Sumarfrí – Pistill frá Gurrý


Vonandi ná sem flestir að komast í sumarfrí á meðan sólin er enn tiltölulega hátt á lofti og hitastigið nær tveggja stafa tölum nokkra daga í röð. Sólríkir og heitir sumardagar á Íslandi eru einhvern veginn margfalt dýrmætari en sambærilegir dagar í öðrum löndum, þar sem slíkir dagar eru hugsanlega líka mun algengari. Það er því sérstaklega mikilvægt að nýta þessa daga í þaula, bregða sér í stuttbuxur og hlírabol, skella sér í sandala og viðra tærnar, fá sér ís í brauðformi og sleikja sólina í sundi. Það er svo dásamlegt að fá sól í kroppinn og finna hvernig D-vítamín birgðir líkamans hlaðast upp á meðan húðliturinn skiptir hægt úr undanrennubláu yfir í gullinbrúnt (í sumum tilfellum humarrautt, ef maður fer ekki varlega).

Ég er svo lánsöm að vera nýkomin úr 10 daga dvöl á Hornströndum. Þetta er eitt besta sumarfrí sem hugsast getur því á þessum afskekktu slóðum er hvorki sími, rafmagn né internet, ekki sjónvarp eða örbylgjuofn, enginn umferðarniður enda hvorki vegir né bílar til staðar, ekkert nema íslensk náttúra á hjara veraldar. Náttúra sem skartar sínu fegursta með sól og sumaryl eina stundina og minnir svo harkalega á mátt sinn og megin þegar hún hrifsar til sín lítinn fiskibát og tekur eitt mannslíf í leiðinni. Náttúra sem er ótamin þrátt fyrir margvíslegar tilraunir mannsins til að koma á hana böndum. Á stað eins og Hornströndum skynjar maður hvað náttúran er stór og maðurinn lítill og magnvana gagnvart henni. Þar kemst maður líka nálægt því að skynja hversu hörð lífsbaráttan var á Íslandi í gegnum aldirnar þegar samgöngur voru með allt öðrum hætti en nú og öll samskipti við umheiminn tóku vikur og mánuði í stað örfárra sekúndna í dag, þegar húsakostur var rakur og kaldur og margir bjuggu saman í miklum þrengslum, þegar þurrir fætur og langar heitar sturtur voru fjarstæðukenndur vísindaskáldskapur, þegar kallað var á prest vegna alvarlegra veikinda, ekki læknishjálp því hana var einfaldlega ekki að fá. Við megum vera þakklát fyrir þær ótrúlegu framfarir sem orðið hafa í íslensku samfélagi á síðustu öld, framfarir sem gera það að verkum að við lifum hrein og þurrum fótum í hlýjum og rúmgóðum húsum, sítengd við umheiminn og prestar almennt komnir niður fyrir lækna á útkallslistanum.

Nútímaþægindi hafa vissulega létt okkur lífsbaráttuna en þau hafa ekki endilega einfaldað líf okkar, ef eitthvað er þá held ég að þau hafi á ýmsan hátt flækt málin verulega fyrir okkur. Hluti af flækjunni er lífsgæðakapphlaupið sem við Íslendingar höfum tekið þátt í af öllu hjarta og ekki sýnt neitt hálfkák í þeim efnum. Við höfum hlaupið eftir nælonsokkabuxum, hrærivélum, fótanuddtækjum, kvöldvorrósarolíu, ferðatilboðum til sólarlanda, flatskjám og öllu mögulegu öðru af lífsnauðsynlegum gæðum sem hafa verið ómissandi þá stundina en þegar litið er í baksýnisspegilinn kemur í ljós að þau höfðu óveruleg varandi áhrif á líf okkar. Það má því segja að hér sé um tilbúið flækjustig að ræða, spretthlaup á eftir forgengilegum hlutum eru ekki til þess fallin að auka lífshamingju okkar.

Annar angi af sjálfskapaðri lífsgæðaflækjunni er sá að hægt er að ná í hvern sem er, hvar sem er og hvenær sem er og það telst kostur. Við höfum talið okkur trú um að við séum svo ómissandi að við getum hreinlega ekki annað en verið sífellt til taks. Það getur líka farið mjög í taugarnar á okkur þegar við viljum ná í fólk og það svarar hvorki símtölum né skilaboðum. Þessi stöðugi aðgengileiki gerir það að verkum að við eigum hvergi griðastað. Þetta kristallast kannski í rafrænu einelti sem er algengara en maður vill vita, áður fyrr átti fólk skjól á heimili sínu en nú er hægt að ná til allra, heima og heiman.

Sumarfríið mitt á Hornströndum var dásamlegt. Þegar ferðin yfir Ísafjarðardjúp var hálfnuð slökkti ég á farsímanum mínum og fann hvernig yfir mig færðist ró og friður. Ég var búin að aftengja mig frá alheiminum, stikkfrí næstu tíu daga, laus við allt áreitið sem fylgir símanum. Framundan voru tíu frídagar þar sem eina rafræna tengingin við umheiminn voru fréttatímar rásar 1 í hádeginu og á kvöldin. Börnin á svæðinu létu sjónvarps- og tölvuleysið ekki á sig fá og undu sér hið besta, stífluðu læki, tíndu skeljar og steina, stunduðu skylmingar með hvannarstönglum, hlupu berfætt í flæðarmálinu og fylgdust með stórum hópi yrðlinga sem lék sér á sólpalli næsta húss. Sumarfríið fór í að njóta lífsins með nánustu fjölskyldu, njóta kyrrðar í dásamlegri náttúru, njóta stundarinnar.

Þegar ég kom heim beið mín fjöldinn allur af netpóstum, þar af að minnsta kosti þrír þar sem sendendur voru mjög pirraðir á því að ég skyldi ekki hafa svarað um hæl. Ég vona að þeir lesi þennan pistil.

 

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Sumar- og nagladekk

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó