leita eftir plöntuefniviði á stöðum með svipuð vaxtarskilyrði og fyrirfinnast á Íslandi. Samhliða tilraunastarfinu byggðist upp þekking á því hvaða plöntur væru vænlegastar til árangurs. Í dag njótum við svo sannarlega ávaxtanna af þessu þrotlausa starfi og þrautseigju ræktunarfólks sem lét ekki hugfallast þrátt fyrir ýmiss konar áföll á leiðinni, svo sem úrtöluraddir, meindýraplágur, sjúkdóma og hret á öllum árstímum. Trjágróðurinn sem nú prýðir landið svo víða skapar skjól fyrir enn fleiri ræktunartilraunir. Það er dálítið skondið að garðyrkjufólk virðist alltaf hafa mestan áhuga á að rækta plöntur sem eru á mörkum þess að þrífast á Íslandi, harðgerðu tegundirnar eru einhvern veginn ekki eins spennandi, ekki eins mikil áskorun, ekki eins mikill sigur að ná tökum á ræktunartækni þeirra.
Það gefur auga leið að innan um allar þær tegundir sem við höfum reynt að rækta eru plöntur sem við hefðum kannski átt að láta hjá líða að prófa. Í þessum hópi eru plöntur sem okkur finnst að hafi gert sig aðeins of heimakomnar, það má vel vera að við höfum boðið þeim heim en það er ekki þar með sagt að þær þurfi að leggja undir sig heimilið, landið og miðin.
Efst á þessum lista er plantan sem sumir elska og aðrir elska að hata, alaskalúpínan. Þessi bráðduglega planta var flutt til landsins í þeim tilgangi að græða landið enda ekki vanþörf á því í landi sem státar af stærstu auðnum Evrópu. Alaskalúpínan er harðgerð, dugleg, sáir sér mikið og hefur öflugt rótakerfi. Hún er fyrirtaks landgræðsluplanta og með hennar aðstoð hefur tekist að hemja foksanda sem annars hefðu leikið lausum hala, öllum til ama. Vandinn er hins vegar sá að lúpínan heldur sig ekki bara á foksöndum heldur laumar hún sér í lyngmóana, stingur upp kollinum innan um strá og starir og leggur smám saman undir sig heilu sveitirnar. Það er ekki lengur fjarlægðin sem gerir fjöllin blá og langt til Akureyrar, lúpínan á mestan heiðurinn af blámanum. Þessi bjargvættur íslenskrar landgræðslu hefur snúist upp í andhverfu sína, nú er hún réttdræp víðast hvar og fúlgum fjár varið til að ráða að niðurlögum hennar.
Því glöddust örugglega margir þegar skógarkerfillinn kom til sögunnar. Þarna var loksins komin planta sem gat bjargað móum og melum frá lúpínublámanum. Skógarkerfillinn kemur inn í lúpínubreiður og vex þar upp af miklum krafti. Hann er þó nokkuð hávaxnari en lúpínan þannig að sennilega nær hann smám saman að bola lúpínunni í burtu, hún þolir mjög illa skugga af öðrum plöntum og hopar undan svona samkeppni. Skógarkerfillinn er hins vegar ekkert kurteisari gestur en lúpínan. Hann myndar gífurlegt magn fræja á hverju ári og nær því að dreifa sér, oftast í ræktað land þar sem jarðvegur er frekar frjósamur. Skógarkerfillinn er líka kænn, hann leggur fyrst undir sig vegkanta og skurðbarma og veður svo þaðan óboðinn inn á svæði sem alls ekki eru ætluð honum. Á síðustu árum hefur orðið sprenging í útbreiðslu skógarkerfils og eru mörg sveitarfélög nú að skera upp herör gagnvart honum. Þeir sem vilja stuðla að takmörkun kerfilsdreifingarinnar ættu að hafa í huga að mikilvægt er að fjarlægja hann áður en hann fellir fræ og á ákveðnum tíma, þegar hann er í fullum blóma og byrjaður að mynda fræ, er auðvelt að kippa honum upp með rótum.
Bjarnarkló og systur hennar eru gestir sem engan langar að eiga náin kynni við. Þessar risavöxnu klóartegundir eru skyldar hvönn en eru þeirrar náttúru að plöntusafi þeirra inniheldur svokölluð ljósverkandi eiturefni. Þau virka þannig að ef sól skín á svæði sem hefur fengið á sig þennan plöntusafa verður húðin í besta falli rauð og í verstu tilvikum geta myndast blöðrur eða jafnvel svöðusár undan safanum. Magn safa skiptir að sjálfsögðu máli og eins það hversu viðkvæmur viðkomandi einstaklingur er fyrir safanum. Þessar plöntur eru sérlega tilkomumiklar, verða tveir til þrír metrar á hæð og breidd og stærðin ein ætti að koma í veg fyrir að fólk stilli þeim upp í hugguleg fjölæringabeð, hvað þá aðrir eiginleikar plantnanna. Á hverju ári getur ein svona planta myndað mörg þúsund, jafnvel tugi þúsunda fræja og því safnast upp vel stæður fræbanki í jarðveginum. Nú þegar er verið að kortleggja útbreiðslu bjarnarklóar og systra í þeim tilgangi að uppræta þær, að minnsta kosti þar sem þær eru staðsettar nærri leiksvæðum barna. Einnig er nauðsynlegt fyrir almenning að kannast við útlit þessara plantna, þar gildir hið fornkveðna að maður þarf að þekkja óvin sinn.
Ekki má ætla neinum ræktunarmanni að hann hafi eitthvað illt í hyggju þegar hann óafvitandi byrjar að rækta tegund sem síðar kemur í ljós að er óalandi og óferjandi. Hins vegar er mikilvægt fyrir allt ræktunarfólk að sýna fyllstu aðgát við útplöntun eða sáningu nýrra plantna í íslenska náttúru, afleiðingarnar eru oft ófyrirsjáanlegar. Gott dæmi um þetta er þegar tvær til þrjár plöntur af kryddjurtinni spánarkerfli voru gróðursettar við lítinn bæjarlæk fyrir nokkrum áratugum í einni af víkunum á Hornströndum. Við byggðina í víkinni hefur ætihvönnin breitt sig út og er ein af einkennisplöntum svæðisins. Þegar tók að hlýna í veðri fyrir 10-15 árum síðan fór spánarkerfillinn að stinga upp kollinum hér og þar og nú er svo komið að hann þekur stór svæði í víkinni og er að skyggja hvönnina út, hún þolir ekki samkeppnina og skuggann. Kannski er það bara allt í lagi, spánarkerfillinn blómstrar fallega og er bragðgóð planta en í augum margra er hann þyrnir í augum í friðlandinu á Hornströndum, hann tilheyrir ekki þeirri flóru sem fyrir er á staðnum.
Spurningin er því sú, ætlum við að tala um þessar innfluttu tegundir sem þaulsætna gesti í íslenskri náttúru og reyna að koma þeim í skilning um að tími sé kominn til brottfarar eða ætlum við að sætta okkur við nærveru þeirra og innlima þá í fjölskylduna?
SJÁ MYNDIR AF UMRÆDDUM PLÖNTUM MEÐ ÞVÍ AÐ SMELLA HÉR
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur